„Það hefur verið mjög mikið að gera á hárgreiðslustofunni okkar og ég heyri það sama frá kollegum mínum,“ segir Alexander Kristjánsson hjá RVK Hair. Hárgreiðslustofum landsins var lokað í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins í mars en sú hefur ekki verið raunin í seinni bylgjum. „Það koma jafnmargir í klippingu og áður. Eina breytingin er sú að við þurfum að huga vel að sóttvörnum, setja upp grímur í vinnunni og spritta okkur.“

Á meðan að lokunum stóð í mars fór Alexander af stað með framleiðslu á eigin hárvörumerki undir nafninu FAX ásamt félögum sínum Gunnari Malmquist Þórðarsyni, hárgreiðslumanni á Blondie, og Auðunni Braga Kjartanssyni frumkvöðli og æskuvini sínum. FAX er framleitt í Bretlandi en markmiðið er að flytja framleiðsluna síðar til Íslands.

„Mér fannst vanta íslenskt hárvörumerki á markaðinn. Ég er líka menntaður viðskiptafræðingur og langaði að sameina þessi tvö nám sem ég á að baki. Ég viðraði hugmyndina við Auðun og þegar ferlið var farið af stað bættist Gunnar í hópinn,“ segir Alexander.

FAX-ið hefur rokið út og seldust fyrstu tvær pantanir upp en sú þriðja kom nýverið í hús. Um er að ræða þrjár tegundir, harðvax, léttvax og leir. Alexander segir að gelið verði aðeins selt á hárgreiðslustofum en ekki í stórverslunum.

Faxið.jpg

Alexander með FAX-ið

„Við viljum hafa söluna í höndum fagmanna á hárgreiðslustofunum og að stofurnar séu að hagnast okkur,“ segir Alexander sem vill í ljósi velgengni sinnar láta gott af sér leiða og hvetja aðra til hins sama.

„Ástandið er skringilegt og á meðan allt er í svona óvissu finnst mér að samfélagið verði að standa saman og þeim sem eiga þess kost að geta lagt eitthvað að mörkum gefi til baka. Við eigum að láta gott af okkur leiða og það þarf alls ekki að vera stórt,“ segir Alexander.

Sjálfur ætlar hann að gefa heilli fjölskyldu ókeypis klippingu í hverjum mánuði og vill endilega að fólk hafi samband við sig í gegnum Facebook-síðu sína eða komi til sín ábendingum. Hann leggur áherslu á að engin nöfn verði birt né gjöfin auglýst frekar. „Mig langar til þess að skora á aðra sem eru aflögufærir að gera slíkt hið sama. Þessi vetur verður strembinn fyrir marga en við komumst í gegnum hann saman“.