Þóra Kolbrún útskýrir að KAP standi fyrir Kundalini Activation Process. KAP eru stakir viðburðir sem hún hefur boðið upp á ásamt Gísla Rafni Guðmundssyni og Sunnevu Birgisdóttur. Þau hafa verið með þessa viðburði reglulega í næstum tvö ár, hér og þar á landinu.

„Kundalini er vitundin eins og hún leggur sig,“ útskýrir Þóra Kolbrún.

„Þessi orka hefur verið bæld niður í árþúsund með ýmsum skilyrðingum um hvernig við eigum að hegða okkur og vera. Skilyrðingum sem koma frá forfeðrum, formæðrum, vinum, fjölskyldu og samfélaginu í heild. Þetta er orka sem vill fara að vakna og við erum mörg farin að finna fyrir því á einn eða annan hátt. Kundalini er í raun bara vitundin en þegar þessi orka kemur inn í líkamann eiga ýmsar upplifanir sér stað.“

Þóra, Sunneva og Gísli Rafn hafa öll uppgötvað töfra KAP og halda reglulega viðburði. MYND/Gunnar jónatansson

Þóra Kolbrún útskýrir að í KAP-tímum fari í gang ákveðið ferli sem snýst um að losa sig við þær hugmyndir sem okkur hafa verið kenndar, til að fá meira frelsi.

„Það sem við höfum lært, við höldum í það, það er í kerfinu okkar. Við erum alltaf með hugmynd um hver við erum, en þegar sú hugmynd fer að losna þá verður meira um prana í líkama okkar. Prana er lífsorka. Lífsorkan byggist upp í lakana okkar í gegnum KAP. Hún lekur ekki út eins og áður í formi hugsana, heldur byggist upp í líkamanum. Oftast missum við þessa orku í gegnum hugsanir, af því við höldum að við séum hugurinn og tilfinningar okkar. Þegar við áttum okkur á því að við erum það sem er þar á bak við, þá hættum við að skilgreina okkur út frá hugsunum og tilfinningum. Það sem kemur og fer, það er ekki við,“ segir hún og bætir við að það sé í raun mjög erfitt að útskýra þetta ferli með orðum, þar sem þetta er upplifun og eitthvað sem fólk verður að prófa sjálft.

Djúpt hugleiðsluástand

Á KAP-viðburðunum kemur fólk sér fyrir á jógadýnum og hver og einn þátttakandi fær snertingu meðal annars á höfði, bringubeini, maga og iljum. Þóra Kolbrún segir að upplifanirnar sem eiga sér stað í tímanum séu mjög einstaklingsbundnar.

„Í hverjum tíma er farið aðeins dýpra og engir tveir tímar eru eins. Fólk upplifir djúpt hugleiðsluástand, ósjálfráðar hreyfingar sem ferðast í gegnum líkamann eins og kippir, danshreyfingar, jógastöður, teygjur eða handstöður. Fólk getur upplifað sýnir og gamlar minningar koma stundum upp á yfirborðið. Tilfinningar eins og ótti, reiði og gleði,“ útskýrir Þóra Kolbrún.

„Það er oft engin saga á bak við þessar tilfinningar. Þær koma bara og fara og ekki er óalgengt að fólk öskri, gráti eða hlæi í tímanum. Orkan sem kemur í gegn fer einfaldlega á þann stað sem hennar er þörf hverju sinni. Við stýrum henni ekki á nokkurn hátt heldur erum við einfaldlega millistykki sem berum orkuna áfram.“

Þarf fólk að vera opið fyrir þessu svo þetta virki?

„Nei í raun ekki. Það eina sem þarf er að liggja algjörlega slakur á jógadýnunni og gefa alveg eftir inn í líkamann. Það er ekki hægt að segja fólki að gefa eftir heldur gerist það bara þegar orkan tekur yfir. Það er um það bil 90% svörun í tímunum svo ef það mæta kannski 25 manns, þá eru kannski einn til tveir sem finna lítið sem ekkert á meðan á tímanum stendur. En það þýðir ekki að það sé ekkert að gerast, heldur gerist ferlið á mjög fínlegu leveli í orkukerfinu og finnur fólk oft fyrir breytingu þegar heim er komið.“ segir Þóra Kolbrún.

