„Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,” segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og hlær þegar hún er spurð út í prjónapeysu sem skartar merki Miðflokksins og hún frumsýndi á Facebook fyrir stundu. „Peysan geymir sögu Miðflokksins og safnar saman framtíðarsögu flokksins,“ heldur Vigdís áfram brosandi.

„Það falla allir í stafi, enda hugmyndin góð,“ segir Vigdís þegar hún er innt eftir því hvernig viðbrögð fólks hafa verið við peysunni sem hún gerði sér lítið fyrir og prjónaði sjálf.

„Jú ég prjónaði hana sjálf og bara eitt eintak til eins og það er bara til eitt eintak af mér,” segir Vigdís sem prjónaði Miðflokkshrossið í peysuna sína eftir mynstri sem Arnhildur Ásdís Kolbeins hannaði fyrir hana.

Þótt peysan sé einstök eins og er telur Vigdís þó víst að fleiri vilji eignast slíka flík þannig að einhvers konar fjöldaframleiðsla er ekki útilokuð á þessu stigi málsins. „Það vilja alveg örugglega fleiri eignast svona peysu sem væri til dæmis flottur einkennisbúningur fyrir okkur Miðflokksmenn,“ segir Vigdís og skellir á skeið:

„Litir flokksins og hvíti hesturinn okkar í einni flík. Geri aðrir betur. Enginn flokkur hefur rutt þessa braut fyrr.“

Miðflokkspeysan var vígð í gær 🦄🦄🦄 Eigið góðan sunnudag 😘

Posted by Vigdís Hauksdóttir on Sunday, 12 July 2020