Rósa hóf störf innan geirans í kjölfar kreppunnar 2008. „Þegar ég byrjaði voru um 700 lýsingarhönnuðir í öllum heiminum. Í dag erum við orðin mörg þúsund enda bjóða skólar nú loks upp á meistaranám í lýsingarhönnun,“ segir Rósa sem starfrækir lýsingarhönnunarfyrirtækið Ljósark.

„Lýsingarhönnuðir vinna gjarnan með arkitektum eða verkkaupum, og á mínum fyrstu árum í bransanum var algengt að lýsingarhönnuðir kæmu inn á síðustu stigum byggingarverkefna. En reglan er alla jafna sú að því fyrr sem við komum inn í ferlið, því betra og þannig er það oftast í dag.“

Lítill markaður

Lýsingarhönnun er afar vítt svið og er nýtt á ýmsum líklegum og ólíklegum stöðum. Hvort sem er í flugvélum, á íþróttaleikvangi, í Alþjóðlegu geimstöðinni eða á nýburadeildinni. Rósa segir að hér á landi sé starfið einstaklega fjölbreytt þar sem markaðurinn er lítill.

„Við sem þjónum markaðnum erum líka fá og þá er strembið að sérhæfa sig. En mér finnst það mikill kostur að geta tekið að mér margs konar verkefni, hvort heldur er minni verkefni í heimahúsum eða stærri verkefni eins og Hörpu og fleira. Hvert verkefni er ólíkt öðru, sérstaklega þegar unnið er í heimahúsum. Kúnnarnir hafa svo ólíkar kröfur. Ljós er persónulegt og fólki líður mismunandi í ólíkri birtu. Sumir vilja hafa mikið ljós og aðrir vilja eiginlega ekkert ljós. Þá er mikilvægt að fá lýsingarhönnuðinn snemma inn í ferlið.“

Forskot sem Íslendingur

Rósa segir að sem Íslendingur hafi hún ákveðið forskot yfir marga erlenda ljósahönnuði sem hún hefur starfað með. „Þó svo við áttum okkur kannski ekki á því, þá erum við yfir höfuð mjög tengd ljósinu og birtunni hér á landi. Dægursveiflur á milli árstíða eru gífurlegar og það er alls ekki alltaf sama birtan á hverri klukkustund fyrir sig. Eins og við höfum séð á síðustu dögum getur drungalegt él umbreyst í glaðasólskin á örskammri stundu.

Bílakjallari Hörpu. Verkefnið var unnið með Batteríinu arkitektum. Mynd/Rafn Sig

Kollegar mínir frá útlöndum horfa öfundaraugum á birtuna sem við búum við dagsdaglega. Margir fyllast innblæstri er þeir verða vitni að sólarhringslangri dagsbirtu á sumrin og norðurljósunum á veturna. Skilningur Íslendinga á birtunni er því töluvert meiri en hjá nágrannaþjóðum og ég sé það líka að íslenskir verkkaupar eru einstaklega kröfuharðir miðað við marga erlenda.“

Lýsingarhönnun er lykilatriði

Rósa segir að lýsing og lýsingarhönnun eigi heima á sama stað og hljóðvist í daglegu lífi. „Oft á tíðum er hljóðvistin tekin sem sérfag í byggingariðnaðinum á meðan lýsingin er grafin inni í rafkerfahlutanum, sérstaklega í stærri verkefnum fyrir ríkið. Oft er ekki einu sinni beðið sérstaklega um lýsingarhönnuð. Ljósvist, innivist og hljóðvist, þetta fer allt saman og eru allt þættir sem þarf að hafa í huga þegar kemur að byggingu mannvirkja. Þú getur rétt ímyndað þér hversu mikil áhrif lýsing og birta hefur á fólk hér á landi, en samkvæmt rannsóknum eyðum við hátt í 92 prósentum af tíma okkar inni, hvort heldur er heima við eða í vinnunni.“

Það er líka mjög mikilvægt að hugsa um glugga þegar kemur að lýsingarhönnun, en því hærri sem gluggarnir eru, því dýpra nær birtan inn í rýmið. „Þetta var til dæmis mjög mikið atriði þegar kom að hönnun fangelsisins á Hólmsheiði, en þar eyða fangar miklum tíma inni við og aðgengi að dagsbirtu skiptir þar sköpum. Þegar kemur að byggingu fjölbýlishúsa er sífellt leitað leiða til að byggja hagkvæmar. Erlendis eru oft bara gluggar á einni hlið á fjölbýlishúsum. Þá skiptir reginmáli að velja rétt gler og háa glugga sem veita dagsbirtunni langt inn í djúp rými.“

