Arn­þrúður Karls­dóttir er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Arn­þrúður, var ein fyrsta lög­reglu­kona Ís­lands: Hún segir það hafa byrjað sem veð­mál milli hennar og kvennanna sem kepptu með henni í gull­aldar­liði Fram í hand­bolta.

„Þetta var á­kveðin ævin­týra­mennska og mér fannst spennandi að prófa. Við stelpurnar í hand­boltanum höfðum látið að okkur kveða og á­kváðum að veðja um hver af okkur þyrði að fara í lögguna. Ég er ein af fyrstu konunum sem út­skrifaðist úr lög­reglu­skóla ríkisins.

Við vorum nokkrar konur sem vorum full­gildir lög­reglu­menn á þessum tíma og gengum í öll störf til jafns við hina. Þetta var pínu­lítið sér­kenni­legt fyrst um sinn, þar sem karlarnir voru að­eins ótta­slegnir fyrir okkar hönd, sem ég held að hafi reyndar aðal­lega verið föður­leg um­hyggja. Þetta hafði verið karla­stétt og þeir voru kannski hræddir um að við myndum ekki ráða við átök eða slasast í starfinu og það gerðist síðan stundum. Við vorum lú­barðar eins og karlarnir og lentum í slysum.

Á þeim tíma var af­brota­heimurinn öðru­vísi og það var miklu meira um slags­mála­hópa fyrir utan skemmti­staði og verið að skilja á milli í líkam­legum á­tökum. Þannig að stundum reyndi meira á aflið en hugsunina. En í dag eru brota­flokkarnir þyngri og meira um skipu­lögð af­brot.”

Dægurlögin bönnuð

Arn­þrúður á 40 ára feril í fjöl­miðlum, rifjar upp gamla tíma í þættinum.

„Ég byrjaði á gömlu gufunni fyrir 40 árum síðan, þannig að þetta er orðinn býsna langur ferill í fjöl­miðlum. Þá byrjaði ég á Rás 1 og það voru engar frjálsar stöðvar til. En svo var á­kveðið á Al­þingi að út­víkka það, sem varð síðan óska­barn þjóðarinnar, Rás 2, sem átti að taka inn meiri tón­list og ég var fenginn í þann hóp sem átti að koma Rás 2 af stað á sínum tíma.

Þar áttaði ég mig enn betur á því hve skil­virkur og skemmti­legur miðill út­varpið er. En tímarnir voru aðrir og það var ekki allt leyft. Fram að þessum tíma hafði ekki mátt spila dægur­lög og það þótti á mjög gráu svæði.

Það var alveg á mörkunum að spila Ragga Bjarna eða sumar­gleðina til dæmis. Fólki þætti það fá­rán­leg hug­mynd í dag að banna dægur­lög, en svona var þetta.”

Ólst upp í Flatey

Arn­þrúður segir upp­vöxtinn hafa hjálpað sér að vera sam­kvæm sjálfri sér og þora að fara sínar eigin leiðir.

„Ég ólst upp í Flat­ey og lærði mjög hratt að verða sjálf­stæð og að þurfa að taka á­byrgð. Það var sjálfs­þurftar­bú­skapur og það var ekki alltaf rennandi vatn eða raf­magn. Þessar að­stæður neyddu mann til að læra fljótt á­ræðni, að þurfa að taka á­byrgð á hlutum og líka þora að fara sínar eigin leiðir,“ segir Arn­þrúður og heldur á­fram.

„Af hverju áttu að fara alltaf eftir fjöldanum og hvert hann fer. Er það til að skapa sér ein­hvers konar vin­sældir? Ég vil frekar fara eftir mér sjálfri og vera ég sjálf. Í mínum huga snýst mjög margt í lífinu um að hafa hug­rekkið til að fara sínar eigin leiðir og láta það eftir sér.

Maður verður að spyrja sig hvert maður er að fara, hvað maður vill og skerpa svo þá sýn. Ef sú sýn er skýr, þá lætur maður það minna trufla sig þó að ein­hverjir séu ó­sáttir við mann. Það er mjög vont ef það hvað aðrir eru að hugsa stýrir flestu í lífi manns.

Útvarp Saga gerðist mjög hratt

Arn­þrúður stofnaði á sínum tíma Út­varp Sögu, sem hefur nú verið í loftinu sam­fellt í nærri 20 ár.

„Þetta var eins og margar góðar hug­myndir eitt­hvað sem gerðist mjög hratt. Við á­kváðum frá fyrsta degi að vera fyrst og fremst tal­máls­rás og það fylgir því mikil vinna. Síðan stöðin fór í loftið hef ég eigin­lega alla tíð verið út­varps­stjóri sem er líka starfs­maður á plani og það er í mörg horn að líta og mikið álag.

Bæði að skipu­leggja alla dag­skrá, reka stöðina og svo er ég líka sjálf með þætti. Þetta er orðinn langur tími sem við höfum verið í loftinu og rekstar­um­hverfið hefur alltaf verið erfitt. Þannig að það er í raun á­kveðið af­rek að hafa verið í loftinu sam­fellt í 20 ár.“