Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er ekki búinn að horfa á kvikmyndina Don’t Look Up, eins og hann hafði ætlað sér.
„Ég var einmitt að ræða það við konuna mína að við þyrftum að horfa á hana en ég var bara svo uppgefinn þegar ég kom heim í gær að ég nennti ekki að horfa á sjónvarpið og fór bara að sofa,“ segir Víðir hlæjandi um nýjasta Netflix-smellinn frá Adam McKay.

Margir hafa tengt Don’t Look Up við heimsendastemninguna í kringum Covid enda er samfélagsádeila sem skartar Leonardo Di Caprio og Jennifer Lawrence í aðalhlutverkum tveggja vísindamanna sem sjá fyrir árekstur halastjörnu við jörðina. Þeim reynist síðan þrautin þyngri að fá yfirvöld til að bregðast við.
„En hún er efst á listanum núna,“ heldur yfirlögregluþjónninn áfram og fellst á að mögulega geti söguþráðurinn endurspeglað Covid-19 umræðuna á köflum.
„Ég þarf greinilega að horfa á hana bara sem vinnutengt efni,“ segir Víðir á laufléttum nótum.