Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir ráð­herra há­skóla-, iðnaðar og ný­sköpunar á heiðurinn af viku­mat­seðlinum að þessu sinni þar sem hún settur saman sína upp­á­halds rétti. Ás­laug elskar góðan mat og veit fátt betra en að bjóða fjöl­skyldu og vinum heim og njóta góðs matar. Hún segir það vera nærandi og með þeim sæki hún sína orku.

Mikið er um annir hjá Ás­laugu og verk­efnin í nýju ráðu­neyti eru mörg. „Það gengur ó­trú­lega vel og það er mikið að gerast í nýju ráðu­neyti há­skóla-, iðnaðar og ný­sköpunar. Dagarnir mínir eru oft mjög langir enda dag­skráin þétt,“ segir Ás­laug.

„Mér gefst því ekki oft mikill tími til að huga að viku­mat­seðli og undir­búa kvöld­mat sem tekur langan tíma. Ég hins vegar elska góðan mat og veit fátt betra en að bjóða fjöl­skyldu minni og góðum vinum heim. Það er fátt meira nærandi en að vera með fólkinu sínu og hjá þeim sæki ég mína orku. Mér þykir því svo sjálf­sagt að bjóða fólki alltaf heim en hef alveg lent í því að koma seint í mitt eigið boð. Heimili mitt er staður þar sem vinir mínir og fjöl­skylda vita að það er opið hús, allir vel­komnir og ekkert stress.“

„Uppi­staðan í viku­mat­seðli mínum síðustu vikur voru súpur um landið allt á súpu­fundum Sjálf­stæðis­flokksins á­samt heima­bökuðum kleinum, pönnu­kökum og ástar­pungum. Lands­byggðin kann að bjóða til veislu. Ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um flat­kökurnar með silungnum í Varma­hlíð undir Eyja­fjöllum, heima­bökuðu og pönnu­kökunum í Heiðar­bæ.“

„Ef ég hins vegar næði heilli viku þar sem ég myndi elda öll kvöld vikunnar sem er býsna ó­lík­legt myndi hún senni­lega vera í þessa áttina. Ég vil hafa matinn góðan en á sama tíma ekki of flókinn.“

Mánu­dagur - Lax að hætti mömmu

„Á mínu heimili var alltaf fiskur á mánu­dögum, mamma gerði besta og ein­falda laxinn oft. Laxa­flak í ál­pappír, salt, pipar, sítrónur, hvít­lauk. Stundum tómatar og gras­lauk. Inn í ofn í 15 mínútur á 180°C gráðum. Ég sýð kar­töflur með og geri ein­falda sósu úr grískri jógurt með hvít­lauk, gúrkum og salti og pipar. Ein­falt en líka ó­trú­lega gott.“

Fiskur á mánudögum. Myndin er úr safni og ekki frá Áslaugu.
Fréttablaðið/Aðsend

Þriðju­dagur - Japanskt kjúk­linga­salat

„Þetta salat er eitt af mínum upp­á­halds og afar ein­falt að laga það.“ Myndin er úr safni og ekki frá Áslaugu.
Fréttablaðið/Aðsend

Ég steiki kjúk­linga­bita á pönnu, í lokin helli ég af vatninu og set sweet chilí sósu með og
læt malla í ör­fáar mínútur. Fullt af spínati, mangó, tómötum og rauð­lauk á stóran bakka. Ég rista síðan núðlur og sesam­fræ saman pönnu. Geri síðan sósu úr olíu (½ bolla), balsamik (¼ bolla), bætið við tveimur mat­skeiðum af sykri og soja­sósu með því og læt allt saman sjóða saman í 1 mínútu. Allt sett ofan á og þá er dýrindis salat klárt, sem er djúsí en samt hollt.

Mið­viku­dagur - Grjóna­grautur

„Ég ólst upp ná­lægt Ás­laugu ömmu minni þegar ég var yngri, enginn gerði betri grjóna­graut. Í dag finnst mér grjóna­grauturinn enn þá hrika­lega góður, ég vil hafa hann ein­faldan og set svo rúsínur, kanil­sykur og lifrarpyslu út á á­samt kaldri mjólk.“

Einföld klassík. Myndin er úr safni og ekki frá Áslaugu.
Fréttablaðið/Aðsend

Fimmtu­dagur - Pestó pasta eða pitsa

„Ég elska að gera heima­gert pestó, þar sem ég blanda saman stundum að­eins mis­munandi inni­halds­efnum eftir því hvað er til. Furu­hnetur, olía, basilíka, parmesan, hvít­laukur, salt og pipar. Sýð eitt­hvað pasta og sker svo ofan á tómata, mozzarella ost og basil. Stundum steiki ég svo rækjur með og set ofan á.“

„Ég keypti mér pit­sa­astein sem ég set í ofninn, það gerir lífið líka ein­falt með að eiga í frysti súr­deig­spit­sa­adeig og henda á það tómat­sósu, pepperóní, döðlum, chili, basil og mas­car­pone sósu þegar hún kemur út.“
Fréttablaðið/Aðsend

