Fyrir þau sem ekki þekkja til getur verið erfitt að átta sig á þörfum fagmanna sem starfa á vinnsvæðum, en þau bjóða upp á ýmsar áskoranir, svo það eru til alls kyns tól sem geta auðveldað lífið.

Hitabrúsi

Þetta þarf ekki að vera dýr gjöf en getur komið í afskaplega góðar þarfir. Góður hitabrúsi gerir manni kleift að kippa með sér uppáhellingu í vinnuna sem helst heit yfir daginn. Á sumrin getur svo sami brúsi haldið vatni köldu.

Rafmagnsnestisbox

Fólk sem starfar í byggingariðnaði hefur oft takmarkað aðgengi að góðum mat og endar oft með því að borða alls kyns mishollan skyndibita. Það getur líka verið erfitt að fá heitan mat öðruvísi, því yfirleitt eru örbylgjuofnar eða aðrar græjur til að elda ekki aðgengilegar. Það tekur á að hamast allan daginn og það veitir ekki af næringarríkum heitum mat í hádeginu og þá er frábært að geta verið með nestisbox sem hitar matinn fyrir mann.

Hleðslutæki fyrir rafhlöður

Það þarf alltaf rafhlöður, hvort sem það er verið að sinna framkvæmdum heima við eða vinna á vinnusvæði.

Það er glatað að skortur á rafhlöðum hamli vinnu, svo það er sniðugt að eiga hleðslutæki fyrir endurhlaðanlegar rafhlöður svo þær séu alltaf til taks.

Vasaljós

Grundvallartæki sem allir þurfa að hafa á verkfærabeltinu. Það þarf oft að sinna verkefnum á illa lýstum stöðum og ef fólk er að vinna úti í skammdeginu getur jafnvel verið gott að vera með ljós á hjálminum. Svo getur oft verið þægilegt að eiga vasaljós heima við, ef ekki er þörf fyrir það í vinnunni.

Snjallúr

Margir hafa gaman af því að fylgjast með líkamlegu ástandi sínu með snjallúrum og það getur verið sérlega gagnlegt og áhugavert ef fólk er í mjög líkamlegri vinnu. Auk þess getur verið óþægilegt að þurfa að grafa upp snjallsímann þegar maður er önnum kafinn og þá er gott að geta notað snjallúrið fyrir ýmsar einfaldar aðgerðir.

Fjarlægðarlaser

Þetta tæki getur komið að mjög góðum notum og auðveldað allar fjarlægðarmælingar verulega. Mismunandi útgáfur bjóða líka upp á alls kyns möguleika til að sinna flóknari mælingum.

Heyrnarhlífar með bluetooth og útvarpi

Á vinnusvæðum er oft nauðsynlegt að nota heyrnarhlífar en það er misjafnt hvers góð heyrnartól starfsfólk á ólíkum vinnustöðum fær.

Fyrir fagfólk sem vilja hlusta á tónlist eða hlaðvarsþætti í vinnunni er hægt að fá heyrnarhlífar með bluetooth sem tengjast símanum svo hægt sé að stjórna dagskránni sjálfur. Svo er hægt að kveikja á innbyggðu útvarpstæki til að ná fréttunum.

Öflugt símahulstur

Í líkamlegri vinnu getur stundum verið slæmt að vera með viðkvæman snjallsíma í vasanum. Öflugt símahulstur eða hlíf getur skipt sköpum og bjargað skjánum frá því að brotna. Það er miklu ódýrara að kaupa hlíf en nýjan síma.