Um síðustu helgi hófst jólasýning Ásmundarsalar með pompi og prakt. Í samstarfi við Póstinn var sett upp jólapósthús þar sem gestir fá tækifæri til að ferðast aftur í tímann. Pósthúsið hefur vakið mikla athygli meðal gesta en þar má finna ýmsa gamla muni sem Pósturinn hefur varðveitt um árabil. Þarna má sjá forvitnilega stimpla, pósttöskur, frímerki og auglýsingaspjöld fyrri tíma svo eitthvað sé nefnt.

„Þegar sýningarstjórinn í Ásmundarsal viðraði þessa hugmynd við okkur gátum við ekki sagt nei. Við hjá Póstinum erum mikil jólabörn svo það er mikill heiður að fá að vera hluti af jólasýningu Ásmundarsalar. Þetta er okkar uppáhaldstími svo við ákváðum að slá til,“ segir Vilborg Ásta Árnadóttir, markaðssérfræðingur hjá Póstinum.

Hér geta allir sent jólakort.
Fréttablaðið/Aðsend

Öllum finnst gaman að fá handskrifað bréf

Á pósthúsinu fást falleg jólakort sem hönnuð voru af ýmsum listamönnum og einnig mun gestum gefast kostur á að fá ljósmyndara til að smella af sér mynd. Þá er búið að koma fyrir eldrauðum póstkassa inni á safninu.

„Hér áður fyrr voru bréfasendingar langtum algengari eins og allir vita. Þó finnst öllum gaman að fá handskrifað bréf eða fallega jólakveðju í pósti. Þannig má minnast gamalla tíma og leyfa nostalgíunni að taka völdin.“

Safngestir mega að sögn Vilborgar senda jólakortin frítt með Póstinum. „Póstkassinn er ekki bara upp á punt, ég hvet alla til að koma vini eða ættingja á óvart með einlægri jólakveðju," segir Vilborg enn fremur.

Litla pósthúsið er í Gryfjunni í Ásmundarsal sem hluti af jólasýningunni þar og stendur hún fram að jólum.

Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend