Minningar.is er ný vefsíða sem gerir notendum kleift að setja upp minningarsíðu í nafni látinna ástvina á opinberum vettvangi, án endurgjalds. Þar má deila minningarorðum, ljósmyndum og myndböndum sem tengjast hinum látna.

Á skírdag hófst viðtalsröð á vefsvæðinu þar sem Sirrý Arnardóttir, sem jafnframt er talsmaður verkefnisins, tekur myndbands­viðtöl við þjóðþekkta Íslendinga um látna ástvini.

Séra Jóna Hrönn Bolladóttir er fyrsti viðmælandinn í röðinni og rifjar upp minningar um föður sinn séra Bolla Þóri Gústavsson.

Lokaverkefni við HR

Aðspurð um tildrög verkefnisins svarar Sirrý: „Þetta byrjar þannig að þrír ungir menn, þar á meðal Kjartan Örn Bogason, voru í HR í hugbúnaðarverkfræði. Þessi hugmynd hafði verið í fjölskyldunni hjá Kjartani í nokkurn tíma,“ segir hún.

„Þeir sömdu við HR um að þetta yrði lokaverkefnið þeirra, að gera þessa síðu.

Svo útskrifuðust þeir með BS í hugbúnaðargerð og fóru að vinna að þessu.“

Næst hafi þríeykið fengið englafjárfesta til liðs við sig til að fjármagna uppsetningu síðunnar, sem Sirrý segir umfangsmikla. „Þetta er ofboðslega mikil forritunarvinna og margt sem þarf að huga að. Eðli málsins samkvæmt þarf þetta að vera ofboðslega traust og vandað.“

Einfalt viðmót lykillinn

Hún segir að síða af þessu tagi þurfi að vera mjög einföld. „Sumir eru bara í áfalli þegar þeir eru að tilkynna andlát þannig að það má ekki vera neitt flækjustig þarna,“ segir hún.

Minningar.is fékk íslensku vefverðlaunin í flokknum efnis- og fréttaveita ársins.

„Við opnuðum þetta við hátíðlega athöfn á Bessastöðum rétt fyrir síðustu jól og síðunni hefur verið gríðarlega vel tekið,“ segir Sirrý.

„Það er aragrúi af fólki sem fer þarna inn og les minningargreinar og stofnar síður um látna ástvini, bæði fólk sem er löngu dáið eða nýfallið frá.“ Þá segir hún að fólk nýti sér í auknum mæli að setja inn ljósmyndir frá ýmsum tímabilum í lífi hins látna.

„Þú getur stofnað minningarsíðu og síðan áttu hana sjálfur, en ekki Facebook eða annað stórfyrirtæki,“ segir Sirrý. Gögnin á minningar.is eru geymd á Firebase, sem er þjónusta á vegum Google.

Efnið háð höfundarrétti

Nokkur umræða hefur skapast í kringum fréttamiðla sem birt hafa veffréttir upp úr minningargreinum í óþökk aðstandenda. Á vefsíðunni segir að minningar.is sé háð höfundarrétti, og höfundar aðsends efnis eigi höfundarrétt að sínu efni á vefnum.

Öðrum notendum sé aðeins heimilt að afrita efni vefsins til persónulegra nota og því sé öll dreifing og frekari afritun óheimil.

Sem stendur er ekki hægt að læsa minningarsíðunum til þess að halda vefsvæðinu eingöngu innan hóps á borð við fjölskyldu, en Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri minningar.is, segir að í áframhaldandi þróun vefjarins sé svokallað fjölskyldusvæði í skoðun, sem hægt yrði að læsa.