„Það er komið að þessu. Heldur betur,“ segir dagskrárgerðarkonan Viktoría Hermannsdóttir um sýningu þáttanna Hvunndagshetjur sem hún gerði kasólétt og rétt náði að klára áður en sonur hennar vildi komast í heiminn.

„Addú framleiðandi og tökuliðið voru tilbúin að taka á móti en það kom ekki til þess. Ég gekk tvær vikur fram yfir og hefði alveg getað verið lengur að þessu,“ segir Viktoría og hlær.

Þættirnir fjalla, eins og nafnið ber með sér, um venjulegt fólk sem hefur vakið athygli og hrifningu náungans fyrir óeigingjarnt starf í þágu annarra. Viktoría lýsti eftir slíkum hetjum í Fréttablaðinu í mars og sagðist þá telja víst að allir þekktu einhverjar hetjur.

Feimnar hetjur

„Það var niðurstaðan. Við fengum endalaust af ábendingum um alls konar fólk og það bara er ótrúlega gaman að sjá greinilega hversu mikið er af góðu fólki þarna úti sem er að gera alls konar,“ segir Viktoría.

Hún segist gjarnan viljað hafa fleiri hvunndagshetjur í þáttunum en stendur uppi með tólf manneskjur sem koma fram í sex þáttum. Tvær í hverjum.

„Það eru nokkrir sem ég fékk bara yfir hundrað ábendingar um. Sama fólkið, þannig að það eru alveg einhverjir þarna sem hafa haft áhrif á líf margra, þótt það hafi ekki farið sérstaklega hátt.“

Viktoría segir aðspurð að hetjurnar hennar séu það hlédrægar að aðeins hafi þurft að sannfæra þær um að vera með í þáttunum. „Ég held að flest hafi allavegana verið mjög hissa þegar við höfðum samband við þau,“ segir Viktoría og bendir á að fólk hafi vitaskuld ekki sjálft sent ábendingar um sig.

„Þetta kom bara frá fólki í kringum þau og flesta þurfti að sannfæra aðeins. Kannski ekkert mikið en þetta er kannski fólk sem er ekkert mikið að láta á sér bera. Allajafna. En við erum síðan náttúrlega með fólk í þáttunum sem hjálpar okkur svolítið að segja frá þeim. Þú kannski situr ekki sjálfur og segir „ég er frábær“. Þannig að við tölum við samferðafólk og einhverja svona sem geta lýst þeim.“

Gangverk samfélagsins

Viktoría segist telja fólk eins og það sem kemur fram í þáttunum í raun halda samfélaginu gangandi. „Að mörgu leyti erum við með samfélag sem sjálfboðaliðar halda gangandi með því að gera alls konar hluti hér og þar. Þetta er svona svo víða og ég held að samfélagið myndi ekki ganga án alls þessa fólks.

Það er svo mikið af fólki sem er að gera óeigingjarna hluti og er ekki að ætlast til að fá neitt í staðinn. Gerir þetta bara til þess að bæta samfélagið og það er svo fallegt.“

Gott veganesti

Fyrsti þátturinn verður sýndur á RÚV á sunnudagskvöld og Viktoría segist trúa því að þeir séu fólki gott veganesti inn í nýtt ár. „Fá svona smá hlýtt í hjartað og líka svo fólk hugsi kannski hvað það sjálft geti gert til að stuðla að betra samfélagi.

Ég held líka að það sé tilvalið fyrir fólk að fá svona í byrjun árs þegar allir eru að pæla einhvern veginn í hvernig þeir geti orðið betri manneskjur. Ég held líka að þetta gefi manni svo mikið að sjá einhvern veginn að maður sé að gera eitthvað gott fyrir aðra,“ segir Viktoría.

„Sumir þarna eru bara að sinna vinnunni sinni. Gera það bara sérlega vel og gera það einhvern veginn á þann hátt að eftir því er tekið og breytir einhvern veginn lífi annarra. Ég held að við getum öll tekið eitthvað svona aðeins til okkar.“