Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, er byrjuð að höndla með notaða, sjaldgæfa og jafnvel stjórnmálasögulega tískuvöru á því sem hún kallar „Sölutorg Vigdísar Hauksdóttur“ á léttum nótum í samtali við Fréttablaðið.

Sölutorgið var opnað, ef svo má að orði komast, með stæl í fyrradag á Facebook-síðu borgarfulltrúans með þessum orðum: „Sendið mér skiló með verðhugmynd ef þið fallið fyrir þessum glæsigripum,“ sem eru tilkomumikil leðurstígvél, kennd við Gyðja Collection, og rúskinnstaska frá Ralph Lauren sem reynist þegar betur er að gáð mögulega vera pólitískur safngripur.

Ríkisbudda Ralphs Lauren

„Taskan er notuð,“ segir Vigdís um dömuveskið sem haldið hefur utan um fjölda viðkvæmra mála. „Hún er mjög notuð. Þetta er þingmannataskan mín, eiginlega, ef einhver vill.“

Sjálf fjárlaganefndarformannstaskan?

„Já, þetta er hún. Akkúrat. Þetta er hún,“ segir Vigdís sem því miður gat ekki með góðu móti látið blika á niðurskurðarhnífsblaðið í til dæmis Efstaleitinu í rosabullunum með vígalegum stálhælunum. Þau hafa nefnilega aldrei passað henni almennilega og eru því svo gott sem ónotuð.

„Þetta eru alveg þrusu „boots“ og bara ótrúlega, ótrúlega flott,“ segir Vigdís. Áður en hún ákvað að selja þau hafði hún íhugað að „kannski væri bara rétt að ramma þau inn og hafa þau uppi á vegg. Þau eru svo falleg.“
Myndir/VH

Sjóræningjastígvél?

Að hinum ágæta Ralph Lauren ólöstuðum vekja stígvélin sem Sigrún Lilja Guðjónsdóttir hannaði helst athygli sem Vigdís er fyrst núna að frétta að er stóra systir Dóru Bjartar, oddvita Pírata og eins höfuðandstæðings hennar í borginni.

„Ha? Ég veit það ekki … Ertu að segja mér það? Já, heimurinn er lítill og Ísland er fámennt greinilega. Ég vissi það ekki. En það er alveg sama hvaðan gott kemur en ef það er Píratalykt af stígvélunum þá eru þau kannski ekki eins falleg … Nei djók,“ segir Vigdís og hlær. „Píratarnir eru flippaðir í klæðaburði. Algerlega. En það sem mér finnst standa upp úr í þessum flottu stígvélum eru hælarnir. Þeir eru geggjaðir.

Þetta er gegnheill málmur með þessum glerbrotum inni í. Þetta er ótrúlega smart. Ég veit ekki hvernig hún fór að þessu,“ segir Vigdís sem var ekki búin að selja stígvélin þegar Fréttablaðið náði henni á fundi skipulagsnefndar í gær.

Vigdís stormar um fundarsal borgarstjórnar, sem á tískupöllum væri, í hinni eftirsóttu „borgarsjórnarkápu“ eins og hún kallar sigurkuflinn frá 2018 og síðar stírðgallann frá umsátrinu um braggann.
Fréttablaðið/Samsett

Klassísk Vigdís

Aðspurð segist Vigdís ekki hafa þungar áhyggjur af því að missa af kaupanda á meðan hún stendur í fundaþrasi við systur Gyðjunnar og aðra meirihlutafulltrúa. „Ef ég er föst á fundum þá bara hringi ég til baka. Það er bara svoleiðis.“

En er þetta ekki svolítið lýsandi fyrir æðibunuganginn í þér að kaupa stígvél sem eru einu númeri of stór? Er það ekki klassísk Vigdís Hauksdóttir?

„Jú, ég er svolítið fyrir að hugsa bara „já já“ og að ég hljóti að geta notað þetta,“ segir hún og segist gjörn á að láta skeika að sköpuðu. „Og keypti þau af því þau voru svo fögur.“

En þegar Vigdís fór að skoða málið betur, það er að segja máta stígvélin í rólegheitum heima, þá „birtist staðreyndin mér og að þau væru of stór á mig,“ segir Vigdís sem gengur í skóm númer 38 en fjárfesti í stígvélunum númer 39.

„Þannig að ég tók loksins eðlilega lokaákvörðun akkúrat núna þegar ég var að taka til í skápunum vegna þess að ég er búin að grennast svo rosalega mikið. Ég gat verið í þeim en hef bara mátað þau og gengið í þeim heima. Þau eru alveg ónotuð og ég fór aldrei neitt í þeim.

Vigdís er stokkin á endurvinnsluvagninn og hætt að henda fötum. Hún íhugar alvarlega að selja jafnvel grænu kápuna kennda við formann fjárlaganefndar „sem ég var í þegar ég sigraði borgarstjórnarsætið.“
Fréttablaðið/Samsett

En ég hefði getað sloppið en núna þegar ég er búin að grennast svona mikið þá bara skrölta þau á mér og ég ætla nú sko ekki að fara að fótbrjóta mig í þeim því þetta þarf alveg að passa að fætinum þegar maður er á svona hælum.“

Hinsti línudansinn

„Ég var bara orðin allt of feit. Ég fitnaði um leið og ég tók sæti í borgarstjórn. Það gerðist það sama á þinginu,“ segir Vigdís þegar hún er spurð hvað kom til. „Þetta er svo mikil kyrrsetuvinna og þá læðast kílóin aftan að manni og setjast á mann. Svo bara ákvað ég 1. mars í fyrra að fara bara í átak og á lágkolvetnafæðu og hreyfa mig mjög mikið þannig að þetta bar þennan svakalega flotta árangur. Það er allt hægt þegar viljinn er fyrir hendi.“Vigdís segist vera að íhuga alvarlega að bæta við flíkum á sínu stafræna kolaporti og ber þar hæst jakka tvo sem hún talar um sem „svolítil stöðutákn“. Pólitísk, vitaskuld. „Í fyrsta lagi græni jakkinn sem ég var í þegar ég vann kosningasigurinn 2013 með tvo menn inni í Reykjavík suður. Kápa formanns fjárlaganefndar,“ segir Vigdís og víkur að krúnudjásninu eftirsótta, jakka sem er eihvers konar júníform braggaumsátursins í Nauthólsvík.

