Breska fjölmiðlakonan og rithöfundurinn Deborah James er komin á líknandi meðferð vegna ristilkrabbameins sem hún greindist með fyrst árið 2016.
Debroah, sem á ferli sínum hefur starfað fyrir BBC og auk þess haldið úti vinsælum hlaðvarpsþáttum, greindi fylgjendum sínum á Instagram frá þessu í gær. BBC fjallar um þetta.
„Þetta eru skilaboðin sem ég vildi aldrei skrifa. Við erum búin að reyna allt saman, en líkaminn lætur sér ekki segjast,“ sagði Deborah og bætti við að meðferð við krabbameininu hefði verið hætt. Nú væri markmiðið að láta henni líða sem best í faðmi fjölskyldu sinnar þar til yfir líkur.
„Það veit enginn hversu langan tíma ég á eftir,“ sagði Deborah og bætti við að hún geti ekki gengið lengur og þá sofi hún mest allan daginn. Hún sagði að læknar og heilbrigðisstarfsfólk hafi reynt allt til að hjálpa henni.
Deborah, sem er fertug að aldri og móðir tveggja barna, hefur veitt fjölda fólks hvatningu og innblástur með æðruleysi sínu. Hún hefur skrifað bækur um baráttu sína sem notið hafa vinsælda, til dæmis bókina F*** You Cancer: How to face the big C, live your life and still be yourself sem kom út árið 2018.