Katla Hreiðarsdóttir hönnuður og eigandi Volcano Design og Systur&Makar og sambýlismaður hennar, Haukur Unnar Þorkelsson eignuðust sitt fyrsta barn saman í gær. Þau vöktu mikla athygli á samfélagsmiðlum en þau sýndi frá fæðingunni í beinu streymi á Instagram-story.

Fréttablaðið náði tali af nýbakaðri móður sem var í skýjunum með litla drenginn eftir langa fæðingu.

„Eins og svo margir sögðu við mig, þá þetta er erfitt og vont en verðlaunin eru dásamleg!" segir Katla.

Katla er mjög opinská á samfélagsmiðlum og er með um fjórtán þúsund fylgjendur á Instagram. Hún segir að margir hafi fylgst með sér á meðgöngunni síðustu mánuði og henni hafi langað til að deila öllu ferlinu með fylgjendum sínum og því ákveðið að fæðingin væri þar ekki undanskilin.

„Ég bjóst ekki við að geta orðið ólétt á sínum tíma og bloggaði í kjölfarið um það þegar ég varð ólétt en bloggið vakti mikla athygli. Þegar margir senda svona fallega strauma og yndislegar kveðjur eins og við höfum fengið síðustu mánuði þá fannst mér við ekki alveg getað hunsað alla þessa velvild og ég tel þetta vera ein auðveldasta leiðin til að gleðja aðra að deila svona jákvæðum fréttum,"

Stolt af pabbanum

Eins og þeir vita sem fylgdust með á þriðjudaginn þá var fæðingin löng en Katla fór upp á sjúkrahús snemma á þriðjudagsmorgun. Sonurinn kom ekki í heiminn fyrr en klukkan 00:44 aðfaranótt miðvikudags. Katla og Haukur vissu ekki kyn barnsins og spennan var því mikil. Katla segir að kynið hafi svo sannarlega komið á óvart. Hún segir þau hafi náð að njóta í einrúmi og sameiningu enda um hátt í tólf klukkustunda tímabil að ræða. Þá sé hún að rifna úr stolti af maka sínum.

„Nokkrar myndir hér og þar tóku ekki neitt frá okkar upplifun. Ég hef aldrei verið jafn stolt af neinum eins og honum Hauki mínum sem stóð sig eins og hetja, ég held að það gleymist oft að nefna makana. Þeir eru að fá nýtt líf í heiminn líka og upplifa sig oft svolítið tilgangslausa en fara samt langt út fyrir allt sem er þeim eðlislægt að vera stoðir og styttur."

Fæðingin var löng og erfið en Katla segir að Haukur hafi verið sín stoð og stytta í fæðingunni.

Hrósar Landspítalanum

Fæðingin var erfið, en eftir að drengurinn kom í heiminn blæddi Kötlu mikið. Hún segir það megi sannarlega hrósa fagmennsku fæðingar og gjörgæsludeildar Landspítalans sem sýndu einstaka velvild, hlýju, fagmannleika og þolinmæði.

Fréttablaðið/aðsend

„Ég á ekki orð yfir starfi þessa fólks! Að lokum erum við Haukur bara himinlifandi með fullkominn prins."

Katla hefur verið dugleg að setja í story á Instagram eftir að sá litli kom í heiminn. Fjölskyldan fékk að fara heim af Landspítalanum í dag en forvitnir geta fylgst með á Instagram síðunni Systurogmakar.

Litli maðurinn á heimleið í dag.