Jón Steinar Gunn­laugs­son, lög­maður og fyrr­verandi hæstar­réttar­dómari, er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Jón Steinar hefur sterkar skoðanir á fíkni­efna­lög­gjöfinni. Hann segir það hræsni að leyfa á­fengi en banna önnur efni.

„Ég er með þá til­gátu að þeir sem eru mjög mikið fyrir á­fengi séu jafn­vel harðari en aðrir á móti ó­lög­legum fíkni­efnum, af því að þá geta þeir selt sér að á­fengi sé nú betra og fínna efni. Það er ekkert annað en hræsni að ég og aðrir lög­menn og dómarar séu að refsa fólki fyrir fíkni­efna­notkun eða brot tengd fíkni­efnum, en svo förum við saman á barinn að drekka eftir að við erum búnir í vinnunni.“

Ekki bragðað maltöl í 43 ár

Jón Steinar þekkir vanda­mál á­fengis af eigin raun og hann þurfti á endanum að fara í með­ferð.

„Ég fór í með­ferð fyrir 43 árum síðan. Ég var helgar­drykkju­maður og drakk nokkra daga í röð, en svo dreif ég mig í með­ferð þegar þetta var orðið aug­ljóst vanda­mál. Ég er mjög vel kvæntur og það var konan mín sem sá til þess að ég gerði loksins eitt­hvað í málunum.

Ég var í viku í með­ferðinni og sá þá hvar ég var staddur og hef ekki bragðað malt­öl síðan. Ég fékk loksins al­menni­lega fræðslu um á­fengi og fíkn í með­ferðinni og eftir það gat ég ekki flúið þær upp­lýsingar sem ég fékk. Ég er þannig úr garði gerður að ég á erfitt með að ljúga að sjálfum mér og ég hef verið laus við á­fengi síðan. Líf mitt batnaði stór­kost­lega eftir að ég hætti að drekka, bæði mitt og fjöl­skyldu minnar.“

Hæstaréttur sveiflast eftir almenningsáliti

Í þættinum talar Jón Steinar um Hæsta­rétt, sem hann hefur oft gagn­rýnt.

Hann vill meina að hæsta­réttar­dómarar séu oft ekki nógu sjálf­stæðir og sveiflst eftir al­mennings­á­liti hverju sinni:

„Hæsti­réttur hefur marg­oft sveiflast eftir al­mennings­á­liti hvers tíma fyrir sig í stað þess að fara eftir lögunum. Til dæmis eftir hrunið. Þá hafði stemmningin í sam­fé­laginu gríðar­leg á­hrif á dómara og í raun réttar­kerfið í heild. Þegar við horfum til baka sjáum við dóma sem standast ekki skoðun og niður­staða þeirra markaðist nær ein­göngu af tíðar­andanum í sam­fé­laginu.

Dóm­stólar eru einn af horn­steinum lýð­ræðisins og við verðum að vera gagn­rýnin á þá og vinnu­brögð þeirra. Ég hef verið opinn um þetta í gegnum tíðina og oft verið ráðist á mig fyrir það. En það var á köflum nánast dag­legur við­burður að kollegar mínir hrósuðu mér í einka­sam­tölum, en enginn þeirra tók undir með mér opin­ber­lega.”

Hefur örgustu skömm á mörgu frá Davíð

Hann segir það oft hafa kostað sig að þora að segja skoðanir sínar um­búða­laust, meðal annars í sam­skiptum við gamla vin sinn Davíð Odds­son.

„Í seinni tíð þá hafa komið frá honum hlutir sem ég hef örgustu skömm á. Til dæmis lét ég í ljósi and­úð mína á með­ferð hæsta­réttar á broti þar sem banka­menn voru dæmdir um­vörpum í fangelsi fyrir um­boðs­svika­brot. Það eru skil­yrði fyrir slíkum brotum að menn hafi haft til­gang til auðgunar.

Ég skrifaði um þetta og einn af þeim sem voru tengdir Arion­banka, Ólafur Ólafs­son, leitaði til mín og ég skrifaði á­lits­gerð um þann dóm, þar sem ekki stóð steinn yfir steini og brotinn réttur á sak­borningi. Ég held, þó að ég viti það ekki fyrir víst að Davíð, gamli vinur minn, hafi alls ekki verið hrifinn af þessu,“ segir Jón Steinar og þegar hann er spurður hvort þeir Davíð séu enn vinir svarar hann­:

„Nei, við tölum ekki saman. Við höfum ekki talað saman í meira en ár. Hann hætti bara að tala við mig og hefur lík­lega farið í fýlu út í mig. Ég held að það sé út af þessu eða ein­hverjum öðrum skoðunum sem ég hef haft opin­ber­lega, en hann hefur ekki fengist til að segja mér hvað veldur þessum vin­slitum. En mér er alveg sama, af því að ég lifi fyrir lög­fræðina mína og mína eigin sann­færingu. Ég má ekki byrja að gefa af­slátt á minni betri vitund.

Ég hef alltaf tekið það hlut­verk al­var­lega að vera lög­fræðingur og dómari og að starfa við að verja réttindi borgaranna. Það hefur þýtt það að ég hef oft gagn­rýnt Davíð í gegnum tíðina, bæði á pólitískum for­sendum og öðrum, þó að það hafi nú aldrei valdið vin­slitum fyrr en núna.

En ég var til dæmis alls ekki hrifinn af því þegar hann lét Reykja­víkur­borg reisa veitinga­stað uppi á Öskju­hlíðinni á sínum tíma, þegar Perlan var byggð. Hvaða bull er það að Reykja­víkur­borg sé að reka veitinga­stað í Öskju­hlíð? Eða þegar hann ætlaði að láta ís­lenska ríkið gangast í ríkis­á­byrgðir fyrir skuld­bindingar Ís­lenskrar Erfða­greiningar. Þetta er einka­fyrir­tæki Hvaða rugl er það? Ég er hug­sjóna­maður, bæði í pólitík og lög­fræði. Og ef að Sjálf­stæðis­flokkurinn er ekki að breyta rétt, þá fær hann engan stuðning hjá mér. Ég neita að láta flokka mig í eitt­hvað lið.“