Föstu­dagur - Taco kvöld

„Ég elska mexí­kóskan mat og stemninguna í kringum matinn. Að bjóða góðum vinum í slíka veislu er alltaf skemmti­legt. Lifandi og lit­ríkur matur. Taco Truck merkið hefur líka ein­faldað mér það með til­búnum sósum og mjúkum taco tortillum. Stundum geri ég chili con car­ne en oftast bara kjúk­ling og rækjur. Sýð maís með parmesan osti og chili, geri heima­gert guaca­mo­le og býð upp á salsa, majónes og græn­meti með.“

Áslaug er hrifin af mexíkóskri stemningu. Myndin er úr safni og ekki frá Áslaugu.
Fréttablaðið/Aðsend

Laugar­dagur - Naut og risotto ala Magga kokkur

„Ég er svo heppin að eiga bestu vin­konu sem er meistara­kokkur. Margrét sem er kokkur á Duck & Rose hefur kennt mér mjög mikið í eld­húsinu og þökk sé henni sleppur þetta oftast til hjá mér. Þegar ég geri vel við mig á laugar­degi þá gríp ég í upp­skrift frá henni. Risotto upp­skrift frá Möggu og hef með dún­mjúkt nauta­kjöt og chimichurri.“

Chimichurri Möggu

1/2 bolli ó­lífu­olía

2 msk. rauð­víns­edik

1 búnt smátt skorin stein­selja

1 búnt smátt skorið fáfnis­gras eða orega­nó (eða bæði þá 50/50)

3-4 hvít­lauks­geirar smátt skornir eða marðir

1/2 rauð­laukur smátt skorinn

1 ferskur chilli smátt skorinn

1 tsk. þurrkaðar chilli flögur

Salt og pipar eftir smekk

Sveppari­sotto Möggu

400 g risotto-grjón,
100 g Kastaníusveppir
1 stór Portobello sveppur
75 g smjör
2 hvítlauksgeirar
1 laukur fínt skorinn
1,5 dl hvítvín (má sleppa)
1,5 lítrar kjúklingasoð
100 g parmesan niðurrifinn eða Feykir
Salt og pipar

Ég byrja á því að steikja sveppina með smjöri og krydda með salt og pipar. Á meðan sýð ég upp á vatni með sveppa og kjúk­linga­kraft. Þegar sveppirnir eru klárir tek ég þá til hliðar. Og set smá oliu í pottinn þegar hún er orðin heit set ég laukinn og svo fara grjónin út í steikja smá og bæta svo hvít­víni við það þarf að hræra stöðugt þegar grjónin eru búin að draga í sig hvít­vínið bætir maður soðinu smátt og smátt saman við svo að lokum set ég rifinn parmesan eða feykir, rjómann og svo blanda ég sveppunum út í og set jafn­vel hluta af þeim ofan á.

Það er gott að eiga góða vini.
Fréttablaðið/Aðsend

Sunnu­dagur - Anda inn og anda út

„Fyrir konu á hrað­ferð sem fær oft ó­vænta gesti í mat er dósamatur mitt leyni­vopn. Andacon­fit fer inn í ofn í korter, tuttugu mínútur. Kar­töflug­ratín frá Þykkva­bæ sett í eld­fast mót og ostur yfir. Kreisti appel­sínu yfir gott salat á­samt góðri ó­lífu­olíu. Þetta er veislu­matur án undir­búnings og klikkar aldrei.“

Veislumatur án undirbúnings sem klikkar ekki. Myndin er úr safni og ekki frá Áslaugu.
Fréttablaðið/Aðsend

Rósa­kremið hennar mömmu

„Frá því að ég var lítil hef ég líka haft gaman að því að baka. Það hefur nýst mér vel enda leit út fyrir um tíma að það væri skil­yrði að kunna að skreyta kökur til að komast í for­ystu Sjálf­stæðis­flokksins. Upp­á­haldið mitt er ein­föld og djúsí súkku­laði­kaka með smjör­kremi sem ég skreyti í blóma­stíl. Há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neytið fagnaði eins árs af­mæli þann 1. febrúar síðast­liðinn og við það tæki­færi bakaði ég köku fyrir sam­starfs­fólk mitt. Til að ná kreminu stífu en jafn­framt góður er upp­skrift mömmu minnar sú besta.“

250 g smjör
1 egg
2 eggja­hvítur
2 tsk. vanillu­dropar
2 pk. af flór­sykri

Þetta er allt saman þeytt saman og síðan sett ég blönduna í ein­nota sprautu poka og vel stút miðið við það hvernig ég ætla að skreyta kökuna eins og þessi til­viki sprautaði ég kreminu og formaði til eins og rósir. Eins og annað, ein­falt en klikkar ekki.

Áslaug er ekki síðri en Bjarni í bakstrinum.
Fréttablaðið/Aðsend