Ný skáldsaga eftir Hauk Má Helgason hefur titilinn Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru. Spurður um efni bókarinnar segir Haukur Már:

„Þessi bók er skýrsla úr yfirheyrslu lögreglunnar yfir örverufræðingnum Ónatan. Daginn eftir að Ónatan var rekinn úr starfi hjá Náttúrufræðistofnun eru á fjórða hundrað skrautfuglar leystir úr sóttkví í Holtagörðum, þar sem átti annars að farga þeim. Ónatan virðist vera grunaður í málinu. Á meðan varðstjóri yfirheyrir hann, á stöðinni við Hlemm, eru flestar lögregludeildir önnum kafnar við að leita fuglana uppi, úti um alla borg, og framfylgja förguninni á víðavangi.

Ég vann að bókinni í nokkurn tíma með þennan karakter í höndunum, og þetta ástand á honum, að hann þorir ekki að segja konunni sinni að hann hafi verið rekinn. Hann er svo huglaus að hann unir sér eiginlega betur við lögregluyfirheyrslu en hann myndi gera frammi fyrir raunveruleika eigin tilveru. Þarna draga ákveðin viðfangsefni hvert annað fram, í aðstæðum sem eru bara svona einföld kómedía. Hugleysi, skapleysi, skap, náttúra. Þræðirnir sem tóku að vefast saman þarna drógu mig svolítið í átt að nýjum viðfangsefnum, einhverju sem ég þekkti sjálfur ekki vel og þurfti svolítið að kynna mér. Við erum svo ný í náttúrunni, það eru bara tíu, fimmtán ár síðan Darwin kom út á íslensku.“

Kemur aftan að náttúrunni

Spurður um hlutverk náttúrunnar í sögunni segir Haukur Már: „Ég held að bókin reyni svolítið að koma aftan að náttúrunni, bæði almennt og sérstaklega þessu tiltekna hugtaki um íslenska náttúru. Til að laga veruleika lífsins að svona hugmynd þarf töluverða stýringu, eiginlega löggæslu. Íslensk náttúra hvílir á svolítið umfangsmikilli stjórnsýslu. En ef náttúra er á annað borð til þá er hún eitthvað sem lætur ekki alveg að stjórn, á það til að sullast út fyrir, sama hvað.“

Haukur Már er heimspekimenntaður og því liggur beinast við að spyrja hvort heimspekilegar vangaveltur sé að finna í bókinni. „Einn vani úr heimspekinni er kannski að reyna að leggja sig eftir því að finna leiðir aftan að orðunum. Sérstaklega þeim sem virðast sjálfsögð, atast í hverju sem virðist ríkja átakalítil sátt um,“ segir hann. „Þetta er ekki heimspekirit, svo ég segi það hreint út. En ef ég segi að þetta sé fyrst og fremst einhvers konar kómedía þá er ég hér um bil farinn að skipa fólki að hlæja, sem er áreiðanlega ekki viturlegt. Ég held að það sé miklu heppilegra að aðrir lesi bókina og segi mér svo hvernig hún er. Bækur eru svolítið eins og andremma að því leyti, hvernig sem maður grúfir höndina yfir vitin til að anda út um munninn og upp í nefið verður maður sjálfur aldrei jafn viss um hana og allir aðrir sem fyrir verða.“

Gætu ekki skrifað sömu bók

Haukur Már hefur áður sent frá sér skáldsöguna Svavar Pétur og 20. öldin, ljóðabækur, greinar og þýðingar. „Langmest af þeim texta sem ég hef látið frá mér gegnum tíðina, í orðum talið, hefur verið blaðamennska. Af einum eða öðrum toga. Síðan eru þarna innan um einhver ljóð, og nokkrar greinar sem byggja á meiri vinnu en daglega brunanum. Og þá loks ein skáldsaga. Hún kom út árið 2006. Í millitíðinni leið þessi líka slatti af tíma. Mér myndi bregða, held ég, fertugum, við að hitta þann sem ég var þá, 26 eða 27 ára gamall. Þeir tveir gætu áreiðanlega ekki skrifað sömu bók þó að þeir reyndu. Án þess að vilja hallmæla yngri manninum um of, þá held ég að nýja bókin sé aðeins betri. Kannski sama bókin, bara betri. En aftur, þetta með andremmuna, mig langar svolítið að hlusta eftir því hvað aðrir segja fyrst.“