Víkingi Heiðari Ólafs­syni píanó­leikara tókst að slá á létta strengi á tón­leikum sínum í Hörpu í kvöld og það í tvennum skilningi. Sam­kvæmt tón­leika­gestum sem Frétta­blaðið ræddi við, tókst honum afar vel til í spili sínu á flygil Hörpu, þrátt fyrir að hann væri kominn til ára sinna, eins og Víkingur benti á í við­tali í þættinum Segðu mér á Rás 1 í gær.

Rúv birti í dag frétt upp úr við­talinu við Víking þar sem tal hans um að flygill Hörpu væri of gamall var dregið saman. „Líf­tími svona flygils er um tíu ár í svona húsi. Svo verða þeir ekki lengur ein­leiks­flyglar, þá verða þeir meira kammer­hljóð­færi og missa tóna og svo fram­vegis. Það er alveg kominn tími á þetta,“ sagði Víkingur í við­talinu og skoraði á ríkis­stjórnina og Reykja­víkur­borg að fjár­magna kaup á nýjum flygli fyrir Hörpu.

Fréttin vakti nokkra at­hygli en Víkingur fann sig knúinn til að nefna sína upp­lifun af málinu við tón­leika­gesti í kvöld. Það voru ekki síst at­huga­semdir sem hrönnuðust upp um málið á sam­fé­lags­miðlum sem Víkingi var nokkuð brugðið við.

Hann sló þó öllu upp í gaman og sagði flygilinn, sem hann valdi sjálfur þegar Harpa var opnuð árið 2011, duga í eina eða tvær plötur í við­bót en þyrfti sam­keppni. Þetta væri auð­vitað besti flygillinn en hann væri ekki ó­líkur Messi eða Ron­aldo; bestur en kominn yfir þrí­tugt.