Tilkynnt var í dag að teiknimyndin My Year of Dicks í leikstjórn Söru Gunnarsdóttur hefur verið tilnefnd til óskarsverðlaunanna í flokki stuttra teiknimynda.

Aðspurð segist Sara vera himinlifandi yfir fréttunum.

„Þetta er allt mjög spennandi,“ segir hún er Fréttablaðið náði tali af henni.

Myndin byggir á bók Pamelu Ribon, Notes to Boys: And Ot­her Things I Shouldn’t Share in Pu­blic en hún er handrits- og metsöluhöfundur frá Bandaríkjunum. Myndin fjallar um persónuna Pam og líf hennar en hún þráir það eitt að missa meydóm sinn.

„Myndin var upprunalega framleidd í samstarfi við FX network en þau höfðu samband við Pamelu en bókin byggir á reynslu hennar og ævi,“ segir Sara en upphaflega hafi myndin ekki verið hugsuð sem sjálfstætt efni. „FX eru með þátt sem kallast Cake sem er ákveðið tilraunaeldhús og inniheldur mikið af teiknuðu efni,“ segir hún en hugmyndin var að myndin yrði partur af þáttunum.

Átti fyrst að birtast í sjónvarpi

„Myndin hefur þó aldrei verið sýnd á FX network þar sem þeir eru líklega hættir með þessa þætti,“ segir Sara og bætir við „af því að þetta fór aldrei í loftið þá fórum við af stað þrjár, ég, Pamela og framleiðandinn okkar sem heitir Jeanette Jeanenne og við tókum þátt í mörgum hátíðum og erum búnar að vera að ýta þessari mynd áfram,“ segir hún.

Sara hefur sjálf starfað sjálfstætt við teiknimyndagerð í Bandaríkjunum í meira en tíu ár Hún á menntun að baki í því sem kallast experimental animation eða tilraunakennd teiknimyndagerð og útskrifaðist með meistaragráðu úr því námi árið 2013. „En ég flutti heim bara núna fyrir ári síðan og vinnsla á myndinni kláraðist núna þegar ég var að flytja heim,“ segir Sara.

Mynd Söru er önnur teiknimyndin eftir íslenskan leikstjóra sem tilnefnd er til óskarsverðlauna.
Mynd/aðsend

Fjölmennur hópur teiknara

Sara segir að myndin sjálf hafi verið framleidd í samstarfi við sjö aðra teiknara en algengt sé að margir teiknarar komi að verkefni eins og þessu.

„Þrír aðilar sáu svo um að mála bakgrunna fyrir mig. Hljóðhönnun var svo í höndum Trevor Gates sem gerði hljóð meðal annars fyrir myndina Get Out. Adam Blau sá svo um að gera tónlist fyrir myndina,“ segir Sara sem segir að myndinni hafi gengið betur en hún þorði að vona.

Myndbrot úr teiknimynd Söru.
Mynd/aðsend

Hefur farið sigurför

„Við erum í raun búin að eiga rosalega gott ár og seinasta ár var mjög gott fyrir þessa mynd. Ég hef verið að fara á margar hátíðir á seinasta ári í tengslum við þessa mynd. En þetta er klárlega það stærsta. Þetta verður ekki mikið stærra,“ segir Sara sem segir að hún muni að sjálfssögðu mæta á hátíðina sjálfa. „Jú maður verður að fara," segir hún.

Þetta er í annað sinn sem stutt teiknimynd eftir íslenskan leikstjóra er tilnefnd en myndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Hall­dórs­son var tilnefnd árið 2021.

Mörg verkefni framundan

Aðspurð segir Sara að flest hennar verkefni snúist um teikningu og teiknimyndum en hún vinnur nú að fjölbreyttum verkefnum tengdum þeim.

„Síðustu tíu ár hef ég mikið unnið í myndum sem ekki eru teiknaðar þar sem koma inn atriði sem eru teiknuð,“ segir Sara. „Ég er að gera eitt slíkt verkefni núna með Amy Berg sem ég vann með í The Case Against Adnan Syed fyrir nokkrum árum síðan. Hún er núna að fara að gera heimildarmynd um Jeff Buckley og ég ætla að hjálpa henni í því verkefni,“ segir hún en hún vinnur nú einnig að frekari verkefnum tengdum mynd sinni.

„Svo erum við Pamela og Jeanette að vinna í því að selja þess mynd sem við gerðum saman sem proof of concept því okkur langar til þess að gera þátta seríu út frá þessari stuttmynd,“ segir Sara að lokum.

Hægt er að horfa á myndina í fullri lengd á heimasíðu hennar í takmarkaðan tíma.