Árið 1992 ákvað breska útibú bandaríska ryksuguframleiðandans Hoover að bjóða viðskiptavinum sínum flugferð fyrir tvo til Bandaríkjanna ef þeir keyptu vörur fyrir meira en 100 pund, sem í dag samsvarar um 17.500 krónum. Fyrirtækið vildi snúa við dvínandi sölu, en tilboðið átti eftir að kosta það bæði gríðarlega fjármuni og orðsporið. Fjallað var um tilboðið á vefnum The Hustle.

Hoover hafði mikið traust meðal almennings og var svo ráðandi í Bretlandi að orðið „hoover“ varð sagnorð yfir að ryksuga. En á seinni hluta 9. áratugarins fór að halla undan fæti og hagnaðurinn dróst verulega saman.

Hunsuðu allar viðvaranir

Snemma árs 1991 hafði ferðaskrifstofan JSI Travel samband við Hoover og stakk upp á samstarfi. Hugmyndin var sú að allir sem eyddu meira en 100 pundum í Hoover-vörur fengju flugferð fyrir tvo til áfangastaðar í Evrópu. Þannig myndi Hoover auka sölu og JSI næði að fylla flugsæti sem voru ekki að seljast. Til að það myndu ekki allir sem keyptu vörur sækja um flugmiða ákvað Hoover að gera það eins erfitt og hægt var að fá miðana og þetta gekk um skeið, þar til Hoover ákvað að bjóða líka upp á flugmiða til Bandaríkjanna.

Gallinn var að miðarnir til Ameríku voru meira en 600 punda virði og viðvaranir um að þetta yrði stórslys voru hunsaðar. Talið var að aðeins brot þeirra sem versluðu myndu standa í stappinu til að fá flugmiðana og að viðskiptavinir myndu eyða mun meira en 100 pundum, sem myndi vega upp kostnaðinn.

En brátt urðu umsóknir um flugmiða tíu sinnum fleiri en búist hafði verið við. Um 300 þúsund manns keyptu vörur til að fá miða, þannig að Hoover skuldaði fljótlega 600 þúsund flugferðir. Auk þess eyddu viðskiptavinir sjaldan meira en 100 pundum.

Hoover græddi 30 pund á því að selja 119 punda ryksugu en flugmiðarnir tveir voru að minnsta kosti 600 punda virði, þannig að hver einasta sala kostaði Hoover 570 pund. Tilboðið skapaði 30 milljóna punda hagnað, en áætlaður kostnaður við flugferðirnar var yfir 100 milljónir punda.

Flóð af notuðum ryksugum

Hoover gerði því allt sem hægt var til að svíkja viðskiptavini um gefin loforð en þegar fréttir bárust af því að enginn væri að fá miða urðu viðskiptavinir reiðir og fóru að þrýsta á fyrirtækið. Hoover reyndi að koma sökinni á alla aðra en sig, rak yfirmenn og lofaði 20 milljóna punda fjárfestingu í sjóð til að borga flug, en það var bara dropi í hafið. Í lok ársins 1993 var fyrirtækið rekið með mjög miklu tapi og hafði misst orðsporið.

Að lokum var fyrirtækinu skipað að borga fyrir flug fyrir um 220 þúsund manns, þannig að um 300-350 þúsund manns fengu aldrei flugmiðana sína. Markaðshlutdeild Hoover hélt áfram að minnka og flóð af notuðum ryksugum kom í sölu, þannig að enginn keypti lengur nýjar Hoover-ryksugur.

Þessi saga sýnir að það er kannski ekkert sérlega skynsamlegt að bjóða upp á kaupauka sem er verðmætari en varan sjálf.