Ingveldur, eða Inga eins og hún er kölluð, segist vera mjög meðvituð um þessa afsláttardaga og bíða gjarnan eftir þeim með kaup á stærri tækjum. „Ég nýtti mér 11. nóvember, eða Singles’ day í fyrsta skipti fyrir ári. Ég keypti mjög margar jólagjafir á þessum degi. Mér fannst muna miklu á verði, sérstaklega þegar um dýrari vöru var að ræða. Það skiptir alveg máli að fá 20% afslátt, eins og til dæmis þegar keyptar eru dýrar flíkur hjá 66°Norður eða öðrum slíkum fyrirtækjum. Ég hef bara nýtt mér Singles’ day hér heima en það verður áhugavert að sjá nýju vefverslunina, Boozt, á þessum degi. Ég er spennt að sjá hvort þeir verði með einhverja brjálaða afslætti,“ segir Inga.

Notendavæn þjónusta

Þegar Inga er spurð hvort það hafi verið Covid sem kom henni af stað að versla á netinu, svarar hún því játandi. Það hafi skipt máli. „Það kom mér alla vega í gang að kaupa matvörur hjá Heimkaupum. Mér fannst frábært að fá heimsendingu samdægurs með matvörur. Covid hefur líka komið fyrirtækjum í gang með að breyta áherslunum, jafnt með heimsendingum og notendavænni greiðsluleiðum. Ég versla og borga með símanum mínum sem er mjög þægilegt,“ segir hún.

Inga segist líka nota daga eins og Black Friday og Cyber Monday. „Þetta eru stóru dagarnir fyrir tæki og tól. Ég keypti mér þvottavél á Black Friday í fyrra. Mér fannst vera mjög góður afsláttur á Black Friday. Ef maður þarf til dæmis að kaupa heimilistæki bíður maður eftir þeim degi,“ segir hún.

Serbl_Myndatexti:Það er ótrúlega þægilegt að geta notað símann til að versla og fengið góðan afslátt. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Frábært að fá afslátt fyrir jól

Inga segist notfæra sér alla þessa afslætti fyrir jólin. „Þetta er dýrtíðartími og mann munar um þennan afslátt sem er veittur,“ segir hún. „Ég er mjög ánægð með að Íslendingar hafi tekið upp Singles’ Day og aðra afsláttardaga. Peningarnir haldast heima þegar maður verslar innanlands sem hlýtur að vera gott fyrir markaðskerfið. Ég kaupi eitthvað á netinu nokkrum sinnum í mánuði. Eftir Covid hefur maður vanist á að skoða hvað er í boði á netinu. Það er mjög þægilegt þar sem margar netsíður eru orðnar mjög góðar og þægilegt að versla í símanum ef kaupferlið er gott. Sumar verslanir eru líka með þægilegt app.“

Þegar Inga er spurð hver séu bestu kaupin hennar á netinu svarar hún: „Líklega dýrari gjafir. Þvottavélin sem ég keypti í fyrra var mjög góð kaup. Slæm kaup hef ég aðallega gert í fatnaði. Ég hef keypt of lítið eða of stórt. Ég gef þau yfirleitt. Mér finnst mjög sniðugt eins og er hjá Boozt að það er einfalt að senda til baka og öll gjöld eru innifalin í verðinu. Maður þarf ekki að bæta við einhverjum aukagjöldum þegar varan kemur. Ég keypti alltaf mikið á Amazon en fékk alltaf einhverjar aukagreiðslur hjá póstinum sem hækkaði verð vörunnar. Ég hef verið dugleg að kaupa barnabækur á netinu, bæði í gegnum Heimkaup og Forlagið. Einnig hef ég keypt leikföng á fínu verði,“ segir Inga en dóttir hennar er fjögurra ára og er strax komin með skoðanir á netverslun. „Hún bendir stundum á eitthvað í iPadinum og spyr hvort við getum ekki keypt þetta á netinu,“ segir Inga sem er sjálfstætt starfandi markaðssérfræðingur og tók sig til í Covid og fór í mastersnám í markaðsfræði. „Ég starfaði mikið fyrir veitingastaði og ferðaþjónustu sem þurftu að loka svo það var ekki mikið að gera hjá mér. Þess vegna notaði ég tækifærið og fór í nám,“ segir hún.

Þegar Inga er spurð hvort hún sé farin að huga að jólum svarar hún: „Ég er farin að huga að jólagjöfum en byrja ekki að skreyta fyrr en aðventan nálgast og vonandi smá snjór. Dóttir mín á afmæli í desember og við erum byrjaðar að skoða spennandi gjafir á netinu. „Ég býst við að klára allar gjafir á þessum afsláttardögum fram undan og eiga síðan afslappaða aðventu,“ segir hún. ■