„Þetta byrjaði allt sem létt grín. Við Víðir þekkjumst ágætlega og mig langaði til að stríða honum aðeins og bjó þess vegna til slagorðið „Ég hlýði Víði,“ segir Birgir í samtali við fréttastofu.

Birgir hannaði lógó og sérstakt sniðmát fyrir forsíðumyndir á Facebook með áletruninni. Sniðmátið fór eins og eldur um sinu á Facebook og frasinn var farinn að heyr­ast æ oft­ar í sam­fé­lag­inu. Birgir ákvað þá að nýta tímann á meðan að allir eru í sóttkví og leggja sitt að mörkum.

Birgir sjálfur með sniðmátið. Hann hlýðir Víði og hvet­ur lands­menn til að gera slíkt hið sama.
Fréttblaðið/ Biggi Ómars.

Birgi barst fjölda fyrirspurna um að útbúa boli með slagorðinu. Hann fékk félaga sinn til liðs við sig og þeir ákváðu að láta slag standa. „Við töluðum við fyrirtækið Margt smátt sem leist vel á hugmyndina og voru tilbúnir að taka þátt í þessu verkefni. Ég bar þetta undir Víði sjálfan og við ákváðum í sameiningu að ef það kæmi einhver hagnaður út úr sölunni skyldi hann renna til Vonar -styrktarfélags gjörgæsludeildar Landspítalans." Birgir tekur ekkert fyrir vinnuna og Margt smátt aðeins kostnaðarverð, það renna því 1.250 kr af hverjum seldum bol til Vonar.

Salan hefur farið vel á stað og það er nú þegar búið að selja um 1,000 eintök af „Ég hlýði Víði" bolnum. Í dag fór í sölu annar bolur með slagorðinu: „Við erum öll Almannavarnir". Birgir segir að þeir hafi strax fengið góðar viðtökur.

Bolir merktir „Við erum öll Alma" fóru í sölu í dag.
Fréttblaðið/ Biggi Ómars.

„Megintilgangurinn með þessu er auðvitað að fá fólk til þess að taka þátt í þessu með almannavörnum og hlýða Víði í alvörunni. Við verðum öll að standa saman á þessum tímum,“ segir Birgir.

Það er gríðarlegt álag á starfsfólki gjörgæslunnar þessa dagana og erfitt að ímynda sér vinnuaðstæður þeirra. Það er því ánægjulegt að geta stutt við bakið á þeim og þakkað þeim fyrir þeirra mikilvæga starf,“ bætir Birgir við.

Birgir starfar heima hjá sér þessa dagana og er duglegur að setja inn allskyns efni á Facebook síðu sína, Biggi Ómars. „Ég set inn páskamálshætti og önnur skemmtilegheit til að taka þetta annars ófyndna ástand á húmornum.“