Nú á fimmtudaginn hefst uppistandsröð grínhópsins Bara góðar í Þjóðleikhúskjallaranum. Hópinn skipa þær María Guðmundsdóttir, Kristín María Gunnarsdóttir, Hildur Birna Gunnarsdóttir. Karen Björg Þorsteinsdóttir og Anna Þóra Björnsdóttir.

Ein á níræðisaldri

„Við gerðum þetta fyrst í fyrra. Þá vorum við líka með sýningar á Patreksfirði, Selfossi og Akureyri. Nú ætlum við að keyra þetta aftur í gang með nýtt efni. Við erum náttúrulega alveg rosalega fyndnar. Svo erum við á breiðu aldursbili, sú yngsta er 26 ára og sú elsta 84 ára. Ég held að það séu ekki margir uppistandshópar í heiminum sem geta státað af meðlim á níræðisaldri. Hún María er alveg rosalega fyndin,“ segir Anna Þóra.

Hún kynntist þeirri yngstu, Karen, á uppistandsnámskeiði hjá Þorsteini Guðmundssyni.

„Hinar höfðu líka allar verið á námskeiði hjá honum. Það má því í raun segja að hann Þorsteinn sé nokkurs konar lærifaðir okkar. Hann kenndi okkur þetta allt,“ segir Anna Þóra.

Alltaf að fíflast

En hvað kom til að hún sjálf fór út í uppistand?

„Ég fæddist með þennan mikla fíflagang í mér og hef alltaf verið að láta eins og fífl. Mér datt bara aldrei í hug að ég gæti fengið greitt fyrir það. Einn daginn var ég með vinkonu minn á Jómfrúnni þegar hún sagði að ég ætti að skella mér á þetta námskeið. Við vorum komnar vel í glas þegar við sendum honum skilaboð og þá var ekkert aftur snúið. Ég fékk svo mikla og góða athygli á útskriftarkvöldinu, þannig að boltinn fór bara að rúlla,“ segir Anna.

Síðan eru liðin tæp fimm ár og hefur Anna haldið uppistand reglulega síðan.

„Maður er alveg kominn með meirapróf í þessu. Á sýningunni gerum við mikið grín að sjálfum okkur. Við erum ekki að gera grín að fólki úti í bæ nema að það sé dáið kannski. Tvær þeirra eru að detta á breytingaskeiðið þannig að þar er af nógu að taka. Svo er náttúrulega sú yngsta væntanlega bara nýbyrjuð á blæðingum,“ segir Anna og hlær.

Gott gegn kvíða

Þó að Anna sé orðin sjóuð í uppistandinu segist hún enn ekki búin að fullvenjast því að áhorfendur séu með framíköll meðan hún fer með gamanmál.

„Það er rosalega erfitt þegar áhorfandinn heldur að hann sé kannski fyndnari en uppistandarinn og vill taka orðið. Þá reynir maður bara að þagga pent niður í viðkomandi. Ég er ekkert snillingur í því þar sem ég læt þetta stuða mig,“ segir Anna.

Hún segist alltaf verða mjög syfjuð rétt áður en hún stígur á svið.

„Þá langar mig stundum bara að hætta við og fara heim að leggja mig. Ég held að þetta sé mín flóttaleið frá kvíða, að verða syfjuð. Þegar ég verð kvíðin, þá langar mig bara að leggja mig,“ segir Anna.

Hún segir uppstandshópinn hafa fundið upp furðulega leið til að slá á kvíðann áður en þær koma fram.

„Við tölum alltaf um einhver háalvarleg málefni. Það virðist virka fyrir okkur, að tala um eitthvað ógeðslegt, sorglegt eða leiðinlegt. Svo förum við bara á sviðið. En svo finnst mér það að koma svona fram hafa hjálpað mér mikið með kvíðann almennt. Sumir fara bara í fjallgöngur og fá sér hund en þetta virðist virka fyrir mig, að vera fyndin uppi á sviði,“ segir Anna.

Miða á uppstandið er hægt að nálgast á tix.is.