Vertu úlfur, leik­sýning Þjóð­leik­hússins, kom sá og sigraði á Grímu­verð­launa­há­tíðinni í kvöld. Sýningin hlaut öll sjö verð­launin sem sýningin var til­nefnd til.

Sýningin er eftir þau Unni Ösp Stefáns­dóttur og Héðinn Unn­steins­son. Hlaut hún verð­laun meðal annars sem sýning og leik­rit ársins, fyrir leik­stjórn og leikara í aðal­hlut­verki. Um er að ræða ein­leik með Birni Thors í aðal­hlut­verki og byggist sýningin á sam­nefndi bók Héðins Unn­steins­sonar og segir frá reynslu hans af geð­hvörfum.

Þá fékk nú­tíma­óperan Ekkert er sorg­legra en manneskjan, eftir þá Frið­rik Margrétar Guð­munds­son og Adolf Smára Unnars­son tvenn verð­laun, fyrir tón­list ársins auk þess sem María Sól Ingólfs­dóttir fékk verð­laun sem söngvari ársins fyrir hlut­verk sitt í sýningunni.

Barna­sýningin Kaf­bátur fékk einnig tvenn verð­laun, sem barna­sýning ársins og hlaut Kjartan Darri Kristjáns­son verð­laun fyrir leik í auka­hlut­verki í sýningunni. Þá hlaut dans­sýningin Ævi einnig tvenn verð­laun, Inga Maren Rúnars­dóttir sem dansari og dans­höfundur ársins.

Leik­kona ársins í aðal­hlut­verki er Edda Björg Eyjólfs­dóttir fyrir hlut­verk sitt í sýningunni Haukur og Lilja - Opnun. Birna Péturs­dóttir fékk verð­laun sem leik­kona ársins í auka­hlut­verki fyrir hlut­verk sitt í sýningunni Bene­dikt búálfur. Heiðurs­verð­laun hlutu þau Hall­veig Thor­la­cius og Þór­hallur Sigurðs­son.