„Það er kápan sem ég var í þegar ég sigraði borgarstjórnarsætið. Þessi röndótta, gula og bláa. Ég er búin að fá fyrirspurnir um hvort hún er til sölu og það var ítrekað aftur núna eftir að það kom einhver smáfrétt þarna um að ég væri búin að grennast þannig að ég hugsa að þessar tvær fari inn á sölutorg Vigdísar Hauksdóttur næst.“

Ertu bara að rótast í skápum og rekast á svona eitthvað til að selja? Það er ekkert hart í búi hjá borgarfulltrúanum er það?

„Nei, Guð hjálpi þér! En ég er sko að taka þátt í sem sagt þessari bylgju sem er núna í samfélaginu sem er að endurnýta hluti og þá er mjög eðlilegt að ganga alla leið í því og bjóða fólki til kaups það sem maður á og gengur síðan í endurnýjun lífdaga á einhverri annarri flottri konu en mér,“ segir Vigdís, sem er þannig stokkin á endurvinnsluvagninn af jafn heilum hug og hún tekur ekki í mál að teika borgarlínuna umdeildu.

Er að taka til í öllum fundaföllunum Hefur einhver áhuga á að kaupa: A) þessi flottu stígvél nr. 39 (ónotuð) frá...

Posted by Vigdís Hauksdóttir on Tuesday, March 10, 2020

Talandi um línudansa þá er nú Framsóknarflokkurinn svolítill línudansflokkur þannig að það má kannski spyrja hvort þú hafir hugsað stígvélin í slíkt?

„Ég er í Miðflokknum og hef aldrei stundað línudans,“ svarar Vigdís ákveðið. „Það er kannski minn fyrsti og síðasti línudans að skipta úr Framsókn í Miðflokkinn. Minn hinsti línudans var að fara á milli.“

Vigdís í öruggum hælaförum gyðjunnar

„Þetta eru mjög flott stígvél og eru orðin mjög sjaldgæf, myndi ég ætla, enda voru þau nú sjaldgæf fyrir vegna þess að ég framleiddi þau í litlu magni á sínum tíma. Þannig að þetta er alveg einstakt tækifæri,“ segir Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, skóhönnuður og framkvæmdastjóri Gyðja Collection, og hlær þegar hún lítur yfir löngu farinn veg.

Henni telst til að hún hafi sent þessa tilteknu línu frá sér fyrir áratug eða svo. „Þarna var ég svolítið mikið í því að gera öðruvísi hæla. Stígvélin voru með stálhælum með svona glerbrotum í. Það var alls konar svona í gangi og mikið af demöntum. Það var svo gaman að pimpa skóna upp með flottum hælum,“ segir Sigrún Lilja og greinilegt er að þær Vigdís Hauksdóttir standa í sömu djúpu hælaförunum í þessum efnum.

Skógyðjunni Sigrúnu Lilju var skemmt þegar hún frétti að einn helsti ljárinn í stráþúfum litlu systur hennar, Dóru Bjartar oddvita Pírata, væri að losa sig við stálhæklastígvélin sem hún hannaði.
Fréttablaðið/Stefán

Hún segir það ekkert leyna sér þegar „maður er á flottum hælum og svo er ég bara alger hrafn og rosalega hrifin af öllu sem glitrar og það sést alveg í öllu sem ég geri og hef gert“.

Sigrún Lilja segist ekki muna nákvæmlega hvað stígvél eins og Vigdísar seldust á þegar hún lagði línurnar með þeim en giskar á að verðið hafi verið um 35.000 krónur sem gróflega reiknað og án ábyrgðar væri um 50.000 á núvirði.

„Í klæðaburði erum við Dóra eins ólíkar og hugsast getur þannig að ég hugsa að það sé ljóst að Vigdís er nokkuð örugg,“ segir Sigrún Lilja um systur sína sem hefur tekið nokkrar snerrur við Vigdísi.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Í klæðaburði erum við Dóra eins ólíkar og hugsast getur þannig að ég hugsa að það sé ljóst að Vigdís er nokkuð örugg,“ segir Sigrún Lilja og bætir við að hún sé engan veginn pólitísk en hins vegar tengi brennandi áhugi þeirra systra á andlegri og líkamlegri rækt þær saman.

„Vissi hún nokkuð hver ég var?“ spyr Sigrún Lilja og skellir upp úr spurð um væringar borgarfulltrúanna Vigdísar og litlu systur hennar, Dóru Bjartar. „Við Dóra erum náttúrlega rosalega ólíkar á allan hátt en erum engu að síður bestu, bestu vinkonur og eins nánar og mögulegt er,“ segir stígvélagyðjan og bætir við að Vigdís sé því þrátt fyrir allt réttum megin tískulínunnar.