Dýrslegur kraftur“ eða „Raw Power“? Hvorugt heitið nær fyllilega utan um sýninguna sem nú stendur yfir á annarri hæð Listasafns Reykjavíkur; strangt til tekið hafa þau heldur ekki sömu merkingu.

Í verki eftir Jóhann L. Torfason á sýningunni kemur hins vegar fyrir frasi sem er að vísu ekki eins grípandi en lýsir öllu betur því sem fjallað er um, nefnilega „mótsagnakenndar aðstæður samtímans“. Og hver er ókrýndur meistari mótsagnanna í myndlistinni, og ekki einasta á Íslandi, annar en Guðmundur Guðmundsson, Erró? Enda eru verk Errós notuð hér sem eins konar útgangspunktur og mælistika á þær hugmyndir sem valinn hópur yngri myndlistarmanna íslenskra veltir upp, fremur en sem hefðbundnir „áhrifavaldar“.

Aðalsteinn Ingólfsson.
Fréttablaðið/Vilhelm

Við það gengur Erró í endurnýjun lífdaganna sem myndlistarmaður, gerist aftur samtímamaður okkar. Eins og allir marktækir listamenn eru, ef grannt er skoðað.

Þessi sýning markar nokkur þáttaskil í umgengni okkar við verk Errós. Til þessa hafa Errósýningar Listasafns Reykjavíkur nánast eingöngu snúist um tímabil eða áherslur í verkum listamannsins sjálfs; önnur viðhorf til þessara verka hafa ekki átt upp á pallborðið hjá þeim sem stýrt hafa sýningum þar á bæ.

Hér gengur sýningarstjórinn, Birgir Snæbjörn Birgisson, út frá dystópískri veraldarsýn Errós í vali sínu á verkum yngri listamanna: ringulreiðinni, rótleysinu, neysluæðinu, viðvarandi mannfyrirlitningunni og ofstækinu í nútímanum, sem steypt er saman í allsherjar usla í myndlist hans. Og gleymir að sjálfsögðu ekki frásagnargleði listamannsins, kaldhæðni, uppáfinningasemi og gráglettni.

Fáránleiki hvunndagsins

Nú er Erró að sjálfsögðu markaður af öðrum samtíma en þeim sem við stöndum frammi fyrir, sjötta áratugnum þegar heimsstyrjöld var ekki fyrr lokið er aðrar styrjaldir blossuðu upp um heim allan; í Kóreu, Indókína, Alsír og loks Víetnam.

Gabríela Friðriksdóttir við verk sitt á sýningunni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Manneskjan virtist ekkert hafa vitkast, vetnissprengjan var sínálæg, velmegun og ójöfnuður meiri en nokkru sinni á öldinni, kynþáttahatur landlægt í mörgum löndum og upplýsinga- og miðlun mynda og hugmynda við upphaf gagngerra breytinga á skynjuninni og tilverunni. Því er engin furða þótt viðbrögð íslensks heimsmanns úti í París við því sem hann sér og nemur séu yfirgripsmeiri og hatrammari en þau sem blasa við í verkum ungra listamanna hér uppi á Íslandi á því herrans ári 2021.

Vissulega er enginn skortur á frásagnargleði í verkum hinna yngri, gálgahúmorinn er sömuleiðis til staðar, einnig ómæld kaldhæðni og meðvitund um fáránleikann í daglegu lífi. Mér verður t.d. litið til verka Jóhanns L. Torfasonar, Baldurs Helgasonar, Gabríelu Friðriksdóttur og Þórdísar Aðalsteinsdóttur. En sjónarhorn flestra þeirra er óneitanlega þrengra og afmarkaðra en það sem við sjáum í verkum Errós, snertir skaðvænleg áhrif samtímans á vitund einstaklingsins fremur en andrúmsloftið í samfélaginu eða heiminum.

Blonde in Pink Fuzzy Sweater eftir Baldur Helgason, 2020.
Mynd/Aðsend

Helst er það að áhorfandinn skynji í þessum verkum nokkurn ugg yfir „tæringu“ hins mennska og einkalega, óttann við að við séum bráðum ófær um að upplifa þetta tvennt og skilgreina fyrir klisjum, bábiljum, ranghugmyndum og alls konar áreiti í þjóðfélagi samfélagsmiðla og stór­kapítal­ista.

Sjónarhóll hins sítengda

Í þessari meintu aðför að einstaklingsvitundinni glatast ýmislegt eða brenglast, veruleiki og hugarburður renna saman í einn graut, nútíð og fortíð tapa merkingu sinni og allt sem heitir gildismat fer úr skorðum.

Frá sjónarhóli hins sítengda og aðþrengda einstaklings lítur tilveran vísast út eins og málverk eftir Kristin Má Pálmason, uppfull með samhengislaust samsafn alls þess sem hann getur hugsað sér en fær með engu móti skilið.

Þetta framtak Birgis Snæbjörns í Hafnarhúsinu er bæði tímabært og virðingarvert. Og hefði verðskuldað viðlíka stuðning Listasafns Reykjavíkur og margar stórsýningar safnsins að Kjarvalsstöðum, t.d. skrá með greinagóðri hugleiðingu um efni sem brýnt er að fjalla um.

Ég segi ekki að val á sýndum verkum, Errós og annarra, sé fullkomið. Ugglaust hefði verið hægt að stilla þau betur saman. Ekki hafa allir sýnendur heldur til að bera þann „dýrslega kraft“ sem sýningarstjórinn kallar eftir í meðfylgjandi tvíblöðungi.

Til að mynda eru verk Söru Riel tæpast nógu veigamikil fyrir þennan félagsskap, og prjónaverk Ýrar Jóhannsdóttur er dáldið einmana innan um öll olíumálverkin Óverðskuldað er Úlfur Karlsson, einn af kröftugustu túlkendum uslans í samtímanum (og mikill aðdáandi Errós), síðan fjarri góðu gamni.