Systur, þær Sigga, Beta og Elín Eyþórsdætur eru á leið til landsins eftir þátttöku í Eurovision keppninni í Tórínó í vikunni sem leið. Fréttablaðið náði tali af þeim þegar þær stigu um borð í vél Icelandair, og áhöfn og farþegar klöppuðu fyrir þeim í tvígang á meðan flugþjónustufólk klæddist viðhafnarfatnaði með íslenska fánanum.

Samkvæmt erlendum blaðamönnum sem ræddu við Fréttablaðið, vöktu Systur athygli fyrir sérstaklega ljúfa og fagmannlega framkomu í viðtölum við erlendu pressuna. Aðspurðar hvort að þær hafi viðhaft ákveðna eða meðvitaða nálgun í samskiptum við erlenda fjölmiðla, svarar Elín: „Ekkert af þessu, hvorki Söngvakeppni né Eurovision ferðalagi var fyrirfram ákveðið - nema lagið og búningarnir. Þetta var algjört flæðisferðalag og í góðu flæði frá upphafi til enda,“ segir hún,

„Við ákváðum frá byrjun að við myndum vera við sjálfar alltaf,“ bætir Sigga við. „Við vorum aldrei að segja eitthvað sem ekki kom á hjartanu, en við lærðum á sama tíma svolítið inn á hvernig við gætum verið í viðtali og talað um það sem skiptir máli,“ og Beta bætir við að þær hafi einnig haft gott fólk í kringum sig, reynslubolta sem hefðu farið margsinnis á Eurovision. „Við báðum um að okkur yrði aldrei ritstýrt,“ segir Beta.

„En það sem ég vissi ekki persónulega er að þetta er rosalega mikil vinna.“

Það hlýtur að vera sérstakt að standa á sviði fyrir framan tvö hundruð og fimmtíu milljónir manna og keppa í tónlist fyrir hönd heillar þjóðar. Aðspurðar um þá upplifun, með tilliti til álags, svarar Elín: „Þessi upplifun er ótrúlega einstök. Við göngum frá þessu ferðalagi með þakklæti í hjarta og við göngum stolt frá þessu,“ segir hún. „En það sem ég vissi ekki persónulega er að þetta er rosalega mikil vinna.“

Sigga tekur heilshugar undir orð systur sinnar og bendir á að keppendur í Eurovision séu í prógrammi frá morgni til kvölds.

Systkinin fjögur: Elín, Sigga, Eyþór og Beta.

Keppendur frá stríðshrjáðri Úkraínu fóru með sigur í keppninni á laugardagskvöld. Systurnar voru eitt fárra keppnisliða sem tók skýra afstöðu í málinu og voru meðal annars áminntar af Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir að segja „Slava Ukraini,“ á meðan æfingu stóð.

„Við unnum þegar Úkraína sigraði,“ segir Beta og Elín systir hennar tekur undir það. „Við erum vinningshafar í 23. sæti.“

„Sigur Úkraínu staðfesti samheldni Evrópu og þrá allra eftir friði,“ segir Sigga.

Aðspurðar hvað sé framundan svara þær systur að von sé á lagi strax í næsta mánuði. „Þetta er bara byrjunin,“ segir Elín. „Það eru spennandi tímar framundan.“