Bíó Paradís í samstarfi við Samtökin ‘78 og mannréttindahópinn NC SOS stendur fyrir sýningu á heimildarmyndinni Welcome to Chechnya sunnudaginn 12. mars klukkan 16.30. Lucy Shtein, einn meðlima Pussy Riot, er einn skipuleggjenda en hún hefur ásamt kærustu sinni Mariu Alyokhina barist fyrir réttindum hinsegin fólks í Rússlandi og víðar.
„Við erum að halda sýningu og spurt og svarað með David Isteev sem er baráttumaður fyrir mannréttindum og leiðir mannréttindahópinn NC SOS Crisis group sem ég starfa einnig fyrir. Við hjálpum LGBTQ-fólki að flýja rússneska norðurhluta Kákasus, sérstaklega Tsjetsjeníu, þar sem það er ofsótt, pyntað og drepið,“ segir Lucy.

Welcome to Chechnya fjallar um sjálfboðaliða sem leggja líf sitt í hættu við að aðstoða hinsegin fólk í Tsjetsjeníu undan kerfisbundnum ofsóknum stjórnvalda sem hafa ítrekað beint spjótum sínum að hinsegin fólki undir forystu einræðisherrans Ramzans Kadyrov. Myndin kom út á vegum HBO og vann nokkur stór kvikmyndaverðlaun, þar á meðal á Berlinale- og Sundance-kvikmyndahátíðunum auk þess sem hún var á stuttlista Óskarsverðlaunanna.
„Myndin fylgir baráttufólki, þar á meðal David Isteev úr samtökunum okkar, í Tsjetsjeníu og Maxim Lapunov, sem er einnig að koma til Reykjavíkur til að taka þátt í Q&A eftir sýninguna. Hann var handtekinn í Tsjetsjeníu fyrir að vera samkynhneigður og var pyntaður en náði að lokum að sleppa með hjálp David. Myndin segir sögu hans en Maxim var fyrsti maðurinn til að tala opinberlega um það sem er að koma fyrir hinsegin fólk í Tsjetsjeníu og þökk sé honum fékk heimurinn að heyra um mannréttindabrotin gegn LGBTQ-fólki þar,“ segir Lucy.
Welcome to Chechnya kom út árið 2020 en atburðirnir sem hún lýsir gerðust að mestu leyti 2017. Að sögn Lucy hefur ástandið í Tsjetsjeníu einungis versnað síðan þá og segir hún stjórnvöld hafa hert aðgerðir sínar gegn hinsegin fólki enn frekar.
„Árið 2017 vissum við af þessum aðgerðum; pyndingum, mannránum, bælingarmeðferðum. Upphaflega var þetta aðeins að gerast í norðurhluta Kákasus en núna hefur þetta breiðst út um gjörvallt Rússland og við höfum meira að segja fengið upplýsingar um slíkar miðstöðvar í grennd við Moskvu,“ segir hún.
Sýningin í Bíó Paradís er endurgjaldslaus og opin öllum en gestir eru þó hvattir til að leggja málefni samtakanna NC SOS lið.
„Við verðum með QR-kóða og fólk getur styrkt okkur ef það vill. Við munum líka selja stuttermaboli og ýmsan varning en allur ágóði fer í vinnu okkar við að bjarga fólki frá þessu svæði,“ segir Lucy.