Lífið

Víkingahátíð á Víðistaðatúni

Víkingahátíð hefur verið haldin í Hafnarfirði í hartnær tvo áratugi, oftast kringum 17. júní. Víkingafélagið Rimmugýgur hefur tekið við hátíðinni sem í ár verður haldin á Víðistaðatúni. Hafsteinn Pétursson og Haukur Hallsteinsson eru félagar í Rimmugýgi.

Rimmugýgur telur um hundrað og fimmtíu virka félaga. Hér er hluti hópsins á afmælishátíð á Víðistaðatúni í fyrra. Þorsteinn R. Ingólfsson

Fyrsta víkingahátíðin í Hafnarfirði var haldin á Víðistaðatúni árið 1995 og þetta er fjórða hátíðin sem verður haldin þar,“ segir Hafsteinn sem hefur veitt Rimmugýgi forstöðu frá upphafi. „Þetta er eiginlega svona endurvakning á fyrstu hátíðinni,“ bætir Haukur við en hann er svokallaður búðastjóri. „Jóhannes á Fjörukránni hefur staðið að hátíðinni undanfarin ár en hefur ákveðið að draga sig út úr þessu hátíðahaldi og þar sem Rimmugýgur hefur verið þátttakandi í Víkingahátíð í Hafnarfirði frá upphafi fannst okkur viðeigandi að snúa aftur til upphafsins.“

Á víkingahátíð er boðið upp á fjölbreytta skemmtun. Þorsteinn R. Ingólfsson

Þeir segja að þessi hátíð verði í grunninn eins og hátíðin við Fjörukrána. „Það verða veitingar til sölu og bardagasýningar, handverk, markaður og víkingaskóli barnanna eins og verið hefur,“ segir Hafsteinn,“ en við rukkum ekki aðgangseyri, sem er kannski ein helsta breytingin.“ Haukur segir enn fremur að það sé að mörgu leyti betra að vera á grasi. „Á túninu erum við miklu nær náttúrunni og þeim heimi sem við viljum búa til. En gallinn er sá að við erum ekki jafn miðsvæðis og þegar við erum í hjarta Hafnarfjarðar. Við efumst samt ekkert um að fólk muni finna okkur því Víðistaðakirkja er mjög auðvelt kennileiti,“ segir Haukur.


Bogfimi er eitt af því sem Rimmugýgjarmeðlimir stunda og gestum verður boðið að spreyta sig við. Þorsteinn R. Ingólfsson

Stofnfélagar í Rimmugýgi voru sjö en í félagi eru nú um 200 félagar, þar af hundrað og fimmtíu sem eru virkir í starfinu. „Við erum héðan og þaðan,“ segir Hafsteinn. „Mest af höfuðborgarsvæðinu þó að þó nokkrir félagar búi úti á landi eða erlendis. Á sumrin förum við milli hátíða, bæði hér á landi og erlendis með tjaldbúðirnar okkar og búnaðinn en á veturna æfum við bardaga og bogfimi og sinnum handverki.“ Haukur bætir við að félagið geri ákveðnar kröfur um að búnaður og fatnaður fylgi settum reglum. „Félagar þurfa helst að sauma sinn eigin búning og við höfum mjög flinkar saumakonur og saumamenn sem eru mjög dugleg að hjálpa öðrum að búa til sinn eigin útbúnað, hvort sem er fatnað, tjöld, skó, hanska og svo ýmsa muni sem við þurfum eins og eldunaráhöld og þess háttar.“


Félagar í Rimmugýgi búa flestan búnað sinn til sjálfir. Hér má sjá glæsilegt tjald með öllu tilheyrandi. Þorsteinn R. Ingólfsson

Rimmugýgur er með félagsheimili og lögheimili í Hafnarfirði. „Hafnarfjarðarbær hefur staðið þétt við bakið á okkur undanfarin ár,“ segir Hafsteinn og Haukur bætir við: „Við finnum mikla velvild meðal bæjarbúa sem hafa verið duglegir að sækja hátíðina og vonumst til að sjá sem flesta á Víðistaðatúni í júní.“

Víkingahátíðin stendur frá 14.-17. júní og er opin frá 13-19 alla dagana. Hún er haldin við Víðistaðakirkju þar sem eru bílastæði en einnig stoppar vagn númer eitt skammt frá. Aðgangur er ókeypis.

Víkingabardagasýningar verða meðal skemmtunar á Víðistaðatúni á Víkingahátíð 14.-17. júní.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Kostnaður af lélegri svefnheilsu á við nýtt sjúkrahús

Lífið

Þörf fyrir fræðslu um svefn í skólum

Lífið

Skúli Mogen­sen og Gríma Björg á Sálna­safni

Auglýsing

Nýjast

Breyting á klukku myndi bæta svefn

Fimm hlutu Fjöru­verð­launin í Höfða

Kitla Ari­önu fyrir nýjasta lagið vekur blendin við­brögð

Gefur vís­bendingar um bar­áttuna gegn Thanos

Eddi­e Murp­hy mætir aftur sem afríski prinsinn

Fræga fólkið í dag og fyrir tíu árum

Auglýsing