Henry er ögrandi uppistandari sem kynnist Ann, sem er heimsfræg sópransöngkona. Ekki líður á löngu þar til þau ákveða að gifta sig og skömmu síðar fæðist þeim dóttir, Annette, sem kemur fyrir í myndinni sem strengjabrúða. Erfiðleikar gera vart við sig í hjónabandinu þegar Henry ver tíma sínum heima við umönnun Annette á meðan ferill Ann blómstrar.

Hjónabandið fer hríðversnandi og það endar með því að Henry og Ann ákveða að reyna að bjarga því með því að fara saman í siglingu. Það fer þó ekki betur en svo að Ann fellur útbyrðis í óveðri. Eftir dauða móður sinnar öðlast Annette skyndilega hæfileikann til að syngja með rödd móður sinnar og nýtir það til að ásækja föður sinn. Kvikmynd sem kemur sífellt á óvart og ekki er allt sem sýnist.

Hér er um að ræða tragikómíska óperu, sem er á mörkum popps og rokks, ferðalag sem áhorfandinn er hrifinn með inn í á ævintýralegan hátt. Jólamynd Bíó Paradísar sem bragð er af með þeim Adam Driver og Marion Cotillard í aðalhlutverkum. Enda er um óhefðbundna óperu að ræða, en það eru engir aðrir en bræðurnir í hljómsveitinni The Sparks sem eru höfundar tónlistarinnar.

Ekki ætluð yngri en 12 ára.

Sýnd í Bíó Paradís.

Fróðleikur

  • Annette er fyrsta mynd leikstjórans Leos Carax, sem er með ensku tali.
  • Rooney Mara átti að leika í Annette en hætti við.
  • Upphaflega var ráðgert að Rihanna myndi leika í myndinni.
  • Upphaflega átti Annette alls ekki að verða kvikmynd heldur hljómplata með hljómsveitinni Sparks

Frumsýnd 9. desember 2021

Aðalhlutverk:
Adam Driver, Marion Cotillard
og Simon Helberg.

Handritshöfundar:
Ron Mael og Russel Mael.

Leikstjóri:
Leos Carax