Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni þar sem hún settur saman sína uppáhalds rétti. Áslaug elskar góðan mat og veit fátt betra en að bjóða fjölskyldu og vinum heim og njóta góðs matar. Hún segir það vera nærandi og með þeim sæki hún sína orku.
Mikið er um annir hjá Áslaugu og verkefnin í nýju ráðuneyti eru mörg. „Það gengur ótrúlega vel og það er mikið að gerast í nýju ráðuneyti háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar. Dagarnir mínir eru oft mjög langir enda dagskráin þétt,“ segir Áslaug.
Ég vil hafa matinn góðan en á sama tíma ekki of flókinn
„Mér gefst því ekki oft mikill tími til að huga að vikumatseðli og undirbúa kvöldmat sem tekur langan tíma. Ég hins vegar elska góðan mat og veit fátt betra en að bjóða fjölskyldu minni og góðum vinum heim. Það er fátt meira nærandi en að vera með fólkinu sínu og hjá þeim sæki ég mína orku. Mér þykir því svo sjálfsagt að bjóða fólki alltaf heim en hef alveg lent í því að koma seint í mitt eigið boð. Heimili mitt er staður þar sem vinir mínir og fjölskylda vita að það er opið hús, allir velkomnir og ekkert stress.“
„Uppistaðan í vikumatseðli mínum síðustu vikur voru súpur um landið allt á súpufundum Sjálfstæðisflokksins ásamt heimabökuðum kleinum, pönnukökum og ástarpungum. Landsbyggðin kann að bjóða til veislu. Ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um flatkökurnar með silungnum í Varmahlíð undir Eyjafjöllum, heimabökuðu og pönnukökunum í Heiðarbæ.“
„Ef ég hins vegar næði heilli viku þar sem ég myndi elda öll kvöld vikunnar sem er býsna ólíklegt myndi hún sennilega vera í þessa áttina. Ég vil hafa matinn góðan en á sama tíma ekki of flókinn.“
Mánudagur - Lax að hætti mömmu
„Á mínu heimili var alltaf fiskur á mánudögum, mamma gerði besta og einfalda laxinn oft. Laxaflak í álpappír, salt, pipar, sítrónur, hvítlauk. Stundum tómatar og graslauk. Inn í ofn í 15 mínútur á 180°C gráðum. Ég sýð kartöflur með og geri einfalda sósu úr grískri jógurt með hvítlauk, gúrkum og salti og pipar. Einfalt en líka ótrúlega gott.“

Þriðjudagur - Japanskt kjúklingasalat

Ég steiki kjúklingabita á pönnu, í lokin helli ég af vatninu og set sweet chilí sósu með og
læt malla í örfáar mínútur. Fullt af spínati, mangó, tómötum og rauðlauk á stóran bakka. Ég rista síðan núðlur og sesamfræ saman pönnu. Geri síðan sósu úr olíu (½ bolla), balsamik (¼ bolla), bætið við tveimur matskeiðum af sykri og sojasósu með því og læt allt saman sjóða saman í 1 mínútu. Allt sett ofan á og þá er dýrindis salat klárt, sem er djúsí en samt hollt.
Miðvikudagur - Grjónagrautur
„Ég ólst upp nálægt Áslaugu ömmu minni þegar ég var yngri, enginn gerði betri grjónagraut. Í dag finnst mér grjónagrauturinn enn þá hrikalega góður, ég vil hafa hann einfaldan og set svo rúsínur, kanilsykur og lifrarpyslu út á ásamt kaldri mjólk.“

Fimmtudagur - Pestó pasta eða pitsa
„Ég elska að gera heimagert pestó, þar sem ég blanda saman stundum aðeins mismunandi innihaldsefnum eftir því hvað er til. Furuhnetur, olía, basilíka, parmesan, hvítlaukur, salt og pipar. Sýð eitthvað pasta og sker svo ofan á tómata, mozzarella ost og basil. Stundum steiki ég svo rækjur með og set ofan á.“

