Katrín Agnes Klar opnaði einkasýninguna Myndir í galleríinu Harbinger um síðustu helgi. Sýningin samanstendur af prentverkum og ljósmyndaverkum og í sýningartexta kemur fram að í verkum sínum skoði Katrín Agnes „birtingarmyndir náttúrunnar í samhengi við mainstream myndmenningu samtímans“.

Á einum sýningarveggnum í Harbinger má sjá nokkur prentverk sem eru prentuð með svokallaðri UV prentaðferð á viðarplötur. Grunnurinn að þessum verkum eru ljósmyndir af himninum sem Katrín tók og þegar þær eru prentaðar á plöturnar myndast áferð eins og á málverki.

„Ég byrjaði að vinna með þessa tækni sem er notuð til að prenta auglýsingaskilti, fyrir nokkrum árum fyrir sýningu í Nýlistasafninu. Ég er að leika mér með eiginleika málverks og upphengingin sem vitnar í salon stíl undirstrikar það. Himinninn verður að litarými og stafrænn prentari að málaraverkfæri,“ segir Katrín Agnes.

Þrátt fyrir að um prentverk sé að ræða útfærir Katrín hverja mynd í einstöku upplagi og segir að hvert eintak sé þar að auki einstakt vegna þess að áferðin á viðnum sem notaður er sem undirlag er alltaf mismunandi og setur sitt einkenni á verkin.

Eitt aðalverkið á sýningunni er prentverk sem birtist sem forsíðumynd Fréttablaðsins 9. maí.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fréttablaðið á sýningunni

Eitt aðalverkið á sýningunni er prentverk sem ber titilinn Mynd og birtist sem forsíðumynd Fréttablaðsins föstudaginn 6. maí. Það verk samanstendur af einni pensilstroku sem er gerð með myndvinnsluforritinu Photoshop og er í sama bláa lit og einkennislitur blaðsins.

„Fréttablaðsforsíðuna mætti kalla lykilverk þessarar sýningar og ég lít á alla forsíðu prentútgáfunnar sem verkið. Verkin mynda eins konar ping-pong. Fréttablaðsforsíðan er í samtali við prentin á viðarplötunum og svo eru verkin vinstra megin við hana svolítið systkini þess. Þetta er marglaga en í dagblaðinu verður samhengið einnig viðfangsefnið,“ segir Katrín Agnes.

Verkin sem Katrín Agnes kallar systkini Fréttablaðsforsíðunnar eru annars vegar prentverk í sama stíl sem er prentað á auglýsingafánaefni og hins vegar tvö ljósmyndaverk.

„Mynd er sem sagt eitt Photoshop sprey, bara ein pensilstroka, og þetta er það sama. Ég kalla verkið Photoshop Spray Paint no. 01. Svo eru hérna tvö ljósmyndaverk, þar spreyja ég með alvöru lakki upp í loftið og tek mynd af himninum á sama augnabliki. Hér náttúrlega er himinninn aftur endurtekinn. Þetta tengist allt en eru þó sjálfstæð verk,“ segir hún.

Systurverk Fréttablaðsforsíðunnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Flest enda í sorpinu

Í list sinni víkkar Katrín Agnes gjarnan sýningarrýmið út í almenningsrýmið. Verkið sem birt var á forsíðu Fréttablaðsins endurspeglar þetta einkar vel en því var dreift ókeypis til allra lesenda Fréttablaðsins auk þess sem það hangir í miðju sýningarrýmis Harbinger.

„Ég hef eiginlega gert það frá því ég var í listaháskóla. Kannski er það líka einhvers konar ping-pong að gera myndlistina aðgengilega almenningi. Sem er að sjálfsögðu ekki ný hugmynd en það er eitthvað sem ég hef áhuga á. Svo er ég að vinna með miðla sem tengjast hversdagslegu umhverfi, fjölmiðla, auglýsingarými og auglýsingatækni,“ segir Katrín Agnes.

Ertu búin að fá mikil viðbrögð við Fréttablaðsforsíðunni?

„Já, ég fékk eiginlega bara mjög jákvæð og skemmtileg viðbrögð. Ég auglýsti verkefnið ekkert og það voru margir sem fengu þetta bara um morguninn og fóru að skoða hvað þetta væri. Það væri spennandi að vita hvað verður eftir af þessum fjölda eintaka, flest munu enda í sorpi eins og hver önnur útgáfa og einhver verða geymd – við fáum náttúrlega aldrei að vita það.“