Nei, ég hef aldrei orðið hrædd um að smitast af COVID-19 en í aðra röndina væri það áhugavert innlegg í myndaseríuna, að taka sjálfsmyndir af mér smitaðri og það yrðu þá einu innimyndirnar sem teknar hefðu verið. Ég geri þó hvað ég get til að smitast ekki,“ segir ljósmyndarinn Rakel Ósk Sigurðardóttir, sem hefur frá því í fyrstu bylgju kórónaveirunnar tekið myndir af fjórum tugum Íslendinga sem smitast hafa af veirunni.

„Hugmyndinni laust niður í huga mér þegar fyrsta COVID-bylgjan var í uppsiglingu og ég beið ekki boðanna heldur fór strax af stað. Mér þótti ástæða til að skrá þetta myndrænt, jafnvel þótt fólkið sé bæði veikt og meyrt í veikindum sínum, því þegar frá líður veit ég að myndirnar verða æ dýrmætari og heimildagildið ómetanlegt frá þessum fordæmalausu tímum sem við lifum.“

Ung fjölskylda flutti heim til afa og ömmu á milli húsnæða, en þegar smit kom upp í leikskólanum þurftu amma og afi að búa í hjólhýsinu. MYND/RAKEL ÓSK

Örsögur við hverja mynd

Mesta vinnan hjá Rakel hefur farið í að finna þá sem eru veikir og í einangrun.

„Allir sem ég hef leitað til hafa verið til í að sitja fyrir á myndum, en í fyrstu bylgjunni og nú þegar sú þriðja ríður yfir finn ég aftur fyrir svolítilli smitskömm og því að fólk vilji helst ekki láta uppi að það sé með veiruna. Það er þó aðallega vegna þess að það er sakbitið yfir því að hafa orðið þess valdandi að aðrir séu sendir í sóttkví,“ segir Rakel og heldur áfram:

„Það er merkilegt að skrásetja þessa tíma með myndum því það er alls konar og venjulegt fólk sem lendir í þessum aðstæðum. Ég hef fengið ábendingar sem hafa mikið heimildagildi og sögulega samhengið skiptir máli við myndasöfnunina. Allir hafa sínar sögur að segja og ég skrifa niður örsögur með hverri og einni mynd, sem margar eru merkilegar,“ segir Rakel og nefnir dæmi.

„Til dæmis barnung systkin sem gátu ekki hitt mömmu sína í hálft ár út af voðalegu ástandinu sem ríkti á Ítalíu þar sem mamma þeirra bjó. Um leið og glufa gafst í sumar fóru þau samt út, vitandi að við tæki tveggja vikna sóttkví þegar heim kæmi.“

Rakel tekur líka myndir af fólki í sóttkví.

„Ég tók myndir af fótboltastelpu í KR sem þurfti fjórum sinnum í sóttkví og svo afa og barnabarni sem enginn bjóst nokkurn tímann við að þyrftu að vera tveir saman í einangrun á heimili afans í tvær vikur án þess að mega fara út. Allt styrkti það auðvitað tengslin á milli afa og afastráks og allt hefur þetta líka sína kosti. Margir sjá fjölskylduna sína í nýju ljósi og fá allt í einu ríkulegri tíma með sínum nánustu,“ segir Rakel.

Henni hefur gengið vel að hitta á viðfangsefni sín.

„Fólk er náttúrlega bara heima hjá sér á þessum undarlegu tímum og ekkert mál að hitta það, enda er algengasti brandarinn: „Við verðum bara heima.“ Stundum hefur fólk ekki hugmynd um hvernig það smitaðist og mér finnst þetta allt svo áhugavert út frá mannlegu sjónarmiði. Þess vegna fór ég af stað.“

Afi og afastrákur voru saman í tíu daga einangrun heima hjá afanum. MYND/RAKEL ÓSK

Þakklát fyrir ábendingar

Þegar veiran virtist í rénun í sumarbyrjun taldi Rakel verkefninu lokið.

„Mig grunaði ekki að ég ætti eftir að fara aftur af stað með nýjum faraldri en nú eru svo ótrúlega margir sýktir og komnir í einangrun, og meira að segja fjölmörg börn í sóttkví. Ég er því farin aftur af stað með myndavélina og er þakklát fyrir allar ábendingar sem ég fæ. Ég fékk til dæmis ábendingu á dögunum um hjón sem eru smituð með 25 ára syni sínum og búin að vera í einangrun í fjórar vikur, því enginn má fara út fyrr en sá síðasti er útskrifaður og hefur verið einkennalaus í sjö daga til að mega fara út í samfélagið á ný.“

Rakel tekur myndirnar inn um glugga eða af svölum húsa og segir það bæði skemmtilegt og ögrandi.