Flökt getur valdið verkjum

Lýsingarhönnun er alls staðar í kringum okkur. Þó svo við tökum ekki alltaf eftir henni, þá finnum við það á okkur þegar hún er röng eða jafnvel ekki til staðar. „Ég var eitt sinn kölluð inn á elliheimili þar sem starfsmenn voru sannfærðir, eftir að hafa horft á Kastljóssþátt um skaðsemi blárra ljósa, um að vanlíðan þeirra í rýminu stafaði af bláum ljósum. Þegar ég steig inn í rýmið fann ég strax vandamálið. Þetta hafði ekkert með blá ljós að gera, heldur flökt. Það var nýbúið að skipta um ljós og flöktið var það sem olli vanlíðaninni.

Sveinatunga. Verkefnið var unnið með Yrki arkitektar. Mynd/Nanne Springer.

Málið er að þú sérð ekki flöktið, því það er ósýnilegt, en við finnum samt fyrir því. Við erum vissulega mismóttækileg fyrir því en þetta getur valdið höfuðverkjum, augnþreytu og fólk sem er flogaveikt eða með mígreni er sérstaklega viðkvæmt. Orsakir fyrir flöktinu geta verið ýmiss konar, en oftast er um að ræða óvandaðan rafeindabúnað sem hentar ekki. Til þess að koma í veg fyrir flöktið þarf að skipta út straumfestum eða spennum.“

Fagurfræðin

Starf lýsingarhönnuðar er bæði mikilvægt út frá praktísku sjónarmiði og fagurfræðilegu. „Ég byrja öll verkefni á fagurfræðilega þættinum. Ég fer inn í rýmið og skissa hvar ljósið kemur, hvar vantar ljós og hvað ég vil sjá. Ég byrja aldrei í sölublöðum eða í búðum að velja lampa. Það kemur síðast. Það þarf að byrja á að taka tillit til rýmisins, uppbyggingu þess, hvernig málning er og til áferðarinnar. Margir eru með dökkar innréttingar eða hurðar en það sem gleymist oft er að dökkir fletir endurkasta ekki ljósi. Því staðreyndin er sú að við sjáum ekki ljós, sem slíkt. Það sem við verðum vitni að er endurkast þess. Það þarf alltaf að taka tillit til endurkasts hlutanna í rýminu. Þar sem endurkast er lítið reyni ég að setja inn ljósgjafa sem maður sér, eins og kúpul eða ljósakrónur.“

Vodafone. Verkefnið var unnið með Yrki arkitektum. Mynd/Gunnar Sverris

Lýsingin spilar stórt hlutverk

Rósa sá um lýsingarhönnun í bílakjallara Hörpu en henni þykir merkilegt að þetta óvenjulega rými sé orðið að hálfgerðum viðburðastað í dag. Þar spili lýsingin stóran part. „Mér finnst mjög gaman að tala um bílakjallarann í Hörpu en við fengum viðurkenningu frá norrænu lýsingarverðlaununum fyrir það. Það er alls ekki oft sem bílakjallarar hljóta viðurkenningar enda er fólk oft tregt til að eyða tíma og peningum í slík rými. Við fengum það til dæmis með herkjum í gegn að mála loftin hvít og þegar upp er staðið gerir það gæfumuninn fyrir rýmið og það birtir upp. Við þurftum mikið að hugsa út fyrir kassann í þessu verkefni því þetta er allt gert í kreppunni 2008.

Mottóið var að lýsingin væri fyrir fólk en ekki bíla. Þá er ljósunum beint þar sem fólkið er, það er yfir bílastæðunum. Einnig vildum við hvetja börn sem eru gjörn á að hlaupa út á akstursleiðirnar að halda sig á göngustígunum. Fyrir ofan gangbrautirnar lýsa þá rautt, grænt og blátt ljós, sem saman mynda hvítt ljós, en þegar þú stendur undir þeim þá mynda þau marglita skugga. Einnig hönnuðum við eins konar ljósatónverk með löngum rauðum og appelsínugulum perum, eins konar tónlistarstöfum, sem kviknar og slokknar óreglulega á. Þetta er okkar túlkun á því sem fer fram inni í Hörpu.“