Húbert Nói Jóhannesson myndlistarmaður sýnir verk í Portfolio galleríi að Hverfisgötu 71. Sýningin hefur yfirskriftina Innri-Ytri veruleiki. Þetta er 35. einkasýning listamannsins og á henni eru ný og eldri verk.

Verkin á sýningunni eru fimmtán og eiga í sam­tali inn­byrðis og við sýn­ing­ar­rýmið. „Elsta verkið er geómetrískt verk, hluti arkitektúrs úr Gallerí Sólon Íslandus sem ég gerði eftir minni. Hugsunin á bak við þessi verk var viðleitni til að stöðva tímann. Á sínum tíma kynnti ég þessi staðbundnu verk sem litninga úr rýminu og nú hefur þessi litningur sem ég gerði 1993 tvöfaldað sig,“ segir Húbert Nói. Við hliðina á verkinu er nú kominn skúlptúr eða hluti arkitektúrs, frásögn, úr Gallerí Sólon Íslandus þannig að annað sýningarrými er nú til sýnis í þessu sýningarrými hér.

„Það er til verk af sama toga úr sal Nýlistasafnsins, þá á Vatnsstíg 3, og hugur minn stendur til þess að endurgera þann sal út frá því málverki sem frístandandi leikmynd í stóru rými, til dæmis Listasafni Íslands, og bjóða valinkunnum listamönnum að sýna þar í stóra salnum í gamla Nýló,“ segir Húbert Nói.

Annað verk er málverk af gluggapósti í sýningarrýminu. „Ég lagði þennan gluggapóst á minnið og málaði hann og hengdi myndina síðan upp við hliðina á gluggapóstinum. Þannig á verkið í samtali við sýningarrýmið og endurspeglar það,“ segir listamaðurinn. Annað dæmið um þetta samtal frá árinu 1995 er listaverk á vegg og í nánd við það er málverk af þessu sama listaverki upphengdu í rýminu.

Hauskúpa og bílkerti

Á sýningunni er hauskúpa sem listamaðurinn gerði úr leir og postulíns-bílkertum sem mynda tanngarð. „Hauskúpan kom dálítið baka megin inn í mitt höfundarverk. Ég fer oft í göngutúra með hundinn minn á Ægisíðu. Þar voru bílaverkstæði áður fyrr og karlarnir virðast hafa hent bílkertum út í sjó og núna er sjórinn að skola þessum kertum aftur á land. Þessi kerti fönguðu athygli mína og ég fór að safna þeim og setja í vasana. Svo fór hugmynd um að nota þá í verk að þróast í tengslum við umræðuna og ábendingar vísindamanna um hamfarahlýnun. Nánast eina leiðin til að túlka eða takast á við mögulega framtíð er symbólismi og þetta verk er táknmynd um mögulega framtíð fyrir tilverknað mannsins. Þarna er vera með bílkerti í öndunarveginum sem framleiða koldíoxíð við bruna á jarðefnaeldsneyti. Bílkertin staðsetja einnig verkið í tíma brunahreyfilsins sem spannar einhver eitt hundrað ár í sögu mannkyns.“

Um samspil sýningarrýmisins og verkanna segir Húbert Nói: „Sýningarrýmið á sýningartíma er eins og ytri skynfæri listamannsins. Hér í þessu sýningarrými koma saman fortíð í formi eldri verka, eins konar beinagrind úr Sólon Íslandus, nútíðin er samtalið við sýningarrýmið hér og hauskúpan möguleg framtíð.“

Hauskúpan magnaða með bílkertum í stað tanna.

Blásandi borhola

Í sal á neðri hæð gallerísins eru þrjú olíu-landslagsmálverk sem sýna ytri veruleika en einnig innri, því verkin eru gerð eftir minni. „Þegar ég útskrifast úr myndlistarnámi var konseptið við völd. Sem listamaður vill maður búa til eitthvað sem bætir einhverju við það sem hefur verið gert og ég fór því að gera tilfinningaþrungin verk máluð af staðsetningum eftir minni til að hengja við hliðina á konseptlistinni í eins konar samtali. Þegar ég tók síðan til við að nota GPS-staðsetningartæki við gerð málverka var það svipuð nálgun, það er að nota þá nýjustu tækni, ofurklukkur í gervitunglum, geimvísindi og hafa þau í einu verki samofin tilfinningaminni manneskju.“

Í sama sal er vídeóverk, Geometría frá 2005, blásandi borhola á Hellisheiði. „Ég spegla hana lóðrétt og lárétt. Nú er verið að dæla kolvetni aftur inn í jörðina á Hellisheiði, það er mögulegt að framtíðin hafi komið sér á framfæri í þessu gamla verki þar sem koldíoxíð mun mynda kristalla með basalti en það myndast kristallaform við þessa fjórföldu speglun á útblæstri borholunnar.

Annars hefur speglun í mínum verkum verið mér það augnablik þegar ytri og innri veruleiki ná um stundarsakir einhvers konar samhljómi,“ segir Húbert Nói.

Sýning hans stendur til 11. júní.