Lauri Ylönen, söngvari rokk hljómsveitarinnar The Rasmus sem keppir fyrir Finnland í Eurovision með laginu Jezebel, segir margt við Eurovision minna sig á fyrstu árin þegar hljómsveitin skaust upp á stjörnuhimininn með laginu In the shadows.

„Aðdáendur okkar hafa grátbeðið okkur í mörg ár að taka þátt. En það var aldrei góður tími til þess,“ útskýrir Lauri í samtali við Fréttablaðið. Hann hefur búið lengi í Bandaríkjunum og segir gott að tengjast aðdáendum sínum og öðrum listamönnum í Evrópu.

„Við þurftum að hætta við öll tónleikaferðalögin svo við ákváðum að skella okkur í Eurovision.“

Lagið Jezebel samdi Lauri með tónskáldinu Desmond Child, manninum á bak við slagara á borð við I was made for lovin' you með Kiss, I Hate Myself for Loving You með Joan Jett & The Blackhearts og Poison með Alice Cooper.

„Desmond Child er hetjan mín. Ég var með plaggat af honum í herberginu mínu og tónlistin hans veitti mér mikinn innblástur. Hann heyrði svo um mig þegar ég samdi In The Shadows, sem var einmitt innblásið af honum. Það er magnað að geta samið lag með hetjunni sinni.“

„Þá komu þessar yndislegu systur frá Íslandi og spurði mig hvort ég væri ekki í lagi.“

Þrjár mínútur til að tengjast fólki í gegnum skjáinn

Lauri segir sérstaklega skrýtið að syngja fyrir sjónvarp.

„Ég vil alltaf tengjast áhorfendum í sal en ég þarf líka að hafa í huga að það eru kannski tvö hundruð milljón manns að horfa á okkur í sjónvarpi. Þá þarf ég að syngja í myndavélina og reyna að tengjast fólki í gegnum skjáinn. Maður hefur bara þrjár mínútur á sviði til að gefa allt. Engin pressa,“ segir hann og hlær.

Margir keppendur hafa haldið sig í hólfum vegna reglna um Covid próf á 72 klukkustunda fresti. Lauri spjallaði til dæmis við Fréttablaðið úr hótelherbergi sínu.

Maskarinn lak í rigningunni

Opnunarhátíðin fór fram í glæsilegri höll í útjaðri Tórínó í gær. Alþjóðlega pressan stóð lengi á hliðarlínu túrkis dregilsins á meðan hitaskúrir dundu á gestum. Þess á milli brutust sólargeislarnir fram og vermdu vanga og þurrkuðu upp hárgreiðslur og förðun sem var afrakstur margra klukkustunda vinnu.

„Það var hellidemba og öll andlitsmálningin mín var farin að leka. Ég var með mikið dökkt í kringum augun svo ég leit út eins og ég hefði verið að gráta. Þá komu þessar yndislegu systur frá Íslandi og spurði mig hvort ég væri ekki í lagi. Þær virtust mjög áhyggjufullar og bara: Æj Lauri, er allt í góðu,“ segir Lauri og hlær.

„Ég var virkilega að njóta mín en leit örugglega út eins og ég hefði verið í miklu uppnámi. Þær voru svo elskulegar að passa upp á mig.“