112 dagurinn er nú haldinn í 16. sinn og ég vil byrja á að þakka þeim sem hafa komið að skipulagningu með einum eða öðrum hætti. Það er virkilega ánægjulegt að fá að taka þátt í þessum mikilvæga degi með ykkur.

Þá er það sérstakt ánægjuefni að dagurinn í dag skuli nú vera tileinkaður barnavernd og öryggi og velferð barna og ungmenna. Þó COVID-19 veiran virðist ekki herja á börn með sama hætti og ýmsa aðra hópa þá taka áskoranirnar sem stafa af faraldrinum á sig ólíkar myndir sem geta skapað aukna hættu fyrir öryggi og velferð barna.

Um þessar mundir er aukið álag á öllu samfélaginu og þá ekki síst mikilvægustu einingu þess, fjölskyldunni. Kvíði og streita geta skapast í tengslum við samkomu-bann, efnahagslegar áskoranir og minna aðgengi að stuðnings- og þjónustukerfum, bæði fagaðilum og ömmum, öfum og öðrum fjölskyldumeðlimum.

Reynslan sýnir okkur því miður að við þessar aðstæður aukast líkur á að börn verði þolendur vanrækslu og ofbeldis, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt.

Ég þekki það af eigin raun að búa við óöryggi í æsku og hvernig það getur haft áhrif á andlega líðan alveg fram á fullorðinsár. Saga mín er því miður saga allt of margra íslenskra barna.

Það er mjög mikilvægt að börn og fullorðnir viti hvað ofbeldi gegn börnum er, en það hefur margar birtingarmyndir. Það er líka mjög mikilvægt að við þekkjum öll úrræðin sem eru í boði og hikum ekki við að láta barnaverndaryfirvöld vita eða hringjum í 112 ef við höfum rökstuddan grun um ofbeldi eða vanrækslu gegn barni.

Sameiginleg, rafræn gátt vegna ofbeldis fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur var formlega tekin í notkun nýverið. Í henni felst að vefur 112, 112.is, er allsherjar upplýsingatorg um allt sem við kemur ofbeldi, ásamt því að hægt er að spjalla nafnlaust við neyðarverði í netspjalli.

Með sameiginlegri, rafrænni gátt vegna ofbeldis er allt ferli sem miðar að aðstoð einfaldað, upplýsingar um hvað ofbeldi er gerðar aðgengilegar og boðið upp á úrræði til lausnar.

Með sérstöku, rafrænu netspjalli geta þeir sem þurfa aðstoð vegna ofbeldis, slysa, sjúkdóma eða annars leitað upplýsinga og aðstoðar hjá 112 nafnlaust, jafnvel þó þeir geti eða vilji ekki nota síma.

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þennan nýja vef, 112.is. Þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar sem hjálpa okkur öllum að átta okkur á birtingarmyndum ofbeldis sem geta verið alls konar.

Alveg eins og við erum öll almannavarnir þá erum við öll barnavernd – stöndum saman um að vernda öryggi og velferð barna á Íslandi!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.