Maria kemur frá Rússlandi en flutti til Íslands fyrir tveimur árum þar sem hún býr með ungum syni sínum og föður hans. Í Rússlandi starfaði Maria hjá stóru fyrirtæki í upplýsingatæknigeiranum en fyrir um það bil hálfu ári byrjaði hún að prófa sig áfram í sápugerð og varð hugfangin af ferlinu. Sápurnar kallar hún Skessusápur. Maria er mjög heilluð af Íslandi og íslenskri náttúru og notar því mikið af íslenskum innihaldsefnum í sápurnar sínar.

„Íslensk náttúra og móðurhlutverkið varð innblásturinn að því að ég fór að búa til sápur. Þær eru úr hreinum náttúrulegum innihaldsefnum og ég bæti engu í þær til að tryggja að þær henti viðkvæmri húðinni á mér og líka barnsins míns,“ segir Maria.

„Ég fór að lesa bækur um sápugerð til að átta mig betur á virkni efnanna. Ég byrjaði á að nota svokallaða kalda aðferð sem er algengust í sápugerð. Ég komst svo seinna að því að það er líka til heit aðferð sem býður upp á þann möguleika að bæta við innihaldsefnum eftir að lúturinn hefur verið fullnýttur. Með þeirri aðferð nýtast virku náttúrulegu innihaldsefnin mun betur, það er að segja hinar ýmsu jurtir, mosar og jurtaþykkni sem ég bæti út í sápurnar mínar. Græðandi eiginleikar náttúrulegu olíunnar varðveitast líka betur með þessari aðferð.“

Maria segir að þegar hún áttaði sig á því að meirihlutinn af þeim sápum sem hægt er að kaupa úti í búð er ekki búinn til með þessari heitu aðferð varð hún enn áhugasamari um að búa sjálf til sápur.

Sápuframleiðslan fer fram á heimili Mariu. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Prófaði að nota lýsi í sápu

„Ég er núna nánast í fullu starfi við að búa til sápur og að þróa nýjar sápuuppskriftir. Af mörgum áhugaverðum séríslenskum innihaldsefnum nota ég tólg mikið. Tólgin líkist húðfitu mannsins og virknin helst vel í framleiðsluferlinu. Tólgin gerir húðina mjúka og raka svo sápa úr tólg er mjög vinsæl hjá fólki með þurra og viðkvæma húð. Sérstaklega núna á tímum COVID þegar fólk er að þvo sér mjög mikið um hendurnar,“ útskýrir Maria.

„Hreindýramosi er uppáhalds innihaldsefnið mitt. Það er svo yndisleg og sérstök upplifun að fara út að safna mosanum og hann hefur bakteríudrepandi eiginleika. Svo er hann líka svo góður fyrir húðina. En ég gæti trúað að djarfasta tilraunin mín í sápugerðinni sé að nota Lýsi í sápu sem ég kalla „Fisherman’s Wife“ (Sjómannskonan). Ég er ekki viss um að nokkur hafi gert það áður en sápan reyndist hafa ýmsa góða eiginleika. Hún var passlega hörð, rakagefandi og löðraði vel. En lyktin er líklega eitthvað sem þarf að venjast. Sápan hefur allavega verið vinsælli hjá Íslendingum en útlendingum.“

Sápurnar eur framleiddar með heitri aðferð til að virkni innihaldsefnanna haldi sér.

Maria byrjaði á að búa eingöngu til sápur til einkanota en eftir því sem sápugerðaráhuginn jókst fór hún að gera sápur í stærra upplagi.

„Þegar ég lærði að búa til sápur nýttist verkfræðimenntunin mín vel. Ég safnaði upplýsingum meðal annars úr sérfræðibókum og prófaði mig svo bara áfram. Möguleikarnir eru endalausir og ég er enn að læra eitthvað nýtt á hverjum degi.“

Maria hefur þróað ýmsar mismunandi sáputegundir.

Treystir á umsagnir notenda

Sápurnar sem Maria býr til ættu að henta flestum húðgerðum þar sem þær innihalda engin aukaefni sem geta ert húðina.

„Sem dæmi má nefna að maður í fjölskyldu sonar míns skipti algjörlega yfir í mínar sápur af því hann fékk útbrot og kláða þegar hann þvoði sér með sápum keyptum úti í búð. Hann finnur ekki fyrir slíku þegar hann notar mínar sápur. Ég er ekki með neina rannsóknarstofu eða innviði í líkingu við stór lyfjafyrirtæki svo ég treysti bara á það sem fólkið sem hefur notað sápurnar mínar segir mér. Þannig veit ég oft hvaða sápur henta fyrir ákveðin húðvandamál. Ég er með Facebook-síðu fyrir sápurnar mínar þar sem ég hvet fólk til að deila reynslu sinni og svo er ég með vefsíðuna skessusapur.is þar sem má skoða sápurnar.“