„Í draumaframtíðinni minni erum við öll meðvituð um að allt sem við gerum hefur áhrif á náttúruna, sem svo hefur bein áhrif á okkur til baka og það á hnattrænum skala. Við erum að díla við loftslagsbreytingar, hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og vandamál sem ná langt út fyrir okkar eigin afmarkaða veruleika. Það skortir skilning á því að umhverfisvitund snýst ekki bara um mannkyn og áhrif þess á umhverfið, heldur erum við hluti af einni og sömu heildinni. Umhverfisvitundin má þó ekki valda einstaklingum nagandi samviskubiti og kvíða yfir því að vera ekki að gera nóg, því það er á ábyrgð valdhafa að grípa til aðgerða svo auðvelt sé fyrir okkur hin að bregðast við.“

Þetta segir Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna. Félagið var stofnað árið 2013 og eru félagsmenn yfir 1.200.

„Ég fékk áhuga á umhverfisvitund á menntaskólaárunum, þegar ég áttaði mig á að samfélagið væri ekki jafn upplýst og ég hefði kosið. Ég er nýtin að eðlisfari og trúlega talaði offramleiðslan og -neyslan í samfélaginu til mín. Mér blöskraði að við gengjum að nauðsynjalausu svo hratt á auðlindir jarðar og hefðum af þeim völdum slæm áhrif á náttúruna, þær lífverur sem deila með okkur plánetunni og okkur sjálf,“ greinir Tinna frá.

Hún segir ungt fólk hafa miklar áhyggjur af umhverfismálum. Í leit að lausnum við því leiti það inn á við, til dæmis með því að sneiða hjá dýraafurðum, eiga ekki bíl, fljúga minna og kaupa sér sjaldnar föt.

„Fókusinn verður inn á við og einstaklingsaðgerðir eru mikilvægar upp að vissu marki, en það er nauðsynlegt að átta sig á því að vandamálið liggur hjá samfélaginu sem heild og því þarf að hugsa stærra og valdefla ungt fólk til að geta beitt sér fyrir kerfislægum breytingum, í stað þess að einblína á eigin neyslu. Ungir umhverfissinnar eru einu þverpólitísku félagasamtökin fyrir ungmenni á sviði umhverfismála sem gefa þeim tækifæri til að beita sér fyrir kerfislægum breytingum, en það er það eina sem dugar til takast á við vandamálið af nægilegri festu. Því er gríðarlega mikilvægt að hafa vettvang sem okkar, því ungt fólk veit ekki alltaf hvernig það getur beitt sér fyrir breytingum á lýðræðislegan hátt.“

Tinna segir marga tala léttúðugt um loftlagskvíða ungmenna og ekki alltaf átta sig á að um íþyngjandi vandlíðan sé að ræða. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Róttækar aðgerðir strax

Tinna segir loftslagskvíða algengan hjá ungum Íslendingum nú.

„Það er nauðsynlegt að beina loftslagskvíðanum í réttan farveg. Því er mikilvægt að hafa samtök eins og okkar til að grípa unga fólkið og hjálpa því að hafa raunveruleg áhrif. Auðvitað væri ákjósanlegast að staðan væri ekki þessi og stjórnvöld öxluðu ábyrgð með því að grípa strax til róttækra aðgerða svo unga kynslóðin þurfi ekki að þjást af áhyggjum af framtíð sinni og sinna.“

Hún segir of marga tala léttúðugt um loftslagskvíða og ekki átta sig á að um íþyngjandi vanlíðan sé að ræða.

„Jafnvel ég, sem lifi og hrærist í þessum málaflokki, ber kvíðboga fyrir framtíðinni. Þótt man viti hversu alvarlegur loftslagsvandinn er, tekur alltaf jafn mikið á að lesa nýjustu loftslagsskýrslur og -spár. Við höfum bara örfá ár til stefnu og því miður skortir skilning á því hversu aðkallandi er að bregðast við. Við verðum að gera eitthvað strax og á stórum skala. Glugginn er einfaldlega að lokast og þegar það gerist verðum við orðin of sein til að snúa þróuninni við.“

Ungir umhverfissinnar eru meðal annars aðildarfélag að loftslagsverkföllum ungs fólks sem fylkt hefur liði á Austurvöll til að knýja stjórnvöld til aðgerða.

„Jú, það er hlustað á okkur en ekki jafn mikið og við vildum og alls ekki brugðist eins hratt við og þyrfti. Stundum er ungmennaþátttaka notuð sem skrautfjöður, en til að koma í veg fyrir það skiptir máli að leyfa okkur að taka þátt á eigin forsendum. Mér finnst við þó fá æ meiri hljómgrunn innan samfélagsins og hjá stjórnvöldum.“

Tinna segir tímann vera að renna út þegar kemur að því að takast á við loftlagsvandann. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Óafturkræfar breytingar

Ungum umhverfissinnum er fúlasta alvara og þeir ganga hart fram, enda er framtíðin þeirra.

„Við höfum drifkraftinn sem fylgir ungu fólki, sem er að hluta til vegna þess mannhverfa sjónarmiðs að hugsa um eigin framtíð. Við vitum að loftslagsmálin tvinnast saman við margvísleg málefni, líkt og samfélagslegan ójöfnuð, og er þetta allt partur af því að skapa mannvænni framtíð sem og farsælt líf fyrir þær lífverur sem deila með okkur plánetunni. Tíminn er hins vegar að renna út og því þurfa stjórnvöld að taka í taumana áður en það verður of seint. Ef við drögum lappirnar verður bæði dýrara og erfiðara að takast á við loftslagsvandann. Það er ódýrara og auðveldara að draga úr losun strax, í stað þess að takast á við afleiðingarnar seinna,“ segir Tinna.

Hennar helsti ótti, verði þróun loftslagsbreytinga ekki snúið við, er:

,,Ef við förum yfir 1,5 gráðu hlýnun verða miklar líkur á, ef ekki óumflýjanlegt, að við förum yfir ákveðna þröskulda sem setja af stað neikvæðar keðjuverkanir og óafturkræfar breytingar sem okkur verður um megn að koma böndum á. Það er þessi óstöðugleiki sem veldur mér mestum áhyggjum. Við unga kynslóðin erfum samfélagið sem fyrri kynslóðir byggðu, en undirstöður þess munu molna ef við förum yfir ákveðna þröskulda hvað varðar losun.” ■