Fyrsta lagið með hljóm­sveitinni R ED R IOT kemur út í dag en hljóm­sveitin er skipuð ofur­teyminu Hildi Kristínu Stefáns­dóttur og Rögnu Kjartans­dóttur, einnig þekkt sem Cell7. Báðar eru þær sjóaðar í tón­listar­menns­kunni, Hildur hefur bæði gefið út lög og samið fyrir aðra og Ragna er án alls vafa einn fremsti rappari landsins. Þær snúa nú bökum saman og gefa út lagið Bounce back í dag. Þær eru sam­mála um tón­listin frá RED RIOT sé gjör­ó­lík því sem þær hafa sjálfar gefið út til þessa.

„Við kynnumst í raun þannig að mig vantaði söng­konu og hringi eigin­lega blint í Hildi. Ég var búin að skoða alls konar á netinu frá henni og það sem hún var að gera með Rökkur­ró á sínum tíma. Ég hugsaði „Þessi er kúl, mig langar að hafa hana með mér sem söng­konu“,“ segir Ragna og þær hlæja báðar.

„Þetta var árið 2015 eða 2016. Ég hef komið fram með Cell7 nokkuð oft, á Airwa­ves og fleira, sem söng­kona. En þá var ég ekki að koma fram sem Hildur heldur meira bara að syngja í lögunum hennar,“ segir Hildur.

Ag­gressíf dans­tón­list

Þegar CO­VID-19 var á byrjunar stigi fyrir ári síðan á­kváðu þær að byrja að vinna saman að tón­list.

„Þá heyrumst við og fórum að pæla í því af hverju við værum ekki að gera tón­list saman. Við tókum fyrsta „session-ið“ í maí og höfum við verið á fullu að semja síðan. Um leið og við byrjuðum þá kom strax þessi hljómur sem við bjuggumst ekki alveg við,” segir Hildur.

„Þetta er al­gjör­lega ó­líkt því sem við höfum verið að gera hingað til. Þetta er „full on” bassa­drifin dans­tón­list,“ segir Ragna.

„Það var smá fyndið, við vorum ekkert búnar að á­kveða hvernig tón­list við ætluðum að gera. Við prófuðum að gera bara eitt­hvað og síðan kemur mjög fljótt dans­tón­list. Við erum búnar að vera að hlæja að því að það sé lík­legast af því að við söknum þess að fara á klúbbinn, við söknuðum þess að dansa. Þannig þegar allir voru í ein­hverju CO­VID-vol­æði þá vorum við með harðan bassa­takt í gang að gera það sem við söknuðum,“ segir Hildur.

Bæta hvor aðra upp

Þær eru sam­mála að stofnun RED RIOT hafi bjargað þeim frá því að heims­far­aldurinn næði að hafa lýjandi á­hrif á sköpunar­gleðina hjá þeim.

„Við fundum mjög fljótt á­kveðinn kraft í hvor annari. Það hélt manni við efnið. Við vorum mjög fljótar að skapa og búa til lögin, þau urðu mjög fljótt til. Áður en maður vissi af var tíminn í raun búinn að líða mjög fljótt. CO­VID-von­leysið hefði verið hræði­legt ef það hefði ekki verið fyrir þetta verk­efni. Við urðum meira peppaðar eftir því sem leið á,“ segir Ragna.

„Það er hundrað prósent stað­reynd að það gerði mikið fyrir sköpunar­gleðina að vera að semja með ein­hverjum öðrum, ekki bara einn heima hjá sér. Það er alveg ó­trú­lega mikill munur. Við höfum báðar verið sóló-lista­menn það lengi og maður verður alltaf smá sam­dauna því sem maður er að gera. Maður er svo vanur því að semja einn þannig það var svo ó­trú­lega gaman að geta kastað hug­myndum á milli. Svo komum við líka úr svo ó­líkum áttum í tón­listinni, þannig að mér finnst við bæta hvor aðra upp. Ég er meira í lag­línum og Ragna er meira í takti og saman fundum við ein­hverja gullna blöndu,“ segir Hildur .

Vinna vel saman

Sam­vinnan hefur gengið mjög vel að þeirra sögn.

„Þetta gat samt alveg verið mjög fyndið, því Ragna getur verið mjög hörð með það hvað hún fílar og fílar ekki. Sem er mjög gott í svona sam­vinnu, að vita strax ef eitt­hvað er ekki að passa,“ segir Hildur

„Það má alveg segja að ég sé aðal stopparinn í okkar sam­vinnu. Hildur er svo svaka­lega frjó og kemur með svo mikið af hug­myndum. Hún kastar öllu út alveg rosa­lega hratt og ég þarf að vera smá sigti, hreinsa út,“ segir Ragna.

„Svo þegar við lendum á ein­hverju sem virkar þá „high five“- um við,“ segir Hildur bætir svo við ,,Mér finnst við draga út í hvor annarri eitt­hvað sem við hefðum ekki gert annars. Það er ó­trú­lega gaman. Ragna hefur verið að rappa og ég að syngja og ég man í byrjun þá hugsaði ég að það væri enginn séns að ég myndi rappa. Svo fórum við í bú­stað og búnar með eitt rauð­víns­glas þegar Ragna segir „Hey Hildur, ég er með hug­mynd! Hvað með að þú rappir smá?“.

„Við erum draga fram það besta í hvor annarri,“ segir Ragna. Von er á breið­skífu frá stöllunum á næstunni. Lagið Bounce Back kemur á allar helstu streymis­veitur í dag.

Fréttablaðið/Stefán Karlsson