„Ég er ekkert að segja að þetta sé einhver álfur en þetta er svolítið fríkað,“ segir tónlistarkonan Vigdís Howser Harðardóttir í samtali við Fréttablaðið.
Vigdís birti býsna athyglisvert myndband á Instagram-síðu sinni í dag en á því má sjá einhverskonar furðuveru við Dettifoss. Vigdís hefur verið á ferðalagi um landið undanfarna daga og það var ekki fyrr en hún skoðaði myndbandið í símanum sínum á Seyðisfirði í gærkvöldi að hún rak augun í umrædda furðuveru. Vigdís fullyrðir að ekki hafi verið átt við myndbandið á neinn hátt.
Ómögulegt að komast þangað
Vigdís óskaði eftir því að fylgjendur hennar segðu sitt álit um hvað það er sem sést á myndbandinu. Hún segir að hún og kærasti hennar hafi verið á svæðinu í drjúga stund í gærkvöldi og enginn hafi verið fyrir framan þau. Þá séu aðstæður á svæðinu þannig að ómögulegt sé fyrir fólk að klöngrast þarna.
„Það er ekkert þarna fyrir neðan,“ segir Vigdís og bætir við að hún sé búin að heyra ýmislegt. Að þetta hafi verið svartálfur eða jafnvel einhverskonar djöfull. Hún segir að um 10 manns hafi verið á svæðinu, flestir á útsýnispalli rétt hjá, en hún og kærasti hennar hafi farið nær fossinum þar sem hann hafi meðal annars tekið myndir. „Ég súmmaði svona inn og var ekkert að pæla í hvað ég væri að gera,“ segir Vigdís.
Forvitnilegt myndband
Vigdís segist þó ekki ætla að halda því fram að þarna sé eitthvað yfirnáttúrulegt á ferðinni en myndbandið sé þó athyglisvert og þess vegna hafi hún ákveðið að birta það.
Hún segist þó hafa rekist á myndbönd á TikTok þar sem fólk fullyrðir að það hafi séð álfa og náð af því myndum. Hingað til hafi hún tekið slík myndbönd með mátulegum fyrirvara en þær myndir og myndbönd líkist furðuverunni sem Vigdís náði myndum af.
Myndbandið má sjá hér að neðan og þá má sjá allt myndbandið í „story“ hjá Vigdísi ef farið er inn á Instagram-síðuna hennar.