Geimúlfarnir í Subwoolfer hafa vakið mikla athygli í Eurovision keppninni. Framlag Noregs, Give That Wolf a Banana, virðist sérstaklega vinsælt meðal Íslendinga og er að sögn fjölmiðlafulltrúa norska hópsins í öðru sæti yfir mest spiluðu lögin á Spotify á Íslandi.

Norðmenn munu sennilega tryggja sér tíu eða jafnvel tólf stig frá nágrannalöndum sínum ef fjöldi atkvæða er í samræmi við vinsældir þeirra í spilun samkvæmt reikniritum Spotify.

Í Tórínó-borg eru söngvararnir stöðugt í karakter og taka aldrei niður grímuna. Þeir segja heldur ekki orð, enda tala persónur þeirra aðeins mánamál, þeir verandi tveir gulir úlfar frá tunglinu.

Fréttablaðið settist niður með tvíeykinu sem kallar sig Jim og Keith og túlki þeirra.
Fréttablaðið/Nína Richter

Fréttablaðið hefur fylgst náið með norska hópnum þessa vikuna og það er greinilegt að hlutverkið tekur á, sérstaklega fyrir túlkinn sem þarf stöðugt að spinna ný svör fyrir heimspressuna, sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Tvíeykið hlýtur líka vera komið með ógeð af því að vera kappklætt í ítalska hitanum, í gulan búning undir jakkafötum með stór og þykk úlfahöfuð í þrjátíu stiga hita. Það má því velta fyrir sér hvort að hópurinn sé kominn með leið á sínu eigin leikriti. Því, að geta ekki átt alvarleg viðtöl um tónlistina, stöðuna í Evrópu og keppnina almennt.

Fréttablaðið settist niður með tvíeykinu sem kallar sig Jim og Keith og túlki þeirra, og bað þá að skýra aðeins frá aðstæðum auk þess sem leitað var eftir viðbrögðum þeirra við íslenska framlaginu.

Hverjir eru bak við grímurnar?

Norska dagblaðið Verdens Gang, sem fletti ofan af Tinder-svindlaranum, hvers sögu Netflix heimildarmyndin Tinder Swindler byggir á, telur líklegt að mennirnir bak við tvíeykið séu norski söngvarinn Gaute Ormåsen og Bretinn Ben Adams. Blaðamenn VG mættu fyrir utan tónleikahöll í Noregi, þar sem upptaka var í gangi fyrir Eurovision lagið, og sáu bíla í eigu söngvaranna á bílastæði fyrir utan.

Gaute og Ben.

Sömuleiðis eru kenningar á lofti um að Ylvis bræðurnir séu bak við Subwoolfer, enda minnir framlag Noregs óneitanlega á lög eftir þá bræður eins og What does the fox say og Jan Egeland.

Þegar Fréttablaðið ræddi við norska Júrófara sögðu þeir að Subwoolfer væri verst geymda leyndarmál Noregs, en vildu þó ekki staðfesta hverjir væru bak við grímurnar.

Ylvis bræður, Vegard and Bård Ylvisåker.