Árverkniátakið Plastlaus september hefur nú farið fram í ár með örlítið breyttu sniði vegna heimsfaraldursins. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun. Í Plastlausum september eru neytendur hvattir til að nota minna af einnota plasti og velja frekar vörur úr öðru hráefni þegar það er hægt. Heiður Magný Herbertsdóttir er formaður samtakanna um Plastlausan september.

„Plastlaus september byrjaði árið 2017 og voru samtökin stofnuð af fjórum nágrannakonum. Fyrir tveimur árum auglýsa þær svo eftir fólki til að bætast í hópinn. Vinkona mín sér auglýsinguna og drífur mig með. Við tvær höfum því verið viðloðandi starfsemina síðan þá,“ segir Heiður Magný, en átakið hefur vaxið gríðarlega mikið með árunum og æ fleiri taka þátt.

Heiður segir áhuga sinn á umhverfisvernd og skynsemi í neyslumynstri hafa aukist með árunum, þetta hafi ekki endilega alltaf verið málefni sem hafi brunnið á henni.

„Það hefur verið ótrúlega mikil umhverfisvakning á síðustu árum. Það verður alltaf ljósara að við stöndum frammi fyrir stóru vandamáli. Loftslagsmál, bráðnun jökla og allt sorpið sem við á Vesturlöndum skiljum eftir okkur. Maður verður einhvern veginn meðvitaðri um þetta þegar maður eldist.“

Hún segir aðkomu sína að samtökunum hafa haft mikil áhrif á eigin neysluvenjur.

„Algjörlega. Það sem við leggjum líka upp með í Plastlausum september er að fólk nýti sér mánuðinn til að tileinka sér einhverja breytingu og bætta siði. Einstaklingarnir byrji þá á því í september en svo vonandi helst það við.“

Viðburðurinn var með nokkuð breyttu sniði í ár.

„Við byrjuðum mánuðinn á því að fá nokkrar umhverfisvænar verslanir með okkur í lið og vorum með svokallaðan rafrænan „pop-up“-markað. Þar gátu viðskiptavinir keypt plastlausar og umhverfisvænar vörur á tilboði. Vegna aðstæðna höfum við líka nýtt okkur það að vera mjög virk á samfélagsmiðlum og vorum með fræðslu um plastlausar lausnir á Facebook og Instagram. Við létum gera mikið af nýju og góðu kynningarefni sem hjálpar vonandi fólki að komast af stað,“ segir hún.

Heiður segir mikla vinnu hafa verið lagða í heimasíðuna.

„Við erum búin að þýða hana yfir á ensku, það gerðist í byrjun september. Svo erum við núna að klára að þýða hana á pólsku, hún verður líklega tilbúin í næstu viku. Á síðunni ættu flestir að geta aflað sé allra helstu upplýsinga hvernig er hægt að byrja, eða í það minnsta fengið hugmyndir um hvernig hægt er að byrja að minnka plastnotkun sína,“ segir Heiður Magný.

Hún segir fólk ólíkt og því henti ekki öllum endilega það sama.

„Við viljum meina að það sé best að byrja á einni lítilli breytingu, þú borðar ekki allan fílinn í einu,“ segir Heiður og hlær. „Það er sniðugt að byrja á lítilli breytingu og þegar hún er orðin að vana, þá getur maður tekið fyrir aðra breytingu.“

Hún bætir við að það sé algengara að fólk gefist upp reyni það að fara of geyst í breytingarnar.

„Það er nánast ógerningur að vera alveg plastlaus í nútíma samfélagi. Það er mjög erfitt, allavega eins og staðan er í dag. En það hafa átt sér stað miklar breytingar bara frá því ég byrjaði í samtökunum árið 2018. Núna fær maður til dæmis bambustannbursta og eyrnapinna bara úti í næstu matvöruverslun. Áður var bara hægt að fá slíkt í sérverslunum eða á netinu.“

Hún segist líka finna fyrir því að matvælaframleiðendur séu orðnir mun meðvitaðri.

„Margir þeirra eru farnir að leita leiða til að minnka plastnotkun, til dæmis eins og kjötframleiðendur. Þetta er allt að þróast í rétta átt. Þó að allt gerist ekki á einni nóttu, þá er þetta að breytast smám saman. Sem neytendur, þá höfum við áhrif,“ segir Heiður Magný.