Einleikurinn Hellisbúinn er nú sýndur í Gamla bíói. Verkið á þrjátíu ára afmæli um þessar mundir. Jóel Sæmundsson fer með hlutverk hellisbúans í þetta skiptið, en verkið hefur tvisvar áður verið sett upp hér á landi.

Einleikurinn Hellisbúinn var saminn af bandaríska leikaranum og grínistanum Rob Decker, og var frumsýnt fyrir þrjátíu árum síðan. Um er að ræða einn vinsælasta einleik allra tíma og hafa tugir milljóna séð verkið sem hefur verið sett upp í 57 löndum.

Verkið hefur verið sett upp þrisvar á Íslandi, fyrstur fór Bjarni Haukur Þórsson með hlutverkið, síðan Jóhannes Haukur Jóhannesson og því næst tók leikarinn Jóel Sæmundsson við keflinu. Jóel færir nú Hellisbúanum nýtt líf í sviðsetningu hans og leikstjórans Emmu Peirson. Sýningin hefur verið endurskrifuð og uppfærð í takt við tímann.

„Við byrjuðum að sýna þessa uppsetningu árið 2017 og til 2019. Við erum núna að fara með uppsetninguna á einleikjahátíðina Act alone á Suðureyri í sumar. Mann langar ekki að æfa upp fyrir eina sýningu. Svo föttuðum við það að það eru þrjátíu ár síðan að Hellisbúinn var settur upp á Broadway. Enginn einleikur hefur verið sýndur samfellt í eins langan tíma á Broadway, New York,“ útskýrir Jóel.

Allt önnur sýning

Þau hafi því ákveðið að skella í sýningar í tilefni af afmæli verksins.

„En svo líka út af því að síðastliðið ár hefur verið svona, okkur langaði að fá einhvern hlátur inn í þetta blessaða líf. Þetta er sett þannig upp að þú situr bara við borð með þínu fólki og getur pantað drykki á borðið og hlegið. Það var svona helsta ástæðan fyrir því að við ákváðum að fara aftur á stað með sýningar,“ segir Jóel.

Hann tekur fram að alla jafna er fólk ekki að setja upp leiksýningu á þessum tíma árs, þegar sólin er að hækka og allir eru að fara út.

„En árið er bara búið að vera þannig að fólk vantar að fá að sitja, hlæja með sínu fólki og skemmta sér í tvo klukkutíma og gleyma stað og stund. Bara að njóta.“

Sterkari saman

Bjarni íslenskaði verkið og setti það upp í kringum aldamótin við gífurlegar vinsældir. Jóel er ekki með þá uppsetningu né Jóhannesar Hauks. Hann vildi í raun fara í vinnuna með ómótaðar skoðanir og pælingar, gera karakterinn að sínum.

„Við endurþýddum nýjustu útgáfuna sem er frá Þýskalandi. Hún er búin að ganga í fimmtán ár nánast daglega þar og það á að gera bíómynd eftir henni. Þannig að við erum í raun með allt öðruvísi útgáfu. Við tökum svo úr upphaflega handritinu part sem hefur oft verið sleppt í seinni útgáfum. Við útskýrum hvað verkið snýst í raun og veru um; að tveir einstaklingar með mismunandi eiginleika eru alltaf betri saman heldur en í sundur,“ segir Jóel.

Hann segir leikritið því reyna að rýna í þá staðreynd að þó við séum mörg með svipaða eiginleika, þá er enginn eins.

„Ef við finnum leið til að skilja hvort annað út frá sjónarhorni hins aðilans, þá verðum við mögulega skemmtilegri saman og núningurinn verður minni. Það kom sálfræðingur til mín eftir eina sýningu og sagði að verkið væri í raun bara frábær atferlismeðferð fyrir pör. Það eru margir sem upplifa meiri skilning til maka síns eftir að sjá verkið. Jafnvel fólk sem telur það skilja vini sína betur.“

Verkið skoðar einnig að við eigum flest mismunandi bakgrunn, komum frá mismunandi stöðum og að það liti hegðun okkar í nútímanum.

Gengur yfir öll sambönd

Jóel lýsir söguþræðinum á þann hátt að Rob Decker hafi skrifað um þá upplifun sína að uppgötva að við erum dálítið eins og ólíkir menningarhópar.

„Við komum að borðinu með mismunandi eiginleika, sem geta gengið vel saman ef við leyfum þeim að gera það. Ef við leyfum hinum aðilanum í sambandinu að vera að einhverju leyti hann sjálfur, þá höfum við tækifæri að vera ótrúlega öflug saman. Í raun fjallar þetta ekki bara um ástarsamband heldur öll sambönd okkar í lífinu, líka fjölskyldu og vina. Finnum leið til að vera sterkari saman.“

Jóel lenti í áhrifamikilli reynslu eftir eina sýninguna.

„Það kom kona til mín og sagði: „Eftir tíu mínútur af sýningunni, þá hætti ég að hlæja og byrjaði að hlusta“. Hún sagði við mig að hún vildi að hún hefði séð leikritið mörgum árum fyrr. Það gaf henni betra sjónarhorn á ýmis samskipti í fortíðinni,“ útskýrir Jóel.

Hann segir Decker upphaflega hafa byrjað að skrifa verkið til varnar karlmanninum, en það breyttist þegar leið á skriftirnar.

„Hann sá að hann yrði að fá sjónarhorn konunnar inn í verkið, það gengi ekki upp að fá bara aðra hliðina. Þannig að konan kemur inn í þetta. Hann gerir grín að konum og körlum. Fólk getur lært af þessu á meðan það veltist um af hlátri.“

Sýningar á verkinu eru 10. og 24. júní. Miðar fást á tix.is