Lífið

Viðar skar fimm ára stúlku upp úti á götu

Íslenskur læknir hlaut heiðursverðlaun í London í gær fyrir einstakt björgunarafrek þar í landi. Litlu mátti muna en stúlkunni var við það að blæða út eftir skotárás og ekki mátti tæpara standa.

Verðlaunahafarnir Viðar Magnússon læknir og Caroline Appleby bráðatæknir ásamt Thusha Kamaleswaran stúlkunni sem þau skáru upp Fréttablaðið/Aðsend

Íslenskur læknir, Viðar Magnússon, hlaut í gær sérstaka heiðursviðurkenningu enskra heilbrigðisyfirvalda fyrir einstakt björgunarafrek sem hann vann í mars árið 2011. 

Viðar framkvæmdi lífsbjargandi skurðaðgerð á fimm ára stúlku úti á götu í London, en hann starfaði á þeim tíma á sjúkraþyrlu þar í borg sem var mönnuð sérhæfðum bráðatækni og lækni. 

Fórnarlambið,Thusha Kamaleswaran, var skotin í brjóstkassann þegar hún var við leik í verslun frænda síns, þrír menn á flótta undan glæpagengi hófu skothríð í átt að versluninni og hæfðu stúlkuna. 

Sjúkraflutningamenn komu fljótlega að og héldu lífsmarki í henni þar til að Viðar og sérþjálfaður bráðatæknir, Caroline Appelby, komu að og tóku við. 

Viðar Magnússon læknir tók stoltur við heiðursverðlaununum sem hann hlaut fyrir einstakt björgunarafrek. Fréttablaðið/Aðsend

Var að blæða út

Það var ljóst að stúlkan hafði hlotið alvarlega áverka á brjóstkassa og naumur tími til stefnu og því framkvæmdi Viðar lífsbjargandi aðgerð á stúlkunni þar sem hún lá í blóði sínu úti á götu. 

„Henni var við það að blæða út og kafna, hún hefði aldrei lifað ferðina upp á sjúkrahús af og þess vegna framkvæmdi ég aðgerðina á staðnum,“ – sagði Viðar Magnússon læknir í samtali við Fréttablaðið í dag en hann var þá á heimleið frá London þar sem hann veitti heiðurðsverðlaununum viðtöku. 

Algjört hörkutól

Stúlkan lifði af en lamaðist fyrir neðan brjóst. Síðar kom í ljós að hún hafði hlotið alvarlega áverka á hrygg og því var spáð að hún gæti aldrei gengið aftur.

Thusha Kamaleswaran er greinilega hörkutól líkt og sjá má í myndbandi neðst í fréttinni því í dag er hún með einhverja hreyfigetu í fótleggjum og hefur stigið nokkur skref. Hún er jafnframt yngsta fórnarlamb á Englandi til að lifa skotárás af. 

Það mátti ekki miklu muna þegar Viðar og hans teymi komu að. Stúlkunni var við að blæða út og hún hefði ekki lifað ferðina á sjúkrahús af og því var aðgerðin framkvæmd á staðnum. Fréttablaðið/Úr einkasafn

Voru valin úr fjölda tilnefndra

Heiðursverðlaun NHS, sem er skammstöfun fyrir National Health Service, en svo nefnist heilbrigðiskerfi Bretlands, voru veitt í tólf flokkum. Stofnunin, NHS, fagnar 70 ára afmæli í ár og eru heiðursverðlaunin veitt af því tilefni en þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem að slíkt er gert. 

Viðar og Caroline samstarfskona hans voru tilnefnd í flokki bráðalækninga utan sjúkrahúsa og voru valin úr hundruðum tilnefninga. 

„Ég er viss um að saga stúlkunnar hafi átt stóran þátt í því að við vorum útnefnd, við vorum bara að vinna vinnuna okkar. En hún er algjör hetja og það var frábært að sjá hvað hún hefur þroskast og stækkað.“ Myndband af endurfundum þeirra er að finna neðst í fréttinni.

Vill sérhæfða sjúkraþyrlu á Íslandi

Í dag gegnir Viðar Magnússon stöðu yfirlæknis bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa á Íslandi. Hann hefur sterkar skoðanir á því hvernig megi bæta þá þjónustu hér á landi og færa hana nær því sem að hann þekkir frá London.

„Sjúkraþyrlan í London er mögnuð þjónusta og það sem við gerðum fyrir litlu stúlkuna var það sem ætlast var til af okkur. Meginmarkmiðið er að veita bráðaþjónustu þar sem hinn veiki eða slasaði er staddur. Tíminn og langar vegalengdir geta verið okkar versti óvinur í svona stöðu. Bráðaþjónustan á þyrlunni er ætlað að veita þjónustu sem er næst því sem gerist á sjúkrahúsum.“ 

Viðari er það greinilega mikið kappsmál að fá hingað til lands sambærilega sjúkraþyrlu og er í London mannaða sérhæfðu starfsfólki. „Ég þekki þetta vel er sjálfur á þyrluvakt á þyrlu Landhelgisgæslunnar og þar getur viðbragðstíminn verið langur. Ég tel að við getum gert enn betur hér á landi og að því eigum við að stefna.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Jón Viðar dásamar Ófærð: „Hvað vill fólk meira?“

Heimilið

Fá hjón verja jafn miklum tíma saman

Tíska

Hildur Yeoman í Hong Kong

Auglýsing

Nýjast

„Ég er mikið kvikindi“

Fékk stað­gengil í nýjustu seríu Game of Thrones

Grænkerar í sjálfkeyrandi bílum

„Hæfileg óreiða finnst mér heilbrigð“

Komnar með bakteríuna

Hef sofnað á ýmsum skrýtnum stöðum

Auglýsing