„Ég hef nú verið ljósmyndari í sjö ár og þetta verkefni hefur gefið mér nýja sýn á hlutina. Ég segi fólki sem minnst áður en ég kem, sumir búa hátt uppi og svo hefur veðrið sín áhrif líka. Því verða til áhugaverðir vinklar sem þarf að finna lausnir á þar sem sjúklingarnir mega ekki fara út, né má ég stíga fæti inn í garða húsanna þar sem búa sýktir einstaklingar.“

Til að vernda langveikan einstakling í fjölskyldunni þurfti þessi fjölskylda í Hafnarfirði öll að fara saman í verndarsóttkví. MYND/RAKEL ÓSK

Sumir tjá Rakel að þeir séu of veikir til að sitja fyrir á mynd.

„Mig langar samt að ná myndum af einstaklingum sem eru sjáanlega mikið lasnir af veirunni því það eru sögulegar heimildir líka. Ég tók líka mynd af yngsta barninu sem sýkst hefur hér á landi, en það var nýfæddur drengur sem ég myndaði með móður sinni. Þar var allur garðurinn girtur af og reyndi á að ná góðri mynd án þess að koma nær,“ upplýsir Rakel sem vill engu breyta í umhverfi þeirra sem hún tekur myndir af í einangrun og sóttkví.

„Ef útigrillið er beint fyrir framan húsið eða bíllinn, breyti ég engu þótt mér sé tamt að fegra ásýndina því ég hef unnið svo lengi við tímarita- og portrettljósmyndun, þar sem maður býr til fegraðan veruleika. Á COVID-myndunum blasir við hrár raunveruleikinn og það finnst mér einmitt svo heillandi, heimili og aðstæður fólks eru nákvæmlega eins og þær eru.“

Rakel er aftur tekin til við að mynda þá sem eru í einangrun og sóttkví í þriðju bylgjunni og tekur þakklát við ábendingum um smitaða einstaklinga. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Rakel segir suma hafa sig til áður en hún kemur en stundum geti hún ekki tímasett komu sína upp á mínútu og þá komi hún fólki stundum að óvörum.

„Margir spyrja hvernig þeir eigi að vera og ég segi þeim að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Ein var enn á nærbuxunum þegar ég mætti fyrir utan og þá tók ég mynd af henni á nærbuxunum í gegnum gluggann, sem var skemmtilegt. Ég tók líka mynd af óléttri konu í svörtum bol og sem bjó svo hátt uppi að ég sá ekki bumbuna. Ég bað hana að fara í ljósari bol en þá fór hún bara úr bolnum og var á bumbunni og ég tók myndina þannig. Ég vildi sýna að hún væri ófrísk og hefði getað farið af stað í fæðingu, sem hefði þýtt að maðurinn hennar hefði ekki mátt vera viðstaddur.“

Þegar Rakel bað barnshafandi konuna um að fara í ljósari bol fór sú ólétta úr bolnum og Rakel fékk mynd af bumbunni. MYND/RAKEL ÓSK

Ástríðuverkefni

Aðalstarf Rakelar er portrettljósmyndun og þá aðallega barna- og fjölskyldumyndir, sem og fermingar, útskriftir og brúðkaup.

„COVID-myndatökurnar eru fyrst og fremst ástríðuverkefni og samtímaskráning á einstökum tímum. Það hefur verið mikið þroskaferli fyrir mig sem ljósmyndara að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni, taka myndir af fólki úr fjarlægð og á heimili sínu sem má ekki yfirgefa í einangruninni,“ segir Rakel sem hefur ekki ákveðið hvort hún haldi sýningu á myndunum eða gefi þær út í bók.

„Það væri sannarlega gaman en ég er enn í miðju verkefni og mikilvægt að halda því áfram. Mér hefur þótt áhugavert að hitta alls konar fólk og mynda tengsl þess, eins og þrjá lögregluþjóna sem fóru saman í einangrun í sumarbústað eftir að hafa smitast af veirunni í vinnunni. Það voru tvær konur og einn karl sem missti af fæðingu dóttur sinnar vegna þess að hann mátti ekki rjúfa einangrun. Eftir að hafa hitt þau í einangruninni gat ég ekki hætt að hugsa um þetta, en fór svo og tók myndir af því þegar lögreglumaðurinn hitti nýfædda dóttur sína í fyrsta sinn. Ég er svo glöð í hjarta mínu að þær heimildamyndir séu til, því þetta er sannarlega bæði fordæmalaust og sögulegt ástand.“

Tveir einstaklingar, sem sjást saman í glugga á efri hæð, voru saman í einangrun á meðan allir hinir í fjölskyldunni þurftu í sóttkví. MYNDIR/RAKEL ÓSK

Þeir sem lesa þetta viðtal og eru í einangrun mega gjarna senda Rakel tölvupóst, sem og allir sem þekkja smitaða einstaklinga í einangrun.

„COVID-19 er sjúkdómur sem fer ekki í manngreinarálit og veiran getur læðst að fólki hvar sem er. Því þarf hvorki að skammast sín fyrir að hafa orðið veikur né að hafa samviskubit vegna þess að fleiri hafa þurft í sóttkví. Þetta eru einfaldlega þannig tímar og við þurfum að gæta heimildavinnunnar við þá.“

Senda má Rakel ábendingar á netfangið rakel@rakelosk.com og á Instagram: @rakelphoto