Umræða spratt nýlega á Twitter um hvort fólk þorði að taka með sér bókasafnsbækur til útlanda. Sitt sýndist hverjum og þótt hugaðri lesendur veigruðu sér ekki við að taka lánsbækur með á erlendar fjörur kom öðrum það ekki til hugar.

„Það er alveg eitthvað um það að bækur týnast, og við vitum kannski ekki alltaf hvar þær enda, en jú, sumir lánþegar segjast hafa týnt bókunum í fríinu,“ segir Barbara Guðnadóttir, safnstjóri hjá Borgarbókasafninu Grófinni. „Það er verra að gleyma passanum sínum!“

Barbara segir að mörgum þyki óþægilegt að týna bókinni og að vissulega þurfi hver og einn að bera ábyrgð á því sem hann er með að láni.

„Þegar þetta gerist þá farast ekki himinn og jörð,“ segir hún. „Það er best að hafa samband við bókasafnið og þar er hægt að gera upp bækurnar samkvæmt gjaldskrá. Fólk lendir ekki á neinum hræðilegum lista.“