Aðstæður í samfélaginu eru farnar að breytast enn á ný og því hafa eflaust margir þurft að slá á frest ferðalögum sem fyrirhuguð voru í ágústmánuði. Það er þó óþarfi að kvíða litlausum leiðinlegum helgum án afþreyingar því nóg er hægt að bralla sé maður vopnaður hugmyndafluginu. Hér er samantekt yfir nokkra skemmtilega hluti til að gera saman.

Kubb úti í garði: Búi maður svo vel að hafa garð eða verönd, þá er það skemmtileg afþreying fyrir fjölskylduna að spila hinn skemmtilega útileik Kubb. Nú eða þá bara inni á teppi, vilji maður gerast svo djarfur. Bara muna að spyrja mömmu og pabba fyrst.
Origami: Á Internetinu er nóg af kennslumyndböndum og leiðbeiningum um þessa japönsku pappírslist. Þetta þjálfar líka einbeitingu og þolinmæði sem er öllum hollt, ungum sem öldnum. Svo má gera fallegan óróa úr origami-trönum.
Bakstur: Það er um að gera að nýta tímann til að prufa sig áfram í bakstrinum, það eru takmörk fyrir því hve mörg súrdeigsbrauð má gera áður en maður lætur reyna á eitthvað nýtt. Það er gaman að snúast í bakstrinum saman og hjálpast að.
Jóga: Það er ekki vitlaust að nýta tímann heima fyrir til að huga aðeins að heilsunni og gera það saman. Það er fjöldinn allur af myndböndum á netinu, þar á meðal á íslensku, þannig allir geti fylgst með.
Slímgerð: Þetta var vinsælasta sportið fyrir nokkrum árum. Nú er kjörið að rifja upp taktana og fara öll saman í slímgerð. Auðvelt er að nálgast hráefnin og finna leiðbeiningar á netinu.