Í dag kemur út lagið Gamechanger, en tónlistarmaðurinn Magnús Thorlacius gefur það út undir listamannsnafninu Myrkvi. Lagið fjallar um kærustuna hans, Freydísi.

„Ég samdi lagið þegar ég kynntist kærustunni minni. Þetta var í rauninni ný tilfinning fyrir mig því ég hafði ekki fallið fyrir neinum svo lengi og aldrei áður á þennan máta. Allt gekk einhvern veginn svo smurt og án þess að færa það í orð vissum við bæði að okkur liði eins. Ég er almennt frekar lokaður tilfinningalega og var eflaust í mínum dýpsta dal þegar við kynntumst svo þetta var algjör kollvörpun fyrir mig. Lagið var samið á píanóið hjá mömmu og pabba en ég flutti fljótlega út með henni stuttu seinna,“ segir Magnús.

Kærustuparið kynntist upphaflega á stefnumótaforritinu Tinder.

„Við fórum á Ölstofuna á miðvikudegi og gerðum okkur síðan bæði upp eitthvert tilefni til þess að hittast strax aftur á föstudeginum og laugardeginum. Við áttum enga sameiginlega vini og vorum bæði óskrifað blað fyrir hvort öðru.“

Allar myndirnar sem fylgja smáskífunum eru eftir Freydísi.

„Sama málverk og fylgir nýja laginu var notað sem grunnur fyrir plötuumslagið en Viktor Weisshappel, vinur minn, vann með það og bjó til nýja mynd.“

Gefur út breiðskífu

Magnús segir að hann og Freydís séu bæði miklir dýravinir, en saman eiga þau köttinn Stefán Thorlacius.

„Hún endaði á að mála kisur ofan á smáskífumálverkin. Síðasta verkefnið sem hún kláraði var að hekla svona lítið indjánatjald fyrir Stebba. Annars er lagið að sjálfsögðu tileinkað henni og smá auka afmælisgjöf en hún átti afmæli í gær,“ segir hann.

Magnús segist vera einstaklega ánægður með útkomuna.

„Lagið er í persónulegu uppáhaldi og síðasta lagið sem kemur út fyrir útgáfu plötunnar. Það er jafnframt fyrsta lagið sem ég gef út sem ég hef samið á píanó. Mér finnst grúvið svo skemmtilegt í því og það minnir mig á svo geggjaða tilfinningu. Mér finnst það eitthvað svo heilsteypt og hafa tekist vel til. Afslöppuðu gítarinnkomurnar í versunum og lokakaflinn eru rúsínurnar í grautnum að mínu mati,“ segir Magnús.

Undanfarið hefur Magnús fyrst og fremst verið að undirbúa útgáfu sinnar fyrstu plötu.

„Ég get hér með tilkynnt að hún kemur út 30.10.20 á vínyl, geisladiski og stafrænu formi. Platan mun innihalda 11 lög.“

Magnús rétt náði að halda tónleika í sumar, daginn áður en að fjöldatakmarkanir voru settar á vegna annarrar bylgju COVID-19.

„Síðustu tónleikarnir hjá mér þar á undan höfðu einmitt verið sama daginn og fyrsta smitið greindist hér á landi. Kannski ætti ég aldrei að halda tónleika aftur,“ segir Magnús kíminn. „En ég hef þess á milli tekið þátt í nokkrum streymum, meðal annars á svölunum hjá Svavari Knúti, og haldið mér uppteknum í músíkinni á öðrum sviðum.“

Mikil áskorun

Hann segist ekki hafa verið undirbúinn annarri bylgjunni og eflaust farinn að taka ástandið meira inn á sig.

„Það verður mikil áskorun og mun erfiðara að fylgja eftir útgáfu plötunnar með öllum takmörkununum á tónleikahaldi, ekki síst erlendis. Þá er Iceland Airwaves-hátíðin sem jólin fyrir mér og því mikill skellur að það þurfti að fresta henni. Ég mun þó spila þar á næsta ári og ég tek yfir Instagram-ið þeirra einmitt í dag, vonandi fylgjast sem flestir með því. Þau hjá Airwaves eru endalaust hjálpleg og frumleg í að styðja við senuna í dag, þrátt fyrir takmarkanir, ég get ekki þakkað þeim nóg,“ segir hann.

Magnús segir það búið að vera þó nokkur áskorun að koma Myrkva á kortið í ljósi þess að hann hefur lítið sem ekkert getað spilað.

„Það að koma fram held ég að sé besta leiðin til þess að stimpla nýtt atriði inn. Ég hef reynt að vera duglegur í að kynna tónlistina og koma mér á framfæri á netinu í staðinn,“ segir hann.

Lagið Gamechanger með Myrkva er hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum.