Fyrst fannst mér að fréttir vikunnar hlytu að tengjast þessum þingmanni sem var að færa sig úr Miðflokknum. En hvers vegna ætti ég að vera að pæla eitthvað í þessum manni? Og hvað skiptir þá máli?

Ég ætla að veðja á kóngafólk og ég kunni að meta ummæli Elísabetar drottningar um að það væri pirrandi að þjóðarleiðtogar tali um að bregðast við loftslagsbreytingum en geri svo ekki neitt.

Konungur suðursins, hann Sigurður Ingi Jóhannsson, sagðist svo í lok vikunnar ekki eiga að þurfa að rökstyðja hvers vegna frelsi eigi að vera á Íslandi. Sóttvarnalög þurfi að rökstyðja en ekki hið eðlilega, venjulega ástand. Þau ummæli kann ég líka að meta.

Mér fannst partíboð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hlýtur að teljast einhvers konar alfaðir okkar, einnig nokkur tíðindi, auk þess sem vert er að halda til haga fordæmalausum vinsældum Katrínar Jakobsdóttur og hvatningu til hennar um að halda grænum áherslum VG til streitu. Köllum hana laufadrottninguna.

Jú, svo var danski prinsinn hérna og virkaði sérlega geðþekkur maður og myndarlegur með eindæmum.