Föstudagur - Taco kvöld
„Ég elska mexíkóskan mat og stemninguna í kringum matinn. Að bjóða góðum vinum í slíka veislu er alltaf skemmtilegt. Lifandi og litríkur matur. Taco Truck merkið hefur líka einfaldað mér það með tilbúnum sósum og mjúkum taco tortillum. Stundum geri ég chili con carne en oftast bara kjúkling og rækjur. Sýð maís með parmesan osti og chili, geri heimagert guacamole og býð upp á salsa, majónes og grænmeti með.“

Laugardagur - Naut og risotto ala Magga kokkur
„Ég er svo heppin að eiga bestu vinkonu sem er meistarakokkur. Margrét sem er kokkur á Duck & Rose hefur kennt mér mjög mikið í eldhúsinu og þökk sé henni sleppur þetta oftast til hjá mér. Þegar ég geri vel við mig á laugardegi þá gríp ég í uppskrift frá henni. Risotto uppskrift frá Möggu og hef með dúnmjúkt nautakjöt og chimichurri.“
Chimichurri Möggu
1/2 bolli ólífuolía
2 msk. rauðvínsedik
1 búnt smátt skorin steinselja
1 búnt smátt skorið fáfnisgras eða oreganó (eða bæði þá 50/50)
3-4 hvítlauksgeirar smátt skornir eða marðir
1/2 rauðlaukur smátt skorinn
1 ferskur chilli smátt skorinn
1 tsk. þurrkaðar chilli flögur
Salt og pipar eftir smekk
Svepparisotto Möggu
400 g risotto-grjón,
100 g Kastaníusveppir
1 stór Portobello sveppur
75 g smjör
2 hvítlauksgeirar
1 laukur fínt skorinn
1,5 dl hvítvín (má sleppa)
1,5 lítrar kjúklingasoð
100 g parmesan niðurrifinn eða Feykir
Salt og pipar
Ég byrja á því að steikja sveppina með smjöri og krydda með salt og pipar. Á meðan sýð ég upp á vatni með sveppa og kjúklingakraft. Þegar sveppirnir eru klárir tek ég þá til hliðar. Og set smá oliu í pottinn þegar hún er orðin heit set ég laukinn og svo fara grjónin út í steikja smá og bæta svo hvítvíni við það þarf að hræra stöðugt þegar grjónin eru búin að draga í sig hvítvínið bætir maður soðinu smátt og smátt saman við svo að lokum set ég rifinn parmesan eða feykir, rjómann og svo blanda ég sveppunum út í og set jafnvel hluta af þeim ofan á.

Sunnudagur - Anda inn og anda út
„Fyrir konu á hraðferð sem fær oft óvænta gesti í mat er dósamatur mitt leynivopn. Andaconfit fer inn í ofn í korter, tuttugu mínútur. Kartöflugratín frá Þykkvabæ sett í eldfast mót og ostur yfir. Kreisti appelsínu yfir gott salat ásamt góðri ólífuolíu. Þetta er veislumatur án undirbúnings og klikkar aldrei.“

Rósakremið hennar mömmu
„Frá því að ég var lítil hef ég líka haft gaman að því að baka. Það hefur nýst mér vel enda leit út fyrir um tíma að það væri skilyrði að kunna að skreyta kökur til að komast í forystu Sjálfstæðisflokksins. Uppáhaldið mitt er einföld og djúsí súkkulaðikaka með smjörkremi sem ég skreyti í blómastíl. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið fagnaði eins árs afmæli þann 1. febrúar síðastliðinn og við það tækifæri bakaði ég köku fyrir samstarfsfólk mitt. Til að ná kreminu stífu en jafnframt góður er uppskrift mömmu minnar sú besta.“
250 g smjör
1 egg
2 eggjahvítur
2 tsk. vanilludropar
2 pk. af flórsykri
Þetta er allt saman þeytt saman og síðan sett ég blönduna í einnota sprautu poka og vel stút miðið við það hvernig ég ætla að skreyta kökuna eins og þessi tilviki sprautaði ég kreminu og formaði til eins og rósir. Eins og annað, einfalt en klikkar ekki.