„Þetta er eins og gjöf sem þú gefur áfram. Það eina sem þarf er að vera opin fyrir öllu sem er og að þú sért meira en bara hugur og líkami. Við það gerast töfrar.“

Lífsorkan hleðst upp

Þóra Kolbrún útskýrir að í gegnum lífið séum við alltaf að missa orku í gegnum hugann. Hún segir að mestmegnis séum við með athyglina fyrir utan okkur en í gegnum KAP-ferlið fari hugurinn að róast og athyglin færist inn á við.

„Upplifunin er einstaklingsbundin, en í raun og veru þá fer lífsorka að hlaðast upp í kerfinu. Og þegar hún fer að hlaðast upp fer hreinsun að eiga sér stað og hreinsunin losar okkur við allt sem við erum ekki. Við missum lífsorkuna í gegnum allar þær hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf. KAP hreinsar orkukerfið okkar og losar okkur við hömlur og viðnám sem við burðumst með. Þegar lífsorkan fer að byggjast upp í kerfinu okkar þá fer hún að hreinsa allt sem þjónar okkur ekki lengur. Þessar upplifanir sem fólk fær í tímunum eru bara partur af hreinsuninni. Til dæmis þegar fólk fær þessar ósjálfráðu hreyfingar, þá er lífsorkan að flæða um orkubrautir sem hún hefur ekki náð að flæða um óhindruð áður.“

Þóra segir að KAP hafi losað hana við kvíða og ótta sem haldið hafa aftur af henni. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR GEIRSSON

Þóra Kolbrún kynntist sjálf kundalini jóga eftir forskrift Yogi Bahjan árið 2011 og útskrifaðist svo sjálf sem kundalini jógakennari árið 2013. Hún sótti á svipuðum tíma ýmis mannræktarnámskeið og lauk BSc námi í Háskólanum í Reykjavík árið 2014. Eftir það fór hún aftur inn á andlegu brautina.

„Ég kynntist KAP árið 2019. Það kom kennari hingað til Íslands árið 2019 í gegnum nöfnu mína Þóru Hlín, sem er sú sem kom með KAP til Íslands, en hún kynntist því í Tælandi. Kennarinn heitir Venant Wong, ég fór á viðburð hjá honum hér á Íslandi og fór svo í framhaldi í nám til hans. Síðan þá hef ég haft marga kennara og leitt ýmiss konar viðburði. Ég nota ýmislegt til viðbótar við KAP-ið til þess að leiða fólk dýpra inn á við. Svo sem gong-slökun, kirtan möntrusöng, tantraæfingar, ceremonial cacao, dans, öndunaræfingar og fleira,“ segir Þóra Kolbrún.

Hún segir KAP vera ástríðu sína og að loksins hafi hún fundið vettvang til þess að bjóða upp á ýmislegt sem hún hefur sankað að sér undanfarin 20 ár í leit að innra frelsi. Hún segist hafa séð að KAP-viðburðirnir hafa breytt lífi fólks rétt eins og hennar. Hægt er að fylgjast með viðburðum á Facebook-síðunni KAP Facilitators Iceland.

„Ég ætlaði alltaf að verða sálfræðingur og ég veit svo sem ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. En þegar ég áttaði mig á því að það væri eitthvað meira þarna en bara líkaminn og hugurinn, og að stundum er ekki hægt að tala sig út úr hlutunum heldur verði að verða orkuleg breyting í kerfinu, þá áttaði ég mig á að ég vildi flétta saman sálfræðimenntunina mína og jógafræðin. Ég held að þetta tvennt vinni mjög vel saman,“ segir hún.

„Ég hef sjálf náð að losa mig við kvíða og ótta sem hafði haldið aftur af mér. Þetta jógaferðalag hefur algjörlega breytt lífi mínu.“