„Þetta eru blómamyndir, ímyndaðar, í raun fantasía. Verkin sjálf eru hálfgerðar lágmyndir eða skúlptúrar eiginlega. Þau eru hálfpartinn í þrívídd,“ segir Ýmir Görnvold, myndlistamaður um verkin á sýningu sinni, Beðið eða The Bed.

Ýmir útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2017 og er þetta fyrsta einkasýningin hans eftir útskrift. Ungi myndlistamaðurinn notar gamlar og þekktar aðferðir, olíu á striga. Hann notar pensilinn til að bæta fleiri blómum við sumarið sem aldrei kom.  

„Það er alltaf hægt að bæta við blómum í heiminn. Mig langaði að skapa einhverjar fallegar myndir og bæta við einhverri fegurð í veröldina. Frekar einfalt í rauninni.“

Titill sýningarinnar rímar vel við verkin sem verða til sýnis, einfaldur en margslunginn um leið. „Nafnið kemur frá Kristínu Önnu vinkonu minni, sýningin heitir Beðið eða The Bed á ensku, mér finnst gaman að merkingin sé tvíræð á báðum tungumálunum,“ segir Ýmir og útskýrir að titillinn geti því bæði táknað blómabeð en einnig sögnina að bíða á íslensku og rúm á ensku.

Verkin eru litrík með sterkt aðdráttarafl sem togar áhorfendur með inn í hugaróra myndlistarmannsins, kannski á annan og betri stað.

„Þetta er á einhverri andlegri línu, sem hefur verið gegnumgangandi þráður í verkunum mínum síðustu ár. Ég var mikið að vinna með tarot spil og örlagatrú áður, en þessi verk tengjast frekar hugleiðslu og eru meira sjónræn þau eru tilviljunarkennd eða eftir einhverju innsæi,“ segir hann að lokum.

Nánar um viðburðinn hér.