Á sýningunni Summa & Sundrung teflir Lista­safn Ár­nesinga saman verkum eftir þrjár goð­sagnir úr heimi vídeól­istarinnar, þeim Gary Hill, Steinu og Woo­dy Va­sulka. Hjónin Steina og Woo­dy Va­sulka eru Ís­lendingum vel kunn en verk þeirra hafa oft verið sýnd hér­lendis en þetta er í fyrsta sinn sem verk Gary Hill eru sýnd á Ís­landi.

Gary Hill er fæddur árið 1951 og ólst upp í Kali­forníu hvar hann stundaði hjóla­bretti og brimbretti af kappi á yngri árum. Gary byrjaði að gera vídeólist á 8. ára­tugnum og kynntist Steinu og Woo­dy Va­sulka í lok þess ára­tugar.

„Við vorum bara með­vituð um verk hvert annars. Þau kenndu við Center for Media Stu­dies í há­skólanum í Buffa­lo og þegar þau á­kváðu að taka kennslu­leyfi og fara til Santa Fe báðu þau mig um að leysa þau af. Þetta var í kringum 1979–80,“ segir hann.

Finnurðu til skyld­leika á milli þinna verka og verka Steinu og Woo­dy Va­sulka?

„Já, al­gjör­lega, sér­stak­lega þarna í gamla daga af því þá var vídeól­istin á vissan hátt svo ný. Þessi vin­skapur veitti klár­lega inn­blástur og hvatti mann til að prófa nýja hluti. Þau unnu oft með mjög hæfi­leika­ríkum tækni­mönnum og ég endaði á því að vinna með gaur sem heitir Dave Jones sem var líka frá­bær tækni­maður. Það var mikil á­hersla þá að búa til nýja hluti. Það minnir mig svo­lítið á það í dag þegar við erum með Ardu­ino-smá­tölvur, al­grím og alls konar tækni sem flokkast undir ný­miðlun.“

Gary Hill skapaði nýtt verk sérstaklega fyrir sýninguna sem ber heitið None of the Above, þar sem hann flytur ljóðrænan texta.
Mynd/Aðsend

Sam­band hljóðs og myndar

Á Summa & Sundrung er hinu gagn­kvæma rann­sóknar­sam­bandi hljóðs og myndar gert hátt undir höfði. Nýjasta vídeóinn­setning Steinu, Paral­le­l Tra­jectories frá 2022, er sett upp og sjald­séð verk eftir Woo­dy Va­sulka á borð við Peril in Or­bit og 360 de­gree space records eru einnig til sýnis. Gary Hill skapaði nýtt verk sér­stak­lega fyrir sýninguna sem ber heitið None of the Above, þar sem lista­maðurinn kemur fram í eigin per­sónu og flytur ljóð­rænan texta.

„Verkið á upp­runa sinn í töluðum texta sem er nokkuð ab­strakt og er sjálfs­með­vituð hug­leiðing um tungu­málið. Þetta er ekki hrein endur­tekning en vísar í eindir og núll. Það eru ýmis við­fangs­efni sem er greitt úr og er svo ruglað saman aftur. Síðan er þetta allt klippt saman en þó ekki á hefð­bundinn hátt. Ég notaði gamalt for­rit sem vinur minn Dave Jones bjó til fyrir um 25 árum með DOS-tölvu­stýri­kerfinu,“ segir Gary.

Verkin Sine Wave (the curve of life) og Klein Bottle With the Image of Its Own Making eftir Gary Hill.
Mynd/Aðsend

Raf­ræn mál­vísindi

Gary Hill er þekktur fyrir að blanda saman tungu­málinu og vídeólist. Hann bjó til hug­takið „raf­ræn mál­vísindi“ sem vísar í það hvernig hljóð „skrifar“ vídeó­myndina og undir­strikar þetta með því að nota gjarnan ljóð­ræna texta í vídeó­verkum sínum.

„Ég hugsa vana­lega ekki um þá sem ljóð þó ég geti skilið af hverju fólk myndi gera það. Þeir eru meira í átt að setningar­byggingu, vitandi það að ég muni klippa þá í sundur á á­kveðinn hátt. Tungu­málið verður eigin­lega til af sjálfu sér þegar ég skrifa. Það er inn­hverft og með mörgum orða­leikjum,“ segir hann.

Spurður um hver sé tengingin á milli tungu­máls og vídeó­myndar í verkum hans segir Gary:

„Engin sér­stök, það er bara mitt val,“ segir hann og hlær. „Það fyrsta sem kemur í hugann þegar þú spyrð að þessu er sjón­varp en aug­ljós­lega er það ekki það sem ég geri. Ég hugsa að ég noti tungu­málið af því það er talað og út af tengslum þess við líkamann og loftið. Sam­fundur líkam­leikans við hina hverfulu mynd. Ég nota það gjarnan til að af­byggja myndina, svo hún sé ekki ó­virk, það mætti segja að tungu­málið ráðist á myndina.“

Ég hugsa að þegar á reynir sé tungu­málið á vissan hátt það sem skil­greinir okkur mennina. Það er rótin og kjarninn í því sem við erum.

Tungu­málið kjarni mannsins

Hvað varðar sam­band tungu­máls og vídeól­istar vísar Gary í lag gjörninga­lista­konunnar Lauri­e Ander­son, Langu­age is a Virus frá 1986.

„Lauri­e Ander­son vitnaði þar í Willi­am Burroug­hs sem sagði að tungu­málið væri vírus en ég held að ég myndi segja að myndin væri hinn raun­veru­legi vírus. Ég hugsa að þegar á reynir sé tungu­málið á vissan hátt það sem skil­greinir okkur mennina. Það er rótin og kjarninn í því sem við erum.“

Þú hefur verið virkur í þessari senu í meira en hálfa öld, hvað finnst þér hafa breyst á þeim tíma?

„Í gegnum árin hefur tæknin orðið sí­fellt minna mikil­væg. Hún er vissu­lega enn á­huga­verð, jafn­vel fyrir fólk sem er ekki að pæla í því hvernig hlutir eru saman­settir. En ég hef orðið meira og meira á­huga­samur um hug­myndirnar sjálfar. Það rými sem er núna mest opið fyrir krefjandi hluti er held ég gagn­virkni, tölvur og allt það. En engu að síður er ég meira í heim­speki­legum vanga­veltum, að spyrja spurninga um til­veruna og hvað eina.“