Þórdís Helgadóttir bar sigur úr býtum í ljóðasamkeppninni Ljóðstafur Jóns úr Vör. „Þetta kemur skemmtilega á óvart og er mikill heiður,“ segir Þórdís. Hún hefur sent frá sér nokkur verk. Smásagnasafn hennar, Keisaramörgæsir, kom út árið 2018. Ásamt höfundakollektífinu Svikaskáldum sendi hún frá sér ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd og Nú sker ég netin mín. Hún var Leikskáld Borgarleikhússins 2019-2020, auk þess sem leikverk hennar Þensla hefur verið sett upp í Borgarleikhúsinu.

Svigrúm til tilrauna

Um verðlaunaljóð sitt, Fasaskipti, segir Þórdís: „Ég er að yrkja um börn og veturinn og tímann. Titillinn vísar í senn í skilin á milli árstíða og fasaskiptin í lífinu, þessi ólíku tilverustig, að vera barn og að vera foreldri.“

Hún segir ljóðið standa sjálfstætt en bætir við: „Allt sem ég skrifa er einhvern veginn í samfellu og verkin blæða alltaf hvert inn í annað. Það birtast í þessu ljóði myndir og hugmyndir sem hafa lifað með mér lengi og dúkka upp hér og þar.“

Þórdís er með ljóðabók og skáldsögu í smíðum. Í maí kemur þar að auki út ljóðsaga eftir hana sem Svikaskáld gefa út. „Þriðji staðurinn. Þetta er verk sem er óhefðbundið í forminu og fjallar um drauma og klisjur. Að gefa út hjá Svikaskáldum hefur í för með sér svigrúm til að gera tilraunir og gera eitthvað skrítið og djarft.“

Spurð um skáldsöguna sem hún er að vinna að segir Þórdís: „Hún fjallar um hjón sem eru á flakki um Evrópu í bílaleigubíl þar til einn daginn að eiginmaðurinn hverfur. Þetta er saga konunnar sem lendir í eins konar limbói, veit ekki hvað hefur orðið um manninn eða hver hún er án hans. Þetta er tilvistarlegt ferðalag í bland við krimma.“

Komin heim

Þórdís tók BA-próf í heimspeki og var í doktorsnámi í Bandaríkjunum en hætti eftir tvö ár. „Ég fann mig ekki í akademíunni og var bara pínu vannærð á sálinni. Mig hafði alltaf langað til að vera listamaður og sniglaðist mjög lengi í kringum þann draum áður en ég fann kjarkinn til að láta vaða.“ Þórdís lærði, auk heimspekinnar, ritstjórn og útgáfu í Háskóla Íslands og er nú að ljúka meistaranámi í ritlist. „Ég tók á endanum skrefið inn í ritlistina og um leið var eins og ég væri komin heim,“ segir hún.

Skilar heimspekin sér í skáldskap hennar? „Já, ekki spurning. Ég er yfirleitt ekki meðvitað að takast á við heimspekilegar spurningar, en þær seytla alltaf inn í einhverri mynd, óboðnar. Það er bara ég. Kona þarf að læra að sleppa tökunum og leyfa því sem vill koma að koma. Þannig verða verkin sönn.“