Víkingahátíðin í Hafnarfirði hefst í dag, nú þegar víkingar landsins hafa loks skriðið undan feldi sóttvarna. Hátíðin, sem stendur yfir á Víðistaða­túni fram á sunnudag, er rótgróin hluti af menningu Hafnarfjarðar og á sér fjölda fastagesta.


Dagskrá hátíðarinnar verður að vanda fjölbreytt en þar verður meðal annars boðið upp á bardagasýningar, leikjasýningu, glímukennslu, bogfimi og axarkast. Þótt stóru bardagasýningarnar hafi í gegnum árin verið stærsta aðdráttaraflið segir Jökull Tandri Ámundason, jarl hjá Rimmugýgi og einn af skipuleggjendum hátíðarinnar síðan 2018, að félagið hafi reynt að bæta við smærri viðburðum til að efla hátíðina enn frekar.


„Þarna verður steinsmiður að skera út minningarstein fyrir fráfallinn félaga, handverksfólkið okkar að sníða og jurtalita, landnámshænur til að klappa og knattleikur til að horfa á,“ segir hann. „Svo eru auðvitað nokkrir sem sækja í mjöðinn og bjórinn sem Öldur brugghús býður upp á.“


Þéttbókaðir víkingar


Víkingafélagið Rimmugýgur var stofnað 1997, tveimur árum eftir að fyrsta víkingahátíðin var haldin. Stofnfélagar voru sjö, sumir starfsmenn Fjörukrárinnar, sem fóru strax í að undirbúa næstu hátíð. Síðan þá hefur félagið vaxið til muna og telur nú 205 meðlimi á þessu 25. starfsári félagsins.


En hvað eru félagarnir að aðhafast þegar ekki er hátíð?

„Það eru bardagaæfingar tvisvar í viku, allt árið í kring fyrir utan smásumar- og vetrarfrí,“ segir Jökull Tandri. „Bogfimiæfingarnar okkar eru einu sinni í viku og það stendur til að fjölga þeim. Svo æfum við leiki, söng, handverk og förum á alls kyns námskeið og sýningar.“


Rimmugýgur hefur einnig átt í samstarfi við önnur félög á borð við Reykjavik HEMA og Glímusambandið. Þá hafa einnig verið fengnir kennarar að utan í alls konar vinnustofur sem félagarnir sækja.


Bræðralag jaðarnörda


Rimmugýgur barst til tals hjá blaðamanni á dögunum þar sem viðmælandi dásamaði liðsmenn félagsins fyrir að vera miklir höfuðnördar. Jökull Tandri tekur þar stoltur undir.


„Þetta er náttúrulega jaðar­nördasamfélag sem við erum – eins konar bræðralag, eða það sem ég kýs að kalla fjölskyldu,“ segir hann. „Það er mikið af fólki sem kemur í hópinn sem á kannski ekki annan samastað og finnur sér þessa samnörda sem elska allt sem tengist víkingaöld; handverki, bardagalist og menningu þess.“ Hátíðin hefst klukkan 11.00 í dag og aðgangur er ókeypis.