Að­dragandinn að einu frægasta við­tali veraldar við Díönu prinsessu á sjón­varps­stöðinni BBC frá 1995 var miklu verra í raun­veru­leikanum heldur en það sem fram kom í fimmtu seríu af The Crown á Net­flix.

Þetta segir Guð­ný Ósk Lax­dal, sér­fræðingur í bresku konungs­fjöl­skyldunni, í fyrsta þætti af Crown­varpinu, við­hafnar­hlað­varpi Frétta­blaðsins um The Crown. Hlusta má á þáttinn neðst í fréttinni og á Spoti­fy.

„Það er svo margt í þessari seríu sem er ekki farið í. Það er svo margt sem var svo miklu verra,“ segir Guð­ný. „Til dæmis við­talið sem hún var plötuð í. Það kom skýrsla út í fyrra þar sem var ná­kvæm greining á því sem gerðist.“

BBC hefur beðist af­sökunar á við­talinu en sjón­varps­maðurinn Martin Bas­hir laug að prinsessunni í að­draganda þess. Þá gekk hann svo langt að falsa gögn um meintar njósnir starfs­fólks hennar.

Við­talið kemur fram í Net­flix seríunni nýju. „Það er ekki farið nærrum því í það hversu al­var­legt þetta var. Þetta var miklu verra,“ segir Guð­ný.

„Barn­fóstra Vil­hjálms og Harrys til dæmis er rekin af Díönu því hún fær upp­lýsingar um að hún sé að hlera. Eftir að skýrslan kom út í fyrra fær þessi barn­fóstra greiddar bætur af því að hún missti vinnuna á röngum for­sendum. Það er ekki einu sinni snert á þessu í þættinum,“ segir Guð­ný.

„Hann laug líka að henni að Vil­hjálmur væri líka að njósna að henni fyrir pabba sinn. Það var ekkert farið út í þetta og það kom mér á ó­vart að þau hefðu bara skellt þessu í einn þátt.“